Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 21:57:58 (6539)

1997-05-14 21:57:58# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[21:57]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Núverandi ríkisstjórn hefur nú runnið kjörtímabil sitt til hálfs og á slíkum tímamótum er góður siður að staldra við og líta yfir farinn veg. Leiðrétta stefnuna, læra af þeim mistökum sem gerð voru í fyrri hálfleik í þeirri von að hinn síðari taki hinum fyrri fram.

Ríkisstjórnin fór í upphafi af stað með glæst fyrirheit. Sjálfstfl. ætlaði að forgangsraða í þágu menntunar, eða svo sagði hann, og Framsfl. ætlaði, sem kunnugt er, að hafa fólk í fyrirrúmi. Flokkarnir sem að þessari ríkisstjórn standa voru á hinn bóginn svo óheppnir að fá svo massívan meiri hluta að hann má heita með öllu skotheldur og því þurfa umræddir flokkar og foringjar þeirra ekki að taka tillit til neins nema hvors annars og tæplega það. Því kom fljótlega í ljós að þeir draugar sem löngum hafa rjálað þar við hurðarlokur að næturþeli gerðust nú svo aðsópsmiklir að þeir riðu þar röftum um hábjartan dag.

Helsta áhugamál stjórnarflokkanna var að létta álögum af fyrirtækjum og sjá til þess að skattar þeirra hækkuðu ekki og helst lækkuðu. Þetta hét að efla hag atvinnuveganna. Skuldabyrði almennings þyngdist á hinn bóginn sífellt og jafnframt voru í auknum mæli tekin upp svokölluð þjónustugjöld sem eru í raun sérskattur á vissa þjóðfélagshópa, svo sem sjúklinga. Meðan kvótabrask er að leggja ákveðin byggðarlög í eyði, meðan ríkisstjórnin einbeitir sér að því að draga taum atvinnurekenda í einu og öllu og jafnframt að skerða afl verkalýðsfélaganna þannig að laun almennings hér á landi, þrátt fyrir nýgerða kjarasamninga, eru fyrir neðan allt velsæmi, meðan bilið milli þess hluta þjóðarinnar sem býr við raunverulega fátækt og hinna sem vita ekki aura sinna tal breikkar stöðugt, þá hefur ríkisstjórnin ekki önnur svör en að í fyllingu tímans muni markaðurinn leysa allan vanda ef við bara gætum þess að draga úr öllum afskiptum ríkisvalds, einkavæða allt sem hugsanlega má græða á og halda öllum kaupkröfum í skefjum.

Ef þetta heitir að setja fólk í fyrirrúm þá þætti mér fyrir mitt leyti vænt um að fá að skipa annað rúm.

Ég ætlaði ekki, hæstv. forseti, að gera efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar almennt að umtalsefni í kvöld heldur ætlaði ég í örstuttu máli að víkja að stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem sjálfur landsfundur Sjálfstfl. samþykkti á haustdögum að skyldu forgangsraðast við skiptingu ríkisútgjalda, þ.e. menntamálum. Mér virðist raunar að hæstv. menntmrh. sýni í verkum sínum þessu stefnumáli landsfundarins alveg ótrúlega fyrirlitningu. Þetta kemur mér nokkuð á óvart því hæstv. menntmrh. var þó sjálfur á nefndum landsfundi. En viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessari áskorun um að forgangsraða í þágu menntunar urðu sem hér segir.

Fyrst var skorið niður fé til framhaldsskólanna og var þar sérstaklega vegið að fámennum dreifbýlisskólum. Síðan var lagður fallskattur á alla þá framhaldsskólanemendur sem ekki standast námskröfur og var ekkert smáræði sem ríkið ætlaði að hafa upp úr því eða heilar 32 milljónir á ári sem átti aðallega að bitna á nemendum í fjölbrautaskólum.

Reglum um innheimtu á efnisgjaldi var breytt í tengslum við samþykkt frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og var sá hluti sem nemendur þurfa að greiða þar þyngdur verulega.

En þetta var ekki nóg heldur kom frá ríkisstjórninni frv. um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Við þetta frv. höfðu ýmsir bundið nokkrar vonir því Framsfl. hafði fyrir síðustu kosningar gefið mjög glæst loforð um endurbætur á sjóðnum, bæði hvað varðaði svonefndar samtímagreiðslur og endurgreiðslur námslána. En þær endurbætur sem verða í kjölfar samþykktar þess frv. sem hér liggur nú fyrir eru vægast sagt í örsmáum stíl og þær væntingar sem gefnar höfðu verið engan veginn uppfylltar. Í stað þess að koma á samtímagreiðslum er sett upp flókið styrkjakerfi til að greiða námsmönnum styrk til að greiða bönkunum upp í vaxtakostnað vegna framfærslulána og endurgreiðslubyrðin er lækkuð um 0,25%. Það er allt og sumt. Þetta þýðir að hjá manni sem hefur 150 þús. krónur á mánuði í tekjur lækkar endurgreiðslubyrðin um u.þ.b. 5 þús. kr. á ári. Og til þess að ekki yrði nú stílbrot hjá hæstv. ríkisstjórn þá lækka t.d. endurgreiðslur námslána hjá þeim sem lægst hafa launin eftir háskólapróf, eins og uppeldisstéttum og raunar fleiri stéttum, ekki neitt við samþykkt þessa frv. vegna þess að ríkisstjórnin hyggst ekki lækka svokallaða fastagreiðslu.

Þetta var það sem kallað er á hátíðarstundum að setja menntamál í forgang.

Til þjóðarinnar á ég þá ósk heitasta að síðari hálfleikur ríkisstjórnarinnar verði skárri en sá fyrri en satt að segja á ég tæpast von á því að hún rætist því til þess að það mætti gerast þyrfti stefnubreytingu um 180°.

Meðan ríkisstjórn samsamar sig algjörlega gróðaöflum í þjóðfélaginu og dregur markvisst úr stuðningi við þá sem minna mega sín og lætur markaðsöflin óheft móta stefnuna undir kjörorðinu fjandinn hirði þann aftasta, þá á ég ekki von á að síðari ganga hennar verði betri en sú fyrri. Ekki síst þegar svör til þeirra sem draga í efa erkibiskupsboðskap einkavinavæðingarinnar eru þau ein að spurt er með einhvers konar strákslegum hroka hvort menn séu heyrnarlausir þegar þeir draga í efa réttmæti þess að tugum manna sé sagt upp störfum í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum eins og hæstv. utanrrh. gerði á dögunum.