Hvalveiðar

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:18:12 (5770)

1997-05-05 15:18:12# 121. lþ. 116.1 fundur 302#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta voru allmargar spurningar um hvalamálið en það er hægt að svara þeim flestum mjög stuttlega.

Í fyrsta lagi. Hvenær er að vænta niðurstöðu ríkisstjórnarinnar varðandi það nefndarstarf sem unnið hefur verið á hennar vegum með þátttöku stjórnarliðs og stjórnarandstæðinga? Ég geri ráð fyrir að það verði afgreitt á ríkisstjórnarfundi á miðvikudag.

Varðandi það hvort ég sé sammála orðum hæstv. utanrrh. um að spurningin sé ekki hvort heldur hvenær hvalveiðar hefjist, þá er ég sammála því. Það kom fram í ræðu minni. Ég held að ég hafi nákvæmlega orðað það þannig að spursmálið væri ekki um það hvort hvalveiðar hæfust heldur hvernig það mætti bera að og hvenær, þannig að enginn ágreiningur er um það efni, enda sendi ég utanrrh. náttúrlega ræðu mína áður en ég flutti hana þannig að hann hefði getað gert athugasemdir við það atriði hefði hann kosið sem hann gerði ekki.

Ég var jafnframt spurður hvort ég væri ósammála þeim yfirlýsingum sem eignaðar voru hæstv. sjútvrh. um að markaðir væru fyrir hvalaafurðir í Japan. Hæstv. sjútvrh. hefur tekið sérstaklega fram, og það hefur því miður verið rangfært eftir honum, að þegar hann átti viðræður við japanska stjórnmálamenn og embættismenn, þá kom fram í þeim viðræðum að Japanar mundu ekki kaupa íslenskar hvalaafurðir nema þá því aðeins að Íslendingar væru aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Eingöngu þá og reyndar voru ekki endilega gefnar yfirlýsingar um að keyptar yrðu vörur, en það væri algjör forsenda þess að hvalaafurðir væru keyptar að Íslendingar væru í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þetta hafa menn látið fram hjá sér fara.

Þegar ég segi að menn tali skýrt, þá hafa menn sagt sem svo: ,,Norðmenn hafa komist upp með það að veiða hval. Því skyldum við ekki komast upp með það?`` Ég segi að menn verða að tala skýrt vegna þess að Norðmenn hafa bara komist upp með að veiða hval sér til heimabrúks, ekki til útflutnings. Þess vegna er ekki gilt að vitna til reynslu Norðmanna, ef menn ætla sér að fara að flytja út hval í stórum stíl án þess að vita um markaðinn.

Síðan spyr hv. þm., og er það út af fyrir sig útúrsnúningur og ekki mjög merkilegur, hvort þingið og slíkir aðilar eigi að fara að stunda markaðsstarfsemi. Í þessu dæmi er það þannig að ef markaðurinn er ekki fyrir hendi, þá fara menn varla að taka slag sem getur orðið mjög kostnaðarsamur fyrir íslenska ríkið og fyrir ýmsar atvinnugreinar. Ef markaðurinn er ekki fyrir hendi, þá tökum við ekki slíkan slag þannig að þessi spurning var út í hött.