Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 12:17:49 (6588)

1997-05-15 12:17:49# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[12:17]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að mótmæla því að ekki séu á ferðinni stór tíðindi og aukinheldur að hv. þm. Egill Jónsson er vitaskuld ekki einn á báti vegna þess að röksemdafærsla hans er að meginhluta til í samræmi við röksemdafærslu þá sem minni hlutinn setti fram.

Það kom fram í andsvari hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að fyrir liggur að annar stjórnarflokkurinn ætlar að taka þetta mál upp á þingflokksfundi nú á eftir og verði niðurstaða hans þar sú að þeir telji ástæðu til þess að geyma þetta mál þá þjónar frekari umræða um málið engum sérstökum tilgangi. Ég tek því undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni og legg til að málinu verði frestað um stund og menn reyni þá að taka önnur mál fyrir því að það þjónar engum tilgangi ef niðurstaða þingflokks sjálfstæðismanna verður sú að fresta málinu að halda umræðum áfram.