Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:45:51 (191)

1996-10-09 14:45:51# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:45]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem talaði á undan, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að ég fagna þeim breytingum sem hafa orðið á frv. frá því það var lagt fram í fyrra. Þá kom fram hörð gagnrýni á frv. og hversu skammt það gekk á þeim tíma í þá veru að vernda börn gegn ofbeldi af því tagi sem lýst er í frv. Þar var einungis miðað við það sem er kallað gróft barnaklám og eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á var ýmislegt í grg. sem var engan veginn viðunandi að hafa og hefur nú verið eytt út að mestu leyti.

Ég minni á það sem ég talaði um, einnig á síðasta þingi þegar frv. var lagt fram, að ég tel algerlega óviðunandi að hafa röksemdir í grg. af því tagi sem því miður enn eru inni, um rannsókn á slíkum brotum og þær röksemdir að það geti gengið nærri grunnreglum um friðhelgi einkalífs. Við eigum ekki að nota reglur um friðhelgi einkalífs í því skyni að takmarka svona sjálfsagða rannsókn eins og gæti átt sér stað þegar rökstuddur grunur liggur fyrir. Við skulum muna að yfirleitt er ekki farið af stað með rannsókn svona mála, frekar en annarra mála um meint brot á hegningarlögum, nema rökstuddur grunur liggi fyrir. Og liggi fyrir rökstuddur grunur um að slíkt afbrot sé framið inni á heimili eða annars staðar, þar sem reglur um friðhelgi einkalífs gilda yfirleitt, þá eiga þær reglur bara að víkja. Það er svo einfalt mál.

Ég vil líka minna á að rannsókn á meintum afbrotum innan heimilis almennt er frávik frá reglum um friðhelgi einkalífs. Reglunum er ekki ætlað að stuðla að því að fólki sé frekar stætt á að fremja afbrot innan heimilisins en utan. Þá erum við komin nálægt því sem hefur verið lengi inni í umræðunni, þ.e. rannsóknir á meintu heimilisofbeldi. Þar hefur nákvæmlega sömu rökum verið beitt og það hefur orsakað að því miður hefur ekki verið tekið á heimilisofbeldi sem skyldi fyrir dómstólum og það er mjög slæmt mál.

Ég minni einnig á að nýlega lauk rannsókn á heimilisofbeldi í dómsmrn. sem var hafin í kjölfar beiðni tveggja þingmanna um árið, þeirra Svavars Gestssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem nú er borgarstjóri. Ég hef reyndar ekki séð niðurstöðurnar en það hefur kvisast út að þarna komi fram ljótur blettur, ljótur veruleiki í íslensku þjóðfélagi sem ég á von á að hæstv. dómsmrh. kynni fljótlega. Mér finnst mikilvægt að dregið sé inn í umræðuna að þarna er verið að tala um nákvæmlega sömu rökin og hafa gert það að verkum að ekki hefur verið hægt að rannsaka þessi brot fyrir dómstólum. Það gengur ekki að verið sé að nota þessi rök í frv. til laga um svona ljótan glæp eins og barnaklám er og meðferð barnakláms á árinu 1996.

Friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsið hefur verið það helsta sem hefur verið notað sem röksemdir gegn því að svona ákvæði séu sett í lög. Tekið er fram í frv. á bls. 4 að í Svíþjóð hafi verið komist að þeirri niðurstöðu árið 1993 að ekki eigi að setja refsiákvæði um vörslu á efni með barnaklámi og sú niðurstaða sé rökstudd með því að slíkt refsiákvæði sé undantekning frá stjórnarskrárbundnum ákvæðum um prentfrelsi og tjáningarfrelsi og að þegar séu nægileg refsiákvæði til að beita gegn barnaklámi. Ég þekki reyndar ekki önnur refsiákvæði í sænskum lögum sem fyrir hendi eru en ég veit það eitt að þessi ákvörðun árið 1993 var mjög mikið gagnrýnd og er enn mjög mikið gagnrýnd í Svíþjóð, einkum af þeim sem hafa unnið með börn sem hafa orðið fyrir slíku ofbeldi. Þó að Svíþjóð sé land sem að mörgu leyti hefur gengið hvað lengst í að vernda börn fyrir ýmsum slæmum hlutum er þetta ekki til fyrirmyndar.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði athugasemd við gildistökuna. Ég er ekki viss um að eðlilegt sé að lagaákvæðið eigi að taka gildi fyrr og vísa ég þá almennt til breytinga á almennum hegningarlögum. Þar er um refsiákvæði að ræða og það er a.m.k. almennt sjónarmið varðandi setningu refsiákvæða að þau þurfi að setja með þokkalegum fyrirvara þannig að fólk átti sig á hvað sé saknæmt afbrot og hvað ekki hverju sinni. Ég er þó á engan hátt að taka undir þau sjónarmið, sem eru orðuð í grg. með gildistökugreininni, að tilgangur þess að láta lögin ekki öðlast gildi þegar í stað sé sá að þeim sem hafa efni með barnaklámi í vörslu sinni gefist hæfilegur frestur til að eyða því efni. Ég er með allt aðra hluti í huga sem röksemdir og mér finnst vera nægileg röksemd að almennt eigi hegningarlög að taka gildi með einhverjum fyrirvara og einhver fyrirvari eigi að vera á slíkum breytingum.

Einnig var minnst á hugtakið ,,barn`` og hvað væri miðað við í þeim efnum. Mjög mikilvægt er að einhver almenn skilgreining sé til sem miða skal við og samræmi sé í gegnum hegningarlögin varðandi það hugtak.

Ég vil líka ítreka það sem ég tók fram í umræðunum í vor að mjög aðkallandi er að gera heildarendurskoðun á hegningarlögunum. Ef ég man rétt tók hæstv. dómsmrh. nokkuð vel í þá athugasemd mína á vorþinginu eða tók a.m.k. undir að bráðum væri kominn tími á að gera það. Hegningarlögin eru frá 1940. Þau eru í raun og veru að stofni til frá 1869, ef ég man rétt, samkvæmt gömlu hegningarlögunum dönsku þá og er löngu kominn tími til að fara yfir þau með heildarendurskoðun í huga, m.a. með tilliti til þeirra ákvæða sem hér er verið að taka á og með tilliti til þess að gerður sé greinarmunur á 14--16 ára og þeim sem eru undir 14 ára sem manni þykir kannski ekki eðlilegt í dag.

Ég tel þegar upp er staðið að mjög jákvæðar breytingar hafi orðið á frv. og ég geri í raun eina alvarlega athugasemd um röksemdirnar í grg. um friðhelgi einkalífs. Ég hvet til þess að í hv. allshn. verði það tekið til endurskoðunar hvort við eigum að að setja slíkt lögskýringartæki inn í lög á þessu herrans ári.