Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:45:37 (1751)

1996-12-03 17:45:37# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. síðasta ræðumann um tvennt. Í fyrsta lagi: Hvað meinar hv. þm. þegar hann var að ræða um fjárhagsstöðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þegar hann segir að lífeyrissjóðurinn hafi sparað tugi milljarða í almannatryggingakerfinu? Ég vil líka spyrja hann: Hve marga telur hann munu ganga inn í nýja lífeyriskerfið sem nú eru í eldra kerfinu? Og hann talar um að verið sé að afnema ríkisábyrgð með þessu. Ég get ekki fengið það heim og saman vegna þess að atvinnurekandinn ábyrgist nú 11,5% og það á að endurskoða árlega þannig að ef ekki er jafnvægi í stöðu sjóðsins þá er það bætt með auknu iðgjaldi atvinnurekandans, þ.e. ríkisins. Það tel ég vera nokkurs konar ríkisábyrgð.

Varðandi lífeyrisréttindi barna einstæðra foreldra, þá er ég sammála honum að auðvitað þurfi að taka á því en ekki í gegnum almannatryggingakerfið vegna þess að ég tel að lífeyriskerfið hafi þar ákveðnar skyldur. Réttarstaða barna og framfærsla barnanna er lakari hjá einstæðum foreldrum. Þeir greiða jafnmikið og aðrir í sjóðinn en við fráfall þessa einstæða foreldris, ef hann fellur frá fyrir ellilífeyrisaldur, rennur eignin til sjóðsins á sama tíma og það nýtist hinni fjölskyldunni miklu betur þar sem ekki er um einstætt foreldri að ræða, þ.e. bæði í gegnum makalífeyri og barnalífeyri. Þess vegna hefur lífeyriskerfið þarna ákveðnar skyldur að mínu mati.