Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 23:59:20 (2406)

1996-12-18 23:59:20# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[23:59]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stendur í frumvarpstextanum að stofnunin geti krafist saksóknar, ekki að hún geti farið þess á leit við saksóknara að um saksókn verði að ræða, eins og hún eðlilega getur jafnvel þó ekki væri um það fjallað í lagatexta, heldur stendur að hún geti krafist saksóknar. Það er heldur óvanalegt orðalag ef átt er við með því orðalagi það sem hv. þm. sagði. Þá hvet ég hv. þm. til þess að taka hér af öll tvímæli og ég ítreka spurningu mína: Hefur verið leitað eftir umsögn ríkissaksóknara um þetta ákvæði?

Ég þakka honum fyrir aðrar spurningar sem hann svaraði en það voru nokkrar fleiri sem hann lét ósvarað. Ef hann kemur hér aftur vil ég sérstaklega biðja hann að skýra fyrir mér hvað átt er við með því sem kemur fram í næstsíðustu mgr. 9. gr. og jafnframt athugasemdina sem ég gerði við 2. mgr. 9. gr. þar sem er verið að skilgreina veltu sem rekstrartekjur, hvort hann sjái ekki ástæðu til þess að gera það orðalag skýrara.

Enn fremur vil ég benda hv. þm. á að með því að nota orðið milliuppgjör í staðinn fyrir t.d. hálfsársuppgjör eða ársfjórðungsuppgjör þá er verið að leggja í hendur Póst- og fjarskiptastofnunar hvaða upplýsinga hún getur krafist, þ.e. hún getur túlkað það sjálf hvers konar milliuppgjör hún er að biðja um. Væri þá ekki frekar ástæða til þess að segja í lagatextanum ársfjórðungsuppgjör eða sexmánaðauppgjör ef menn eiga við það fremur heldur en að nota orðið milliuppgjör sem hægt er að túlka með ýmsum hætti eftir hentugleikum.

>)