Helgidagafriður

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 18:04:24 (5853)

1997-05-05 18:04:24# 121. lþ. 116.9 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., HjálmJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[18:04]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Lög um helgidagafrið sem hér eru til 3. umr. í atkvæðagreiðslu fela í sér verulega rýmkun á því sem heimilt er á helgidögum þjóðkirkjunnar. Þessi lög eru til þess að tryggja rétt einstaklinganna í þjóðfélaginu fyrir frið og rétt þeirra til hvíldar. Þau eru ekki hégómamál heldur afar mikilvæg sem umgjörð um mannlífið í landinu eftir því sem til þeirra tekur.

Þau rök sem hér hafa verið borin fram fyrir því að dansa aðfaranótt laugardagsins fyrir páska sýnast mér helst til rýr, þ.e. helst þau að helgidagarnir séu farnir að trufla skemmtanafrið á Vestfjörðum. Ég kýs að greiða þessu ekki atkvæði.