1997-03-18 15:48:20# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Varðandi áform hæstv. ríkisstjórnar í lífeyristryggingamálum, þau sem frést hefur af, þá verð ég að segja að þau eru að mínu mati bæði ótrúlega ósvífin og ótrúlega vitlaus. Það er ótrúlega ósvífið að hæstv. ríkisstjórn skuli vera að kokka um þessi mál á bak við tjöldin, á bak við aðila vinnumarkaðarins og það jafnvel á tímum þegar kjarasamningagerð stendur yfir. En það er líka ótrúlega vitlaust ef hæstv. ríkisstjórn ætlar með þessu að hefja hér breytingar í lífeyrismálum sem byrja að grafa undan því uppsöfnunarkerfi samtryggingarsjóða sem við Íslendingar erum þó á góðir leið með að byggja upp með fullnægjandi hætti. Þetta uppsöfnunarkerfi samtryggingarsjóða skín eins og ljós í myrkri þegar vestrænar þjóðir horfa til þeirra viðfangsefna sem fram undan eru hvað varðar það að tryggja öldruðum, sístækkandi hópi aldraðra, lífeyri á komandi áratugum. Þá er það íslenska uppsöfnunarkerfið í samtryggingarsjóðum sem menn horfa til sem langálitlegasta fordæmisins sem nokkurs staðar er að finna. Það er því í senn bæði ótrúlega ósvífið og ótrúlega vitlaust ef hæstv. ríkisstjórn ætlar nú að sólunda þessu kerfi. Varðandi hins vegar kaup Landsbanka Íslands á 50% eignarhlut í Vátryggingafélagi Íslands þá er þar á ferð gífurlega stórt mál í íslenskum peningaheimi, það er nánast risavaxið mál. En þá vill svo vel til --- fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott --- að hér fyrir Alþingi eru mál um breytingar á ríkisbönkunum, þar með talið Landsbankanum, í hlutafélag. Það er alveg ljóst, herra forseti að þessi atburður setur það mál í allt annað samhengi, kostar miklu ítarlegri vinnu á vettvangi efh.- og viðskn. og þingsins að þessu máli. Ég lít svo á að þetta sé enn frekari röksemd fyrir því að ótímabær og hröðuð afgreiðsla þessara mála hér á vorþinginu komi ekki til greina. Það er óhjákvæmilegt að fara yfir forsendur þessa mál á nýjan leik frá grunni. Reyndar hefur efh.- og viðskn. þegar hafið störf hvað það varðar.