Suðurlandsskógar

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:21:47 (6634)

1997-05-15 15:21:47# 121. lþ. 127.8 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., Frsm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:21]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Auðvitað er ég sammála því og nefndin að farið verði að öllum lögformlegum reglum í þessu máli. Hins vegar finnst okkur ekki rétt að setja það í lög að þetta verkefni skuli fara í umhverfismat heldur komumst að þessari niðurstöðu, að vert sé að fara yfir stærstu samfelldu svæðin og þau færu þá í mat. Þetta verkefni er mjög dreift, þetta er á bújörðum og fyrir utan hitt að ég hygg að það mundi tefja þetta mál í nokkur ár og auðvitað kosta mikla peninga. En ég sagði áðan að ég væri sannfærður um að þannig verði staðið að þessu verki, það er búið að undirbúa þetta mál í nokkur ár, að allir verði sáttir, ég trúi ekki öðru, og að menn muni þar mjög fara eftir faglegum reglum og eiga samstarf og samráð við alla þá aðila sem þar að koma, Skipulag ríkisins og fleiri aðila sem ég nefni ekki hér. Þetta er kannski ástæðan fyrir að ekki er kveðið á um skógrækt í umhverfismatslögunum og hitt að ég er sannfærður um að það bæði kostar mikla peninga og tefur verkið í nokkur ár.