Aðgerðir gegn útlendingaandúð

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 13:45:24 (1780)

1996-12-04 13:45:24# 121. lþ. 34.1 fundur 91. mál: #A aðgerðir gegn útlendingaandúð# fsp. (til munnl.) frá samstrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[13:45]

Ráðherra norrænna samstarfsmála (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er aðeins tvennt sem hefur komið fram í þessari umræðu sem þarf að svara. Því fyrra hefur hv. þm. Sólveig Pétursdóttir þegar svarað, þ.e. það hefur ekki verið refsivert að hafa í frammi slíka framkomu eins og hv. þm. Svavar Gestsson gat hér um en samkvæmt því frv. sem ríkisstjórnin lagði fyrir var tekið á því máli og það er að sjálfsögðu viðbrögð almannavaldsins við slíkri framkomu. Ég held að það sé nú þannig í okkar þjóðfélagi sem betur fer að almenningur þolir ekki að svona sé komið fram við fólk og það aðhald sem hefur t.d. verið af hálfu fjölmiðla í þessu máli hefur vakið menn til umhugsunar um það. Við skulum þess vegna vona að slíkt komi ekki fyrir aftur í okkar samfélagi þó við getum aldrei verið tryggir um það og þess vegna nauðsynlegt að taka það inn í löggjöf.

Að því er varðar frekari vinnu í þessu máli þá tók ég það fram að því er ekki lokið af hálfu norrænu ráðherranefndarinnar. Það verður áfram unnið að þessu máli sem ég veit að mun gagnast okkur og þessum málstað.

Að því er varðar sýningu sjónvarpsins á þessu efni þá getum við í sjálfu sér ekkert fyrirskipað sjónvarpinu að gera eitt né annað í þeim efnum en ég vænti þess að þessi umræða verði til þess að það mál verði tekið til athugunar hjá þeim á nýjan leik og vonandi leiðir til þess að þeir muni verða við því að sýna þessa mynd sem ég tel eðlilegt og ég lít svo á að fyrir því sé mikill vilji á Alþingi eins og hefur komið fram í umræðum.