Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 12:24:11 (6592)

1997-05-15 12:24:11# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[12:24]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þar sem ég vakti máls á því hvort ekki væri heppilegra að fresta umræðu vil ég segja að ég er ekki sammála forseta í úrskurði hans en vitaskuld hlíti ég honum.

Ég bendi á að stjórnarandstaðan hefur verið mjög vinsamleg í allri afgreiðslu mála og er ekkert út á það að setja. Við erum að reyna að keppast við að ljúka miklum og merkilegum málum. Hins vegar hefur komið fram í umræðu að þingflokkur Sjálfstfl. ætlar að ræða þetta tiltekna mál á þingflokksfundi sem hefst núna kl. 1 og það er þeirra góði réttur. Kynnt hefur verið að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mun taka málið þar upp, stutt af hv. þm. Agli Jónssyni. Þetta eru þingmenn Sjálfstfl. sem eru í salnum og hafa fulla burði til þess að taka mál upp á þeim þingflokksfundum og það kemur ekki öðrum aðilum við.

Ég bendi á að fjölmargir eru á mælendaskrá og umræðu um málið mun hvort sem er ekki ljúka fyrir þingflokksfund. Það hefur verið eðlilegt í ljósi þeirra tíðinda sem eru að gerast að umræða mun eiga sér stað um málið. Það getur vel verið að menn komi út úr þeirri umræðu með sömu niðurstöðu að þetta snerti aðeins nokkra þingmenn og er ekkert meira um það að segja. Hins vegar getur vel verið að málin færu í annan farveg. Við skulum ekki segja neitt um það. Það er ekkert óeðlilegt að það gerist á næstsíðasta degi þingsins. Ég er ekkert að fullyrða um það. Ráðlegging mín til forseta er: Úr því að mál eru komin svona hefði verið skynsamlegt í stað þess að halda áfram umræðunni, vegna þess að henni verður ekki lokið kl. eitt, að taka þá fyrir önnur mál sem hefðu getað runnið eitthvað ljúflegar í gegn. Ráðlegging mín og ósk til forseta laut fyrst og fremst að því að greiða fyrir störfum þingsins. Ég get hvenær sem er tekið málefnalegan ágreining hvort sem er við hv. formann landbn. eða landbrh. eða jafnvel við Egil Jónsson um landbúnaðarmálefni. Umræðan sýst ekki um það heldur er hér eðlileg ósk borin fram, studd af þingmönnum sem vilja gjarnan fara betur yfir málið. Það hefði betur greitt fyrir störfum þingsins en vitaskuld verð ég að hlíta úrskurði forseta eins og aðrir.