Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 13:42:44 (1697)

1996-12-03 13:42:44# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:42]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Íslensk þjóð situr nú hnípin þegar hún gerir sér grein fyrir niðurstöðum alþjóðlegrar könnunar á menntun skólabarna í raungreinum. Sú nöturlega staðreynd blasir við að við erum ekki meðal þeirra fremstu, við erum ekki í góðu meðallagi heldur höfum við hlotið lélega einkunn. Í þeirri kappgöngu þjóðanna til bættrar menntunar erum við aftarlega í lestinni. Þeir sem hafa forustu voru komnir á fætur löngu fyrir dagrenningu og við sjáum ekki einu sinni til þeirra fyrir ofan okkur í brekkunni því að þeir eru horfnir yfir brekkubrún. Við Íslendingar höfum vaknað um miðjan dag og erum á náttfötunum. En við erum ekki í slæmum félagsskap. Við erum meðal frænda. Við erum meðal norrænu frændþjóðanna. En höfum við e.t.v., ættarlaukarnir sjálfir, Íslendingar, valið okkur rangan hóp til þess að miða við? Norðurlöndin eru e.t.v. ekki í þeirri forustu sem við héldum að þau væru.

Þessar niðurstöður eru afrakstur vandaðrar könnunar Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála en forstöðumaður hennar, Þórólfur Þórlindsson prófessor, barðist lengi fyrir því að fá könnunina gerða og hélt henni gangandi í tvö ár án þess að fjármagn fengist til hennar. Það reyndi hann þó m.a. með því að knýja dyra hér hjá hv. þingmönnum án þess að þar væri upp lokið og sýnir það nokkuð um viðhorf manna til rannsókna í menntamálum. Það er þá ekki fyrr en núverandi forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, tók af skarið og veitti fé til könnunarinnar, en hann var þá menntmrh., þrátt fyrir að þá væru margir sem drægju kjarkinn úr mönnum hvað þetta varðaði. Hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason hefur ötullega haldið þessu starfi áfram.

Ég ætla ekki að rekja hér talnalega niðurstöðu könnunarinnar, þær eru flestum kunnar. En ég ætla að draga af könnuninni nokkrar almennar ályktanir.

Meginniðurstaðan hlýtur að vera sú að það menntakerfi sem við höfum búið til og sú menntastefna hefur ekki skilað árangri í raungreinakennslu. Eftir þessu kerfi hafa kennarar, nemendur, foreldrar og allt skólastarf orðið að sveigja sig en þegar horft er til einstakra atriða blasir við að kjör raungreinakennara eru með þeim hætti að þangað sækir ekki hæfasta fólkið. Það fer annað þar sem kjörin eru betri. Einn af reyndustu og bestu skólastjórum Reykjavíkur sagði mér að á 27 ára starfsferli sínum hefði það aðeins verið í tvö ár, þegar atvinnuástand var hvað verst í þjóðfélaginu, að hægt væri að segja að aðsókn að starfi í raungreinum væri viðunandi. Kennsluefni er gamalt, sumt úrelt, kennslustofur eru ekki sniðnar að raungreinum. En þessir efnislegu þættir eru ekki afgerandi. Það er hins vegar sá andi sem kemur fram í skólastefnunni og það er hann sem ræður úrslitum. Og hver er sá andi? Hann lýsir sér í skorti á aga, skorti á metnaði og skýrum markmiðum, skorti á hvatningu og eðlilegum kröfum til nemenda. En þó er ótalinn sá þátturinn sem mestu ræður. Það er stefna meðalmennskunnar, meðalmennskukerfi þar sem öllum nemendum hefur verið blandað saman, enginn hefur mátt skara fram úr, enginn hefur heldur mátt sitja eftir. Allir skulu ganga jafnhratt og ekki má blaka við óróaseggjum í skólakerfinu.

Grunninn að þessu kerfi er að sjálfsögu allvíða að finna. En hvergi er forskriftin jafnátakanlega skrifuð og í aðalnámskrá frá árinu 1989, í tíð þáv. menntmrh., hv. þm. Svavars Gestssonar, en þar segir í aðalnámskrá, með leyfi forseta: ,,Æskilegt er að ólíkir nemendur séu saman í bekkjardeildum. Því ber að forðast einhæfa röðun í bekki eða hópa til lengri tíma, t.d. út frá getu, hæfileikum eða kynferði.`` Ég fagna því að hæstv. menntmrh., Björn Bjarnason, hefur byrjað endurskoðun á þessari úreltu námskrá úr fortíð hv. þm. Svavars Gestssonar.

En, virðulegi forseti, hvað er nú til ráða? Sterk viðbrögð meðal þjóðarinnar lýsa sér í miklum vonbrigðum og ráðleysi. Við slíkar aðstæður er brýnast að til skjalanna komi skjót og örugg forusta. Við sem hér sitjum eigum ekki að leita að þeirri forustu eða því frumkvæði annars staðar en í þessum þingsal. Alþingismenn, ríkisstjórn og menntmrh. eiga nú að láta frá sér fara skýra og afdráttarlausa afstöðu og aðgerðir. Ef slík afstaða og viðbrögð koma ekki héðan úr þessum þingsal munu margir telja að þar sannist enn einu sinni að ekki sé mark takandi á orðum stjórnmálamanna, þar séu aðeins innantóm orð og fleipur eitt.

Ég veit að hæstv. menntmrh. mun taka duglega til hendinni við endurmat og bætta menntun í raungreinum. Hann getur treyst stuðningi mínum til þess verks.

Virðulegi forseti. Eins og það er ljóst að við höfum setið eftir þá er það ljóst að Íslendingar munu ekki sætta sig við þá stöðu. Við skulum ferðbúast að nýju. Árangurinn mun ekki skila sér strax. Og jafnvel þegar við erum komin upp á brekkubrúnina og brekkan er að baki, þá skulum minnast þess að fjallið sjálft er fram undan. Við munum enga skyndisigra vinna en ef við náum upp góðum hraða munum við ná þeim fljótt sem lengst eru komnir.