1996-12-19 00:01:33# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[24:01]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski þannig vegna þess að þetta mál hefur verið til vandaðrar meðferðar í samgn. og ofan í þennan lagatexta hefur verið farið, að ég held að það hafi ekki komið fram í nefndinni að neinum væri það hulin ráðgáta hvað næstsíðasta mgr. í 5. gr. þýddi, að það væri einfaldlega verið að opna á þá heimild, árétta það í frv., að stofnunin gæti eins og segir orðrétt í textanum, með leyfi forseta:

,,... krafist opinberrar rannsóknar...`` krafist ekki framkvæmt, heldur ,,... krafist opinberrar rannsóknar og saksóknar.`` Það verður auðvitað að lesa þetta í þessu samhengi. Síðan er vísað í lög nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Ég get vel áréttað það sem ég sagði áðan að þetta þýðir nákvæmlega það að þessi stofnun getur krafist þess, óskað þess af saksóknara eða Rannsóknarlögreglu ríkisins að slík rannsókn eða saksókn fari fram, óskað eftir því að þessar stofnanir, sem einar hafa valdið til þess að vinna slík verk, vinni þau.

Að öðru leyti varðandi milliuppgjör, þá sagði ég áðan að milliuppgjör þýddi árshlutauppgjör. Eins og við vitum báðir, ég og hv. þm., getur staðið þannig á að það sé eðlilegt að óska eftir uppgjöri sem ekki er ársfjórðungs- eða hálfsársuppgjör heldur uppgjör sem tekur til einhvers annars tíma. Þetta er bara mjög eðlilegt í slíku máli.

Varðandi 9. gr. vil ég taka það fram að það er rétt sem hv. þm. segir. Þarna var það líka svo að þegar ég las þessa grein yfir, þá skildi ég það þannig, eins og rétt er, að það er verið að vísa til stofngjaldsins, en ég verð að játa að málvitund mín var þannig að ég skildi þetta rétt þó að ég sjái að þarna er þetta í eintölu sem ætti að vera í fleirtölu og verður að sjálfsögðu lagfært.