Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 18:06:01 (6662)

1997-05-15 18:06:01# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:06]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þeir sem hafa hlýtt á málflutning hv. þm. í gegnum tíðina finnist það frekar sérkennilegt þegar hann fer að ásaka aðra um stóryrði í ræðustól og þar fram eftir götunum og læt ég mér það allt saman í léttu rúmi liggja. Það liggur sem sagt fyrir, og hv. þm. hefur viðurkennt að það sem hann gerði að þó nokkru máli um að hv. samgn. hefði ekki áttað sig á því að breyta fyrirsögn tillögunnar var allt rangt hjá honum og það er ágætt að hann hefur viðurkennt það. Hann er bara maður að meiri fyrir það og ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um það.

Ég hef aldrei látið á mér standa að ræða efnislega um vegamálin. Ég hef alveg tekið þátt í þeirri umræðu hvenær sem færi hefur gefist. Ég hef oft átt orðastað við hv. þm. um þau mál eins og hann náttúrlega veit.

En það sem okkur greinir á um er hvað 18. gr. þýðir nákvæmlega. Ég tel að það sé nokkuð augljóst ef maður les þetta bókstaflega, og það ber auðvitað að gera, að lesa lagatextann bókstaflega, þá kemur greinilega fram að verið er að vitna til þess að nauðsynlegt er að til staðar sé gildandi vegáætlun fyrir a.m.k. tvö ár.

Mér er það mætavel ljóst að meginreglan er sú að við fjöllum um fjögurra ára vegáætlun. Þess vegna var lögð fram í haust till. til þál. um vegáætlun til fjögurra ára og er gert ráð fyrir því í nál. meiri hluta samgn. að í haust verði lagt fram nýtt plagg sem gildi í fjögur ár. Hins vegar stendur svo á að niðurstaða okkar er sú að endurskoða þessi mál eingöngu til tveggja ára og ég tel því að það standist algerlega á grundvelli þessara laga. Síðan geta menn deilt um það í sjálfu sér efnislega hvort heppilegt sé að þetta gerist á þennan hátt. Ég færði fyrir því rök í máli mínu áðan og niðurstaðan varð sú að endurskoða til tveggja ára. Það er mín skoðun og ég byggi það klárlega á textanum í lögunum að það standist vegalögin eins og þau eru sett fram.