Helgidagafriður

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 17:57:39 (5847)

1997-05-05 17:57:39# 121. lþ. 116.9 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., VS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:57]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Sú brtt. sem hér er til atkvæða gengur út á það að fá að halda dansleiki eftir kl. 12 á föstudaginn langa. Eins og hafði komið fram í umræðu hafði allshn. unnið þetta mál ákaflega faglega og komist að sameiginlegri niðurstöðu, alla vega nefndin sem slík, en hér er sem sagt komin til atkvæða brtt. flutt af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni.

Ég er andvíg þessari brtt. vegna þess að að mínu mati á föstudagurinn langi að vera heilagur og við vitum öll að ef dansleikir hefjast kl. 12 á miðnætti, þá þýðir það ákveðinn gleðskap strax að kvöldi dags föstudaginn langa. (Gripið fram í.) En ég vil hins vegar taka fram,

(Forseti (ÓE): Hafa hljóð í salnum.)

hæstv. forseti, að í frv. eins og það liggur fyrir nú við lokaafgreiðslu, þá er heimilt að halda dansleiki á laugardeginum fyrir páska, sem sagt daginn eftir. Og það kvöld, sem er nýmæli, --- þetta er nefnilega mjög mikilvægt atriði. Þetta eru mjög merkileg nýmæli --- það kvöld má halda dansleiki, þ.e. á laugardeginum fyrir páska, sem sagt daginn eftir og þeir dansleikir mega vera fram á nóttina þar sem helgi páskadagsins hefst ekki fyrr en kl. 3 um nóttina.

Þingmaðurinn segir nei.