Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 12:36:30 (1517)

1996-11-21 12:36:30# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi í rauninni verið að segja að sú nefnd sem hér hefur verið til umræðu hafi einfaldlega ekki unnið sitt starf nógu vel vegna þess að það er nákvæmlega öfugt sem þetta hefði átt að vera.

Ef ekki stendur til að flytja neinn nauðungarflutningi átti auðvitað að skjóta loku fyrir það í þessu frv. Ég vænti þess að ef þetta er viðhorf hv. þm. sé hann því sammála að hv. félmn. taki nákvæmlega svo á þessu. Ég er sammála því viðhorfi sem hv. þm. setti fram. En það kemur dagur eftir þennan dag og það kemur maður eftir mann en það kemur enginn Einar Oddur þegar þessi er farinn og ég er ekki viss um það að einhver ótiltekinn Einar Oddur eða svipaður einstaklingur eigi sæti í öllum úthlutunarnefndum sem munu véla um þessi mál. Þess vegna tel ég að nauðsynlegt sé að miklu skýrar sé kveðið að orði um þetta.

Ég er sannfærður um að það vakir hvorki fyrir hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni né hæstv. félmrh. að flytja nokkurn nauðungarflutningi. En eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði fyrr í dag er algerlega að ósekju, ofan á allt annað sem atvinnulaust fólk býr við, að líka sé settur sá kvíði að menn kunni að þurfa að flytjast landshornanna á milli með fjölskyldu sína eða sæta ella missi atvinnuleysisbóta. Það er algerlega ónauðsynlegt að hafa það inni í frv. og ég held að við eigum að sameinast um það að breyta þessu máli þannig að ljóst sé að enginn þurfi að eiga þetta á hættu. En eins og frv. er í dag er það ljóst að stór hópur manna á þetta á hættu.