Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 12:38:49 (6594)

1997-05-15 12:38:49# 121. lþ. 127.6 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., Frsm. GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[12:38]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um framleiðslu og sölu á búvörum sem samþykkt var við 2. umr. Brtt. eru frá meiri hluta landbn., þ.e. Guðna Ágústssyni, Agli Jónssyni, Guðjóni Guðmundssyni, Magnúsi Stefánssyni, Árna M. Mathiesen og Hjálmari Jónssyni. Brtt. hljóðar svo:

,,Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 20. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 124/1995:

a. Í stað orðanna ,,og hrossakjöts`` í fyrri málslið kemur: hrossakjöts og nautgripakjöts.

b. Í stað hlutfallstölunnar ,,5%`` í síðari málslið kemur: 3%.

c. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Af nautgripakjöti skal gjaldið vera 600 kr. á alla slátraða gripi sem flokkast í UN og K gæðaflokka. Auk þess verði 1.100 kr. lagðar á hvern sláturgrip í framangreindum gæðaflokkum á tímabilinu frá 1. september til 31. desember ár hvert.``

Þannig hljóðar brtt. Af því að beiðni kom frá Landssambandi kúabænda, og var alger samstaða þar um, um að óska eftir þessu markaðsgjaldi ætla ég að lesa bréf sem landbn. barst, dags. 29. apríl:

,,Landbn. Alþingis.

Hr. formaður Guðni Ágústsson.

Efni: Markaðsgjald af nautgripakjöti.

Óskað er eftir viðeigandi breytingum á búvörulögum til sölu markaðsgjalds af nautgripakjöti. Gjaldtakan verði svofelld:

Grunngjald kr. 600 verði lagt á alla gripi sem flokkast í UN og K gæðaflokka og nái sú gjaldtaka yfir allt árið. Auk þess verði 1.100 kr. lagt á ofangreinda gæðaflokka á tímabilinu frá 1. september til 31. desember ár hvert.

Það er eindregin ósk stjórnar Landssambands kúabænda að unnt verði að afgreiða þetta mál á yfirstandandi þingi þannig að gjaldtakan geti hafist frá og með 1. september 1997.

Virðingarfyllst,

f.h. Landssambands kúabænda.

Guðbjörn Árnason.``

Meiri hluti landbn. hefur fallist á að lögfesta þetta markaðsgjald og legg ég til að lokum, hæstv. forseti að málið fái framgang á þessu þingi.