Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:27:34 (183)

1996-10-09 14:27:34# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:27]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að það getur verið talsvert álitaefni hvaða viðmiðanir eiga að gilda í þessu efni, þ.e. til hvaða aldurs lögin eiga að ná. Mér þykir fullkomlega eðlilegt að í meðferð þingsins verði það nánar rætt því hér getur verið um álitaefni að ræða.

Varðandi gildistökuna þá er það sjónarmið sett hér fram að það sé eðlilegt að gefa mönnum tíma til að losa sig við slíkt efni ef þeir hafa það undir höndum sem er refsilaust nú en verið er að gera refsivert með þessu frv. Það getur svo auðvitað farið eftir því hversu hratt málið afgreiðist í þinginu hvort tilefni er til þess að flýta gildistökunni frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Það er atriði sem mjög eðlilegt er að ræða í hv. nefnd. En ég held að það sjónarmið sem þarna er sett fram eigi við rök að styðjast og sé líka viðurkennt almennt þegar sett eru ný ákvæði af þessu tagi í refsilöggjöfina.