Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:38:28 (5823)

1997-05-05 16:38:28# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:38]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Þannig háttar nú til að atkvæðagreiðsla er ferill ákveðinna ákvarðana sem hér eru teknar og auðvitað er hægt að fresta atkvæðagreiðslu í miðri atkvæðagreiðslu þó að umræðu sé lokið. Ég vil því hvetja forseta mjög eindregið til þess að verða við þeim sanngjörnu óskum sem hér hafa komið fram. Ég held að það yrði til þess að greiða fyrir meðferð málsins.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram frá ýmsum hv. þm. að það liggja fyrir algerlega nýjar forsendur í málinu frá hæstv. félmrh. og frá hv. varaformanni félmn., algerlega nýjar forsendur, þar sem hv. varaformaður félmn. upplýsti að ríkisstjórnin væri e.t.v. með fjármuni til þess að setja í þetta mál þó að það sé auðvitað Alþingi sem hafi fjárveitingavaldið. Þessar nýju upplýsingar kalla auðvitað á að það verði gert hlé á málinu og ég skora á ráðherrana og ég skora á forsetann að brjóta odd af oflæti sínu og taka þennan frest núna þannig að menn geti talað um þetta mál. Það mun flýta fyrir meðferð málsins.