Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:05:46 (4373)

1997-03-12 16:05:46# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:05]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Um þessar mundir eru tvær nefndir að störfum á vegum heilbrrn. sem fjalla um framtíð heilbrigðismála. Annars vegar um skipulag, hins vegar um forgangsröðun og ég á sæti í síðartöldu nefndinni ásamt fulltrúum allra annarra þingflokka. En á sama tíma og þessar nefndir eru að störfum er ráðuneytið að hræra í verkaskiptingu sjúkrahúsanna úti á landi vegna þess að meiningin er að ná fram 60 millj. kr. sparnaði á þessu ári. Ég spyr: Hefði ekki verið nær að bíða eftir tillögum nefndanna og reyna á grundvelli þeirra að ná samkomulagi um framtíðarskipan sjúkrahúsmála sem augljóslega þarf að stokka upp? Það þarf að skilgreina hvaða þjónustu skuli veita á hverjum stað og hvort ekki er hægt að breyta eða fækka þeim sjúkrahúsum sem nú eru starfandi með mismikla þjónustu. Hæstv. heilbrrh. kaus að bíða ekki og setti nefnd í að gera tillögur um niðurskurðinn án þess að eðlilegt samráð væri haft við heimamenn en það er auðvitað besta leiðin til þess að gera allt vitlaust og kveða allar slíkar tillögur í kútinn.

Fyrr í vetur hlustaði ég á einn af forsvarsmönnum sjúkrahússins á Egilsstöðum velta því fyrir sér hvort hægt væri að auka samvinnu og ná fram hagræðingu á hans svæði. Hann komst að þeirri niðurstöðu að afar erfitt væri að ná fram aukinni verkaskiptingu án þess að því fygldi aukinn kostnaður, m.a. vegna ferða á milli staða. Það verk að endurskipuleggja sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni, kallar á mikla vinnu og er verk sem ekki er hægt að vinna í krafti sparnaðartillagna heldur verður að liggja til grundvallar skynsamleg áætlun og ákvarðanir um skipulag og þjónustu á hverjum stað. Slíkra tillagna er að vænta eftir því sem ég best veit. Og því spyr ég: Væri ekki rétt að bíða átekta og vinna að nauðsynlegum endurbótum í ljósi almannahags og þess hvað okkar þjóðfélag ræður við í sem bestri samvinnu við alla aðila? Ég held að slík aðferð hljóti að duga best þegar til lengri tíma er litið.