Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 14:41:28 (1534)

1996-11-21 14:41:28# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[14:41]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna greinir okkur einfaldlega á. Það verður náttúrlega heilmikill sparnaður hjá sveitarfélögunum. Þar verður sparnaðurinn fyrst og fremst því að þau hætta væntanlega að reka þessar vinnumiðlanir eða gerast verktakar og ríkið borgar. Hv. þm., ríkið borgar. (PHB: Eins og verkalýðsfélögin í dag.) Hæstv. forseti. Nú kom þingmaðurinn illilega upp um sig. Veit hann ekki að það er til stofnun hér í borginni sem heitir Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar sem kostar tugi milljóna í rekstri? Við erum að tala um að færa starfsemi þeirrar stofnunar undir ríkið eða að gerður verði verktakasamningur við Vinnumiðlun Reykjavíkur og það er ríkið sem borgar. Það er hið augljósa í málinu. Það skiptir kannski ekki öllu máli, það er ekki kjarni málsins, ég segi það enn og aftur, hver borgar eða hvað þetta kostar. Ég held reyndar að það þurfi að veita aukið fé til að vinna bug á atvinnuleysinu. Mergurinn málsins er þessi, enn og aftur, hæstv. forseti: Virkar þetta kerfi sem verið er að koma upp? Er það betra en það sem við höfum nú þegar? Er ekki betra að vera nær fólkinu og að þeir sem eru að vinna í málunum þekki til og að byggt sé á þeirri reynslu sem menn hafa aflað sér, en að vera að búa til nýtt ríkisbatterí?