Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 14:33:59 (6613)

1997-05-15 14:33:59# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[14:33]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lýsa undrun minni yfir ummælum hv. formanns landbn., Guðna Ágústssonar, í garð hv. þm. Egils Jónssonar. Ég er steinhissa á því að kalla hv. þm. varadekk í þeim skilningi að afstaða hans skipti ekki máli.

Nú er það svo að ég deili skoðunum með Agli Jónssyni í málinu. Ég tel málið vera illa undirbúið og hefði þurft að vinna það betur. Á mörgum öðrum sviðum innan landbúnaðarstefnunnar fer sjónarmið okkar svo sem ekki saman. En ég kann því ekki vel þegar rætt er um samþingmann minn á þann hátt sem hv. þm. Guðni Ágústsson gerði hér áðan. Það er algerlega óþarfi að gera slíkt. Ég geri ráð fyrir að málin hafi verið rædd á þingflokksfundi Sjálfstfl. áðan eins og um var talað. Líklega hefur niðurstaðan orðið sú, án þess að ég viti um það, að menn vilji láta málið ná fram að ganga. Kannski hlakkar núna í framsóknarmönnum að ná einhvers staðar landi og geta skellt einhverju á sjálfstæðismenn eins oft og þeir hafa orðið undir í stjórnarsamstarfinu og kemur mér í sjálfu sér ekki mikið við. Það hefur gengið á ýmsu á stjórnarheimilinu og oftar en ekki hallað á Framsfl. í þeim efnum. Þá er hér tækifæri til nokkurra hefnda og oft hefur það gerst að menn hafa hefnt þess í héraði sem ekki náðist fram á Alþingi og ekki veit ég hvort eitthvað slíkt er á ferðinni. En ég vil samt biðja um að fullrar virðingar sé gætt gagnvart sjónarmiðum annarra í málinu og ekki hvað síst þegar um er að ræða mann sem á virðingu skilið, meira að segja af mér sem andstæðingi hans og hefur verið talsmaður landbúnaðarstefnu um marga áratugi. Það er ekki að farið með sanngirni gagnvart hv. þm. Agli Jónssyni í umræðunni.