Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 16:15:51 (4605)

1997-03-18 16:15:51# 121. lþ. 92.11 fundur 437. mál: #A virðisaukaskattur# (afmörkun skattskyldu o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:15]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Þetta mál er 437. mál þingsins og er að finna á þskj. 746.

Eins og fram kemur í greinargerð með þessu máli er verið að leggja til breytingar sem miða fyrst og fremst að því að kveða með skýrari hætti en nú er gert í lögum um afmörkun skattskyldu í einstökum tilvikum. Telja verður að lögin verði heildstæðari við þessar breytingar en þau eru nú og jafnframt verði framkvæmd þeirra styrkt og réttaröryggi borgaranna betur tryggt en áður.

Í fyrsta lagi er í þessum lögum lagt til að skattskylda verði afmörkuð skýrar en nú og byggir það m.a. á breytingum sem gerðar hafa verið á stjórnarskipunarlögum hér fyrir fáeinum árum. Til þess að gera virðisaukaskattslögin heildstæðari er í frumvarpinu lagt til að skattskyldan verði afmörkuð í lögunum með því að gera heimildarákvæði varðandi skattskyldu, undanþágur og endurgreiðslur skýrari.

Í öðru lagi er lagt til að undanþáguákvæði laganna er snýr að bankastarfsemi verði gert skýrara með það að markmiði að styrkja gildandi framkvæmd. Hér er ekki um að ræða efnislega breytingu heldur er þessi breyting gerð til þess að styrkja núverandi stefnu sem kemur fram í lögum.

Í þriðja lagi er lagt til að vörur sem skattskyldur aðili flytur til landsins, séu undanþegnar virðisaukaskatti ef heildarverðmæti þeirra nemur ekki meira en 1.500 kr. Þessi undanþága nær þó hvorki til áfengis né tóbaks. Hér er um að ræða ívilnandi breytingu.

Í fjórða lagi er verið að styrkja málsmeðferðarákvæði.

Í fimmta lagi er um að ræða breytingar sem koma fram í 4. gr. frv. og ég mun fjalla sérstaklega um síðar í máli mínu.

Ég mun nú rétt víkja, virðulegi forseti, að einstökum greinum frv.

Í 1. gr. er annars vegar lagt til að 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaganna verði gerður skýrari og afdráttarlausari. Þar verði kveðið á um að góðgerðarstarfsemi sé undanþegin skattskyldu í stað þess að fjmrh. hafi ákvörðunarvald um slíkt. Sala fjármálastofnana á ýmissi annarri þjónustu en þeirri sem háð er starfsleyfi þeirra er hins vegar sem fyrr segir í þessari greinargerð skattskyld að því leyti sem hún er í samkeppni við aðra aðila. Þannig er t.d. ýmis innheimtustarfsemi skattskyld önnur en innheimta á eigin kröfum, þar með talin útgáfa og dreifing á reikningum fyrir aðra aðila. Þá er í 2. tölul. gerð tillaga um að kveðið sé skýrar á um skattskyldu í lögunum.

Sé litið til 2. gr. þá er þar lagt til að afnumin verði heimild fjmrh. til að ákveða hvenær um sé að ræða skattskyldu vegna eigin þjónustu og hún ákveðin skýrt í lögunum sjálfum.

Í 2. gr. er verið að lögfesta gildandi rétt, sem er í 2. mgr. 3. gr. laganna, gera hann skýrari heldur en hann er nú þegar hann er að mestu leyti í reglugerðum.

Fjármálaráðherra hefur gefið út þrjár reglugerðir um þetta efni, þ.e. reglugerð nr. 562/1989, nr. 576/1989 og nr. 248/1990. Í meginatriðum gerir tillagan hér ráð fyrir óbreyttri framkvæmd en leitast er við að orða megininntak þessara reglugerða og setja það í lögin. Ekki er gert ráð fyrir að neinar breytingar verði á skattskyldu vegna eigin starfsemi frá því sem gilt hefur samkvæmt fyrrgreindum reglugerðum.

Með þessum ákvæðum er mælt fyrir um almenna skyldu til að standa skil á virðisaukaskatti af eigin þjónustu og framleiðslu í öðrum tilvikum en þegar um er að ræða almenna skrifstofuvinnu og hliðstæða starfsemi sem ekki verður talin vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki á viðkomandi sviði.

Í öðru lagi, og það er ekki efnisleg breyting, má geta þess að í 2. og 3. málslið er að finna reglur um skyldu þeirra sem byggja eða reisa hús eða önnur mannvirki fyrir eigin reikning til að reikna virðisaukaskatt af byggingarstarfseminni.

Sé litið til 3. gr. frv. þá er þar um að ræða smávægilega orðalagsbreytingu en með þessari breytingu er tryggt að aðilar sem fjárfesta í þjónustugreinum eigi jafnan rétt og aðilar sem fjárfesta í framleiðslugreinum til að fá skráningu þrátt fyrir að tekjur verði ekki af starfseminni strax í upphafi.

Í 4. gr. er um að ræða nokkra efnisbreytingu. Í fyrsta lagi er lagt til að fjarskiptaþjónusta teljist ekki veitt erlendis ef kaupandi hennar er annaðhvort með búsetu eða fasta starfsstöð hér á landi. Þetta skýrist af vaxandi notkun GSM-síma erlendis.

Í öðru lagi, og þar er um smávægilega efnisbreytingu að ræða einnig, er lagt til að fellt verði brott heimildarákvæði fjármálaráðherra til að ákveða undanþágur vegna þjónustu sem veitt er hér á landi til aðila sem hafa heimilisfesti erlendis. Í staðinn verði lögákveðið að sala á þjónustu til erlendra aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi sé undanþegin skattskyldri veltu í þeim tilvikum sem þjónustan er að öllu leyti nýtt erlendis. Þess í stað geta erlendir rekstraraðilar sem kaupa viðkomandi þjónustu hér á landi fengið virðisaukaskatt af henni endurgreiddan samkvæmt reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.

Kem ég þá að 5. gr., virðulegi forseti. Lagt er til í þeirri grein að lögfest verði heimild fyrir skattstjóra til að fresta endurgreiðslu virðisaukaskatts í þeim tilvikum sem skattstjóri telur að um skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga sé að ræða. Með þessu er verið að tryggja að skattstjóri geti stöðvað útgreiðslur úr ríkissjóði á meðan mál eru í rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Í 6. gr. er lagt til að lögbundið verði að aðilar, sem fá of háa endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli 1., 3. og 4. mgr. 42. gr. og 3. mgr. 43. gr. laganna skuli sæta álagi.

Í 7. gr. er lagt til að styttur verði sá frestur sem skattskyldur aðili fær til að að ráða bót á tekjuskráningarkerfi sínu og bókhaldi þegar skattrannsóknarstjóri ríkisins beinir fyrirmælum til hans um úrbætur. Hér er verið að stytta frestinn úr 45 dögum í 15 daga.

Í 8. gr. er lagt til að kveðið verði skýrt á um það í lögunum að greiða skuli virðisaukaskatt af þjónustu sem keypt er erlendis frá og nýtt hér á landi. Í gildandi lögum er það lagt í vald ráðherra að kveða á um greiðsluskylduna í reglugerð. þ.e. reglugerð nr. 194/1990, þannig að hér er verið að færa yfir í lög það sem áður hefur verið í reglugerð. Til viðbótar, og það er efnisbreyting, þykir rétt að kveða á um það að ef erlendir aðilar veita skattskylda þjónustu hér á landi beri kaupanda að greiða virðisaukaskatt af henni, enda hafi hinn erlendi aðili hvorki starfsstöð né umboðsmann hérlendis. Þá er jafnframt tekið fram í 2. mgr. 8. gr. að ef kaupandi þjónustunnar er skráður aðili og getur talið virðisaukaskatt af þjónustunni til innskatts fellur greiðsluskyldan niður. Ákvæði 2. mgr. er sama efnis og 2. mgr. 4. gr. umræddrar reglugerðar sem ég hef áður vitnað til.

Í 9. gr. er í fyrsta lagi lagt til að lögákveðið verði að ritað mál sem berst til landsins án endurgjalds sé undanþegið greiðslu virðisaukaskatts, enda sé innflutningurinn ekki í viðskiptaskyni. Tillaga þessi er í samræmi viðgildandi framkvæmd samkvæmt reglugerð nr. 71/1993. Í öðru lagi er lagt til að vörur, sem fluttar eru til landsins af virðisaukaskattsskyldum aðilum verði undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning, sé tollverð þeirra 1.500 kr. eða lægra. Telja verður að síðarnefnd breyting hefði ein og sér óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs, þar sem innflytjanda væri ella heimilt að draga greiddan virðisaukaskatt af vörunum frá sem innskatt í uppgjöri. Hins vegar skal bent á að samkvæmt reglugerð nr. 327/1990, um tollafgreiðslu hraðsendinga, er í dag innheimt sérstakt gjald af slíkum sendingum ef verðmæti þeirra er undir 20 SDR, þ.e. sérstakra dráttarréttinda, sem eru um 2.000 íslenskar krónur. Þetta er nokkurt tekjutap fyrir ríkissjóð eða 9 millj. sé miðað við sl. ár og því má telja að ríkissjóður verði í framtíðinni af þeim tekjum sem hann hefur haft af gjaldi af verðlitlum hraðsendingum.

Það þarf ekki að skýra 10. gr. en í 11. gr. er lagt til að felld verði brott heimild fjármálaráðherra skv. 3. mgr. 42. gr. laganna til að endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt við kaup á skattskyldri vöru eða þjónustu. Í stað heimildarákvæðisins er lagt til að sú þjónusta og vara, sem er endurgreiðsluhæf skv. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, verði tæmandi upptalning í ákvæðinu. Tillagan er auðvitað í samræmi við aðrar breytingar, en hér er fyrst og fremst um það að ræða að færa yfir úr reglugerð í lög það sem menn telja samkvæmt nýjum siðum, venjum og lögum hér á landi að eigi fremur heima í lögum en í reglugerð.

Ég lýk hér máli mínu og þakka fjölmörgum hv. þm. áheyrnina og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.