Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:06:51 (6629)

1997-05-15 15:06:51# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:06]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat svo sem hæglega átt von á stuðningi við málflutning minn en það kom mér satt að segja mjög á óvart að hæstv. landbrh. skyldi ganga fram fyrir skjöldu með þeim hætti sem hann gerði og sýnir náttúrlega það að maðurinn er bæði vitur og sanngjarn eins og ég reyndar vissi áður. Það er auðvitað meiri háttar yfirlýsing sem ráðherrann gefur að í ljósi þessarar umræðu verði tekin upp endurskoðun á starfsháttum Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem mundi þá leiða til þess að m.a. þau lög sem á að fara að samþykkja hér og þau ákvæði yrðu endurskoðuð frá því sem hér er.

Það er líka afar mikilvæg yfirlýsing sem kemur fram hjá honum um það að hann telji að Bændasamtök Íslands ættu að skipta þessum fjármunum í ríkari mæli en hér er gert ráð fyrir. Hér er nefnilega verið að lögbjóða skiptinguna, hvern og einn einasta aur í skiptingunni er verið að lögbjóða. Það hefur aftur á móti verið mín skoðun að það ætti að hafa þessa skiptingu með þrennum hætti, þ.e. búnaðarsamböndin sér, stofnalánadeildargjaldið sér og allt annað væri í einum pakka sem Bændasamtök Íslands sýsluðu með. Og mér sýnist að þetta fari nú mjög í sama farveg og það sem einmitt kom fram hjá hæstv. landbrh. þó ég hafi talað aðeins nákvæmar.