Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 19:00:36 (1770)

1996-12-03 19:00:36# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[19:00]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það hefði verið samband á milli þeirra kjara sem lífeyriskerfið veitir og kauphækkana eða með öðrum orðum að stundum hefðu menn samið um minni kauphækkanir út á það að hafa betra lífeyriskerfi. Þetta hefur svo sem allt heyrst áður og skal ekkert dregið í efa að menn hafi sjálfsagt gert þetta bæði fyrr og síðar. En ég vek athygli á því að ASÍ-starfsmenn sem vinna hjá ríkinu, sem upplýst var á sl. vetri að væru um 7 þúsund, hafa verulega lakari lífeyrisréttindi. Frá 1990 liggur fyrir að laun þeirra hafa hækkað mun minna en laun opinberra starfsmanna. Séð hef ég tölur um það að laun opinberra starfsmanna hafi á þessu árabili hækkað að raungildi rúmlega 9% meira en laun ASÍ-félaga. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig má það vera að þeir sem hafa lakari lífeyrisréttindi fái líka lakari kauphækkanir? Eða ber að skilja hæstv. ráðherra þannig að úr því að hann leggur ekki til að frv. sem hér um ræðir sé þannig úr garði gert að ASÍ-félagar sem starfa hjá ríkinu geti verið aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þá hljóti hann að meina það að í komandi kjarasamningum beri að hækka kaup ASÍ-félaga hjá ríkinu alveg sérstaklega til að vega upp þennan mun?