Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 14:35:23 (2377)

1996-12-18 14:35:23# 121. lþ. 49.2 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:35]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Allir þeir sem hafa tjáð sig um samningsniðurstöðurnar úr röðum hagsmunaaðila hafa sagt það valda helst vonbrigðum að hlutur Evrópusambandsins hafi reynst vera of stór. Og hæstv. ráðherra tók undir það í ræðu sinni áðan. Það kann þess vegna að þykja nokkuð þversagnakennt en er samt engu að síður staðreynd að ef maður spyr sjálfan sig hver er helsti ávinningur af þessum samningi, þá er hann bara einn. Nefnilega að hafa tekist að koma böndum á veiðar Evrópusambandsins, stjórnlausar veiðar Evrópusambandsins. Ef þessi samningur hefur skilað einhverjum ávinningi þá er það hann. Hver eru rökin fyrir þessu? Rökin eru þau í fyrsta lagi með vísan til reynslunnar að seinast tókst það ekki. Evrópusambandið lýsti yfir einhliða kvóta upp á 150 þúsund tonn, hefur eftir því sem best er vitað veitt tæplega 190 þúsund tonn, kannski meira. Kannski allt að 200 þúsund tonnum vegna þess að veiðieftirliti með veiðum þeirra er áfátt. Hvað er síðan vitað um veiðigetu Evrópusambandsins? Jú, fjögur af aðildarríkjum þess sem helst sækja í þessar veiðar, Hollendingar, Danir, Írar og Skotar, hafa byggt upp mjög nútímalegan flota með gríðarlegri veiðigetu, miklum styrkjum, skjótri úreldingu --- talsvert öðruvísi úreldingarreglum en við beitum á okkar flota. Og ekki er nokkur vafi á því að ef þessir samningar hefðu ekki tekist, þá hefðu þeir veitt langt yfir 200 þúsund tonn, sennilega verulega mikið meira vegna þess að þessi floti hefði ekki verið haminn. Með öðrum orðum rökin fyrir því að þessi samningsniðurstaða sé frambærileg eru fyrst og fremst þau að í staðinn fyrir að sitja uppi með óheftar veiðar samkvæmt einhliða ákvörðun Evrópusambandsins upp á kannski 200--300 þúsund tonn, þá hefur tekist samkomulag um það að minnka veiðar Evrópusambandsins bæði í tonnum talið og hlutfallslega frá því sem þeir gerðu á yfirstandandi ári og frá því sem sýnilegt var að hefði orðið. Þetta er veruleikinn í samningunum. Og mér er sem ég sæi að því hefði verði fagnað ef það hefði ekki tekist.

En samt sem áður er það staðreynd að víðtæk óánægja er með hlut Íslands og fyrir því hafa verið færð nokkuð sannfærandi rök. Og alveg eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan, að ef við lítum á hin sögulegu rök þá getum við sagt að samningsniðurstaðan fyrir yfirstandandi ár, þ.e. samningsniðurstaðan á fyrri hluta þessa árs, olli vonbrigðum. Á hvaða forsendum var þá verið að reyna að semja? Á forsendum sögulegrar reynslu? Á forsendum þess hversu háð strandríkin væru veiðunum? Hvert væri framlag þeirra til vísindarannsókna o.s.frv.? Við Íslendingar höfum fært fyrir því óyggjandi rök með vísan til reynslunnar, söguleg rök varðandi örlög veiðistofnsins eins og fram kom í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að með smáfiskadrápi voru Norðmenn ábyrgir fyrir hruni síldarstofnsins, að hlutur okkar í veiðum á fullorðnu síldinni var samkvæmt sögulegum rökum kannski allt að þriðjungur, ekki minni. Engu að síður var það svo þá að okkur tókst ekki að tryggja meiri hlut heldur en 15,2%. Og höfum nú orðið að minnka okkar hlut hlutfallslega í framhaldi af þessum samningum. Það var það sem olli vonbrigðum. Þá var sagt að þetta hefði ekki fordæmisgildi. Nú hefur komið á daginn að sá samningsgrundvöllur sem lagður var seinast blasir við í niðurstöðunum núna og við komumst ekki frá þeirri grundvallarskiptingu. Þannig að það sem reynst hefur rangt er að þeir samningar hafa ekki fordæmisgildi. Og að því leyti hefur þessi niðurstaða staðfest þá gagnrýni sem flutt var af hálfu stjórnarandstöðunnar á fyrri hluta þessa árs.

En það er tvennt í þessu ef við lítum til framtíðar, sem við ættum sérstaklega að staldra við: Hvaða fordæmisgildi hefur þessi samningsniðurstaða gagnvart hugsanlegri samningsniðurstöðu milli Íslendinga og Norðmanna og Rússa að því er varðar Smuguna í Barentshafi? Hver var samningsstaða Evrópusambandsins í þessum samningum? Hver var hún gagnvart sögulegum rétti til síldveiða á norsk-íslenska stofninum? Nánast engin. Hver var hún gagnvart veiðireynslu? Afar takmörkuð fyrir nokkur af aðildarríkjunum. Hver var hún gagnvart framlagi þeirra til vísindarannsókna á þessum stofni? Engin. Hver var hún gagnvart mikilvægi veiðanna í þjóðarbúskap þessara landa? Afar lítilfjörleg.

Þegar Norðmenn reka sitt mál gagnvart Íslendingum varðandi veiðar í Barentshafi, þá segja þeir: Um er að ræða norsk-rússneskan fiskstofn sem fer inn og út úr norskri lögsögu. Veiðireynsla Íslendinga er afar takmörkuð. Hins vegar geta þeir ekki neitað því að mikilvægi þessara veiða fyrir Ísland, íslenska hagkerfið, er afar mikið. Norðmenn beittu sér í þessum samningum gagnvart nýjum aðila, Evrópusambandinu, fyrir því að fá þá inn í samninga með rökum um að ná ábyrgri heildarstjórn á veiðistofnunum. Ef þessi rök Norðmanna eru yfirfærð á Barentshafið þá ættu Norðmenn að segja núna: Það er mjög mikilvægt, í ljósi þeirrar staðreyndar að Íslendingar hafa veitt svona mikið magn af þorski í Barentshafi á undanförnum árum, að koma stjórn á heildarveiðarnar og að taka nýjum aðila að þeim veiðum með svipuðum niðurstöðum, svipuðum rökum, og þeir hafa sjálfir beitt sér gagnvart Evrópusambandinu.

Ef Norðmenn tala sitt hvorri röddinni annars vegar gagnvart Evrópusambandinu og hins vegar gagnvart okkur og Færeyingum eða Grænlendingum þá eru þeir að gera sig bera að tvískinnungi. Þrátt fyrir það að þeir hafa að vísu, því miður að ég hygg, unnið áróðursstríð um að reyna að koma óorði á Íslendinga fyrir óábyrgar veiðar. Þessi samningsniðurstaða er vopn í okkar höndum gagnvart framhaldssamningum við Norðmenn sjálfa og reyndar Rússa að því er varðar veiðar á þorski í Barentshafi. Þeir geta ekki haldið fram þeim rökum að þeir séu tilbúnir til samninga við Evrópusambandið að því er varðar norsk-íslenska síldarstofninn en snúið þeim málflutningi öllum öfugt þegar kemur að viðræðum við Íslendinga gagnvart þorskveiðum í Barentshafi.

Og annað að því er varðar mat á framtíðarmöguleikunum. Það er staðreynd að við eigum meira undir því en allar aðrar þjóðir hvað snertir veiðar úr síldarstofninum að hið fyrra göngumynstur verði tekið upp aftur, þ.e. samningsstaða okkur styrkist ef síldargöngurnar hefjast inn í íslenska lögsögu. Vegna þess að Norðmenn beittu því sem rökum á sínum tíma, og það leiddi til hinnar löku niðurstöðu seinast, að síldin væri að öllu leyti eða því sem næst að öllu leyti innan norskrar lögsögu, eiginlegrar norskrar lögsögu --- lögsögunnar í kringum Jan Mayen og að hluta til úr síldarhafinu en nánast ekkert í íslenskri lögsögu. Það var á þeim forsendum sem þeir sögðu: Okkar samningsstaða er sterk núna og látum nú kné fylgja kviði gegn Íslendingum. Samningamenn Íslendinga hafa væntanlega sagt sem svo: Ja, það er betra fyrir okkur að ná stjórn á veiðunum að stofninn eflist í voninni með fyrirheit um að þessir stofnar gangi inn í íslenska lögsögu og með fyrirheiti um að þá verði þessum samningsforsendum sprett upp. Því aðeins getur þetta ræst, þó það sé engin vissa fyrir því, að takist að koma böndum á veiðarnar og stofninn geti haldið áfram að vaxa þannig að þetta mynstur náist fram. Og þess vegna er það að við áttum meira í húfi og það er mikilvægara fyrir okkur að koma böndum á veiðar Evrópusambandsins en að standa frammi fyrir óheftum veiðum þeirra samkvæmt sjálftökurétti með þeim flota sem við þekkjum og veiðigetu þeirra.

Þá er spurningin þessi: Var þannig um hnútana búið, í hinu upphaflega rammasamkomulagi sem Evrópusambandið á ekki aðild að þrátt fyrir skiptinguna núna, að því megi treysta sem þá var sagt að þessir samningar hafi ekki fordæmisgildi til lengri tíma litið og að það muni takast samstarf við Norðmenn um að spretta upp samningsforsendunum ef síldin leitar í vaxandi mæli inn í íslenska lögsögu? Þá reynir á það í raun og veru og þeirri spurningu svarað hvort við sömdum illilega af okkur í upphafi eða hvort þetta heldur. Vegna þess að það er náttúrlega á veikum grunni byggt þegar menn segja: Ja, samningarnir í upphafi hafa ekki fordæmisgildi. En samt sem áður er vonin um að losna frá því og bæta og styrkja stöðu okkar nánast bundin því að forsendur breytist að því leyti að stofnarnir gangi inn í íslenska lögsögu. Að því leyti er þessi samningur núna, við það að koma böndum á Evrópusambandið, leið að því að við getum styrkt stöðu okkar í samningunum í framtíðinni.

Að lokum, virðulegi forseti, eitt atriði sem ég bið hæstv. utanrrh. að skýra nánar. Þegar samið er um veiðiheimildir innan lögsögu ríkja, þá er það því sem næst alltaf undantekningarlaust á gagnkvæmnisgrundvelli. Ég spyr einfaldlega: Hvaða skýringar að því er varðar einhliða veiðiheimildir Rússa innan íslenskrar lögsögu upp á 6.500 tonn, er fram að færa í því tilviki? Hvers vegna eru þær veiðiheimildir ekki gagnkvæmar?