Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 237 . mál.


355. Frumvarp til lagaum Tryggingasjóð einyrkja.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Sjóðstofnun og sjóðfélagar.

    Stofnaður skal sjóður er ber heitið Tryggingasjóður einyrkja.
    Tilgangur sjóðsins er að vera tryggingasjóður vegna atvinnuleysis sjóðfélaga samkvæmt lögum þessum.
    Sjóðfélagar eru bændur, vörubifreiðastjórar og smábátaeigendur eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík.
    

2. gr.

Stjórn Tryggingasjóðs, ráðstöfunarfé og skrifstofuhald.


    Félagsmálaráðherra skipar fimm manna stjórn Tryggingasjóðs einyrkja til fjögurra ára í senn. Bændasamtök Íslands, Landssamband smábátaeigenda, Landssamband vörubifreiðastjóra og fjármálaráðuneyti skulu tilnefna einn stjórnarmann hver og einn til vara. Félagsmálaráðherra skipar formann án tilnefningar og varaformann úr hópi aðalmanna.
    Stjórn sjóðsins skal öll standa að gerð umsagna og tillagna um breytingar á lögum og reglum um sjóðinn og að meiri háttar ákvörðunum sem snerta fjárhag hans.
    Stjórn sjóðsins skal hafa samráð og samvinnu við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna framkvæmdar laga þessara.
    Eftir hver áramót skal stjórn sjóðsins gefa ráðherra ítarlega skýrslu um hag og starfsemi sjóðsins á liðnu ári og skal fylgja henni endurskoðaður ársreikningur. Stjórnin skal árlega gera fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn.
    Minnst tíu hundraðshluta árlegra tekna sjóðsins samkvæmt lögum um tryggingagjald skal leggja í varasjóð þar til varasjóður nemur eins árs útgreiðslu bóta miðað við síðastliðið ár. Eftir þann tíma skulu að að jafnaði vera fjármunir í varasjóði sem duga til eins árs útgreiðslu bóta miðað við greiðslur úr sjóðnum á síðastliðnum þremur árum. Óheimilt er að ráðstafa úr varasjóði nema að fengnu samþykki ráðherra.
    Ef sýnt þykir að Tryggingasjóður einyrkja geti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum skal stjórn sjóðsins gera tillögu til ráðherra um hertar úthlutunarreglur og/eða um hækkun á tekjum sjóðsins.
    Þóknun stjórnarmanna greiðist úr Tryggingasjóði einyrkja samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    Vinnumálastofnun skal annast sjóðsvörslu, reikningshald og daglega afgreiðslu, þar með talið útborgun bóta, fyrir sjóðinn í umboði sjóðstjórnar og undir eftirliti og umsjá hennar. Ráðherra getur ákveðið annað fyrirkomulag að fenginni umsögn sjóðstjórnar.
    Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.
    

3. gr.

Sjóðfélagar.


    Sjóðfélagar samkvæmt lögum þessum eru, sbr. 2. mgr., bændur, smábátaeigendur og vörubifreiðastjórar sem staðið hafa mánaðarlega skil á greiðslu tryggingargjalds af reiknuðu endurgjaldi í einni af þeim starfsgreinum sem falla undir gildissvið sjóðsins í a.m.k. tólf mánuði á síðustu 24 mánuðum, en hlutfallslega lengur ef tekjur af rekstri hafa verið lægri en viðmiðun reiknaðs endurgjalds í hlutaðeigandi starfsgrein samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra, áður en þeir hættu rekstri eða urðu atvinnulausir.
    Sjóðfélagar eru, nánar tiltekið, eftirtaldir hópar einyrkja:     
    Bændur: Þeir sem stunda búrekstur í atvinnuskyni. Undir búrekstur fellur hvers konar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt sem stunduð er til tekjuöflunar, svo og eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda og þjónusta á lögbýlum er nýtir gæði jarðar eða aðra framleiðslu landbúnaðar í framangreindum tilgangi.
    Smábátaeigendur: Útgerðaraðilar smábáta undir 10 brúttótonnum sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni.
    Vörubifreiðastjórar: Þeir sem stunda leiguakstur eigin vörubifreiðar, samkvæmt lögum um leigubifreiðar.
    

II. KAFLI

Almenn skilyrði bótaréttar.

4. gr.

Almenn bótaskilyrði.

    Rétt til bóta samkvæmt lögum þessum eiga sjóðfélagar, sbr. 3. gr., sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
    Eru orðnir 18 ára að aldri en yngri en 70 ára.
    Hafa hætt rekstri, sbr. 5. gr.
    Hafa óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi.
    Eru búsettir hér á landi.
    Hafa á síðustu tólf mánuðum staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi í a.m.k. þrjá mánuði áður en rekstri var hætt, en hlutfallslega lengur ef tekjur af rekstri hafa verið lægri en viðmiðun reiknaðs endurgjalds í hlutaðeigandi starfsgrein samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra. Hafi sjóðfélagi unnið sem launþegi þegar hann varð atvinnulaus skal hann eiga rétt á bótum úr sjóðnum hafi hann unnið samtals í a.m.k. tíu vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldsskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða, sbr. þó 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993. Til að finna vinnuframlag sjómanna á fiskiskipum sem skylt er að lögskrá skal telja fjölda lögskráningardaga. Mánaðarvinna sjómanna telst 21.67 lögskráningardagar. Hafi maður stundað samfellt vinnu fyrir og eftir að hann náði 18 ára aldri öðlast hann rétt til bóta ef hann hefur unnið a.m.k. þriðjung tímans eftir að hann varð 18 ára.
    Hafa í upphafi bótatímabils verið skráðir atvinnulausir í tvær vikur samfellt.
    Eru reiðubúnir að ráða sig í fullt starf sem launþegar eða hefja sjálfstæðan rekstur. Úthlutunarnefnd er heimilt að víkja frá þessu skilyrði ef sjóðfélaga er ókleift að ráða sig í fullt starf, enda sé hann reiðubúinn að ráða sig í a.m.k. hálft starf.
    Sjóðfélagi, sem uppfyllir skilyrði laga þessara um bótarétt, skal ekki á sama tíma njóta atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    

5. gr.

Lok sjálfstæðrar starfsemi.


    Sjóðfélagi skal samkvæmt lögum þessum teljast atvinnulaus:
    Ef hann er hættur rekstri.
    Hefur ekki tekjur eða tekjuígildi af rekstri.
    Hefur ekki hafið störf sem launþegi.
    Er sannanlega í atvinnuleit og getur tekið tilboðum um atvinnu.
    Ráðherra skal, að fenginni umsögn stjórnar Tryggingasjóðs einyrkja, setja nánari viðmiðunarreglur um hvað telst lok rekstrar í starfsgrein hlutaðeigandi sjóðfélaga.
    

6. gr.

Geymdur bótaréttur vegna náms eða heimilisaðstæðna.


    Sá sem fullnægir skilyrðum bótaréttar en fer í nám, eða verður að hverfa frá vinnu af heimilisástæðum, svo sem veikindum barns eða maka eða vegna umönnunar aldraðs foreldris, heldur í allt að 24 mánuði þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér. Sama á við um þá sem sviptir eru frelsi sínu með dómi.
    Á sama hátt og kveðið er á um í 1. mgr. heldur sá sem fer í fæðingarorlof áunnum bótarétti í allt að sex mánuði.
    

7. gr.

Geymdur bótaréttur vegna veikinda.


    Sjóðfélagi, sem hefur áunnið sér rétt til bóta, en verður að hverfa frá vinnu vegna veikinda, heldur þeim bótarétti er hann verður vinnufær á ný, enda sanni hann veikindin með læknisvottorði sæki hann um atvinnuleysisbætur að loknum veikindum.
    Atvinnuleysi vegna veikinda skapar út af fyrir sig ekki rétt til atvinnuleysisbóta.
    Sé um skerta vinnufærni að ræða getur svæðisvinnumiðlun óskað eftir að umsækjandi leggi fram vottorð um vinnufærni sína.
    Svæðisvinnumiðlun er heimilt að leita álits trúnaðarlæknis á vinnufærni umsækjanda.
    

8. gr.

Atriði sem girða fyrir rétt til bóta eða skerða bótatímabil.


    Þrátt fyrir ákvæði 4–7. gr. eiga eftirtaldir sjóðfélagar ekki rétt á bótum:
    Þeir sem taka þátt í verkfalli eða verkbann tekur til.
    Þeir sem njóta slysa- eða sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar.
    Þeir sem sviptir eru frelsi sínu með dómi.
    Þeir sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 55 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju nema hann sanni að hann hafi stundað tryggingarskylda vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
    Þeir sem sviptir hafa verið leyfi til að stunda atvinnurekstur í þeim starfsgreinum sem falla undir gildissvið laga þessara. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 55 bótadaga og skerðist bótatímabil sem því nemur.
    Þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í jafnlangan tíma og eftir stendur af námsönn og skerðist bótatímabil sem því nemur.
    Þeir sem sem reynt hafa að afla sér bóta með sviksamlegum hætti, sbr. V. kafla.

III. KAFLI

Bótatímabil og fjárhæð bóta.

9. gr.

Upphaf bótatímabils, biðtími og bótagreiðslur.

    Sjóðfélagi, sem öðlast bótarétt samkvæmt lögum þessum, á rétt á bótum frá og með fyrsta skráningardegi, enda hafi tekjur hans síðustu tólf mánuði fyrir skráningu eigi verið hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum á mánuði.
    Hafi reiknað endurgjald og/eða launatekjur viðkomandi síðustu tólf mánuði fyrir skráningu verið hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum hámarksatvinnuleysisbótum á mánuði frestast réttur til atvinnuleysisbóta þar til meðaltekjur fyrir liðinn mánuð verða jafnháar tvöföldum atvinnuleysisbótum. Nánari reglur um útreikning biðtíma skal ráðherra setja með reglugerð að fenginni umsögn stjórnar Tryggingasjóðs einyrkja.
    Fái hinn atvinnulausi tilfallandi vinnu, dag og dag, skulu atvinnuleysisbætur hans skerðast vegna þessarar vinnu til samræmis við unninn stundafjölda og hlutfall bótaréttar hans, þannig að samtals átta stunda vinna valdi skerðingu hámarksbóta í einn dag. Slík tilfallandi vinna skal ekki hafa áhrif á áunninn rétt til atvinnuleysisbóta fyrr en hún nemur samtals 173 vinnustundum á hverju tólf mánaða eða styttra tímabili.
    Atvinnuleysisbætur skulu greiðast fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga á hverju bótatímabili.
    

10. gr.

Lok bótatímabils.


    Bótatímabil skal að hámarki vera fimm ár. Fái sjóðfélagi launaða vinnu á bótatímabili eða hefur á ný sjálfstæða starfsemi framlengist bótatímabil hans sem svarar starfstímabilum.
    Vari starfstímabil innan bótatímabils samfellt í tólf mánuði eða lengur skal úthlutunarnefnd endurmeta bótarétt hlutaðeigandi, sbr. 4. gr.
    Nýtt bótatímabil getur hafist að liðnum tólf mánuðum frá því að bótatímabili lauk, enda hafi sjóðfélagi staðið skil á tryggingagjaldi vegna sjálfstæðrar starfsemi í starfsgrein sem fellur undir gildissvið laga þessara í a.m.k. sex mánuði eftir lok bótatímabils.
    Sá tími sem hinn atvinnulausi tekur þátt í verkefnum á vegum svæðisvinnumiðlunar sem styrkt eru af sjóðnum, telst hluti bótatímabils.
    

11. gr.

Fjárhæð bóta.


    Hámarksbætur skulu nema 2.433 kr. á dag. Lágmarksbætur eru 1/4 hluti sömu fjárhæðar. Atvinnuleysisbætur skulu þó aldrei vera hærri en sem svarar reiknuðu endurgjaldi sem tryggingagjald hefur verið greitt af og atvinnuleysisbætur launamanns aldrei hærri en sem svarar dagvinnulaunum síðustu sex mánuði fyrir skráningu.
    Fjárhæð hámarksbóta kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta bótafjárhæð um allt að 3% frá forsendum fjárlaga ef verulegar breytingar verða á þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga, eða ef sýnt þykir að ekki sé fyrir hendi nægilegt fé í tryggingasjóði einyrkja til þess að mæta skuldbindingum sjóðsins.
    Til viðbótar fjárhæð bóta skv. 1. og 2. mgr. skal greiða þeim sem hafa framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára 4% af fjárhæð dagpeninga með hverju barni. Annist Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtu meðlags vegna barns skal fjárhæðin renna beint til stofnunarinnar á móti kröfum hennar á hendur hinum meðlagsskylda.
    Af atvinnuleysisbótum greiðir hinn atvinnulausi 4% í lífeyrissjóð og Tryggingasjóður einyrkja 6%.
    Elli- og örorkulífeyrir, svo og örorkustyrkur frá Tryggingastofnun ríkisins, skal koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Sama gildir um greiðslur úr almennum og frjálsum lífeyrissjóðum. Fái hinn atvinnulausi ekki fullar atvinnuleysisbætur skal eingöngu skerða bæturnar hlutfallslega.
    

12. gr.

Reglur um útreikning bóta


    Hámarksbætur greiðast þeim sem hefur verið skráður sem sjálfstætt starfandi og hefur staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi miðað við síðustu tólf mánuði áður en hann varð atvinnulaus. Ella greiðast bætur hlutfallslega miðað við fjölda mánaða sem tryggingagjaldi var skilað.
    Hafi hlutaðeigandi á liðnum tólf mánuðum verið bæði í launavinnu og rekstri skal hver mánuður sem tryggingagjald og staðgreiðsluskattur hefur verið greitt fyrir miðað við fullt starf samsvara fullri dagvinnu þann mánuð við úrskurð bóta.
    Bótahlutfall getur aldrei orðið hærra en sem nemur því starfshlutfalli sem maður er reiðubúinn að ráða sig í.
    Bætur vegna barna skv. 3. mgr. 11. gr. skerðast ekki.
    Nú hefur umsækjandi, sem hefur áunnið sér bótarétt, auk þess stundað skólanám á síðustu tólf mánuðum í ekki skemmri tíma en sex mánuði og lokið námi eða einsýnt þykir að hann hafi hætt námi og skal þá reikna honum 13 vikur vegna námsins til viðbótar vinnuframlagi hans. Nú á umsækjandi geymdan bótarétt, sbr. 7. og 8. gr., og fær hann þá bætur í samræmi við það, nema starfstími hans eftir að hann hóf að nýju störf gefi tilefni til annars.
    Hafi umsækjandi notið bóta á síðustu tólf mánuðum reiknast bótadagar á því tímabili til starfstíma í sama hlutfalli og bótaréttur hans var.
    

13. gr.

Skrá um ákvörðun bóta.


    Stjórn Tryggingasjóðs einyrkja skal semja skrá um ákvörðun bóta. Skráin skal tilgreina 76 þrep, frá 25% til 100% bóta, þannig að bætur hækki um 1% hámarksbóta við hvert þrep eftir lengd þess tímabils er umsækjandi bóta hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds eða eftir starfstíma og starfshlutfalli.
    

IV. KAFLI

Um missi bótaréttar.

14. gr.

Atvinnuleysisskráning

    Sjóðfélagi sem nýtur bótaréttar skal skrá sig vikulega hjá viðurkenndum skráningaraðila. Geti hann ekki skráð sig vegna veikinda skal hann skrá sig næsta dag sem honum er unnt.
    Skrái hann sig ekki á tilskildum degi skal hann sæta missi bóta fyrir þá daga sem liðnir eru frá síðustu skráningu þar til hann skráir sig á ný.
    Stjórn Tryggingasjóðs einyrkja getur, að fengnum tillögum svæðisráðs svæðisvinnumiðlunar, ákveðið að á afmörkuðum svæðum og í tiltekinn tíma skuli skráning fara fram með öðrum hætti en vikulega.
    Umsækjandi bóta skal er hann skráir sig gefa skráningaraðila upplýsingar hafi breytingar orðið á högum hans er varða rétt hans til bóta frá því að hann skráði sig síðast.
    

15. gr.

Þýðing þess að starfi er hafnað.


    Það veldur missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
    Bótaréttur fellur ekki niður þótt sá sem hefur notið bóta í skemmri tíma en fjórar vikur hafni vinnu í starfsgrein sem hann hefur ekki áður stundað, enda séu góðar líkur á því að hann muni fá vinnu í sinni starfsgrein.
    Þegar hafnað er vinnu fjarri heimili metur úthlutunarnefnd hvort það skuli varða missi bótaréttar og skal þá gætt m.a. heimilisaðstæðna umsækjanda.
    Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 8. gr.
    

16. gr.

Starfsleitaráætlun.


    Samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar getur það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar skv. e-lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Um missi bótaréttar gilda jafnframt ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 8. gr.
    

17. gr.

Hlutastörf.


    Bjóðist hinum atvinnulausa hlutastarf skal úthlutunarnefnd meta með hliðsjón af möguleikum hans á fullu starfi, sbr. og 7. tölul. 1. mgr. 4. gr., hvort honum sé eftir atvikum rétt eða skylt að taka hlutastarfi. Ráði maður sig í hlutastarf getur hann samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar notið þess hluta bótaréttar síns sem er umfram starfshlutfall hans í allt að sex mánuði. Að þeim tíma liðnum falla bætur niður nema maður kjósi að segja upp hlutastarfi í þeim tilgangi að leita sér að fullu starfi. Ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. á ekki við um þá sem segja upp starfi sínu af þessari ástæðu.
    

18. gr.

Almenn skilyrði á biðtíma.


    Þeir sem sæta biðtíma eftir bótum skulu hlíta reglum um eftirlit með því að bótaskilyrðum sé fullnægt. Skal þeim einnig skylt að taka starfi sem býðst að viðlögðum missi bóta samkvæmt reglum laga þessara.
    

V. KAFLI


Viðurlög og refsingar.


19. gr.


Viðurlög vegna rangra, villandi eða leyndra upplýsinga.


    Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.
    Fyrsta brot varðar missi bóta í 2–6 mánuði en ítrekað brot í 1–2 ár.
    Nú hefur maður aflað sér bóta með sviksamlegu athæfi, og skal hann þá til viðbótar missi bóta endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.
    

20. gr.

    Sviksamlegt athæfi við öflun bóta.
    Það varðar sektum að gefa rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum í því skyni að að fá bætur greiddar eða aðstoða við slíkt athæfi.
    Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    

VI. KAFLI

Ákvörðun bóta og málskot.

21. gr.

Úthlutunarnefnd.

    Stjórn Tryggingasjóðs einyrkja skal skipa fimm manna úthlutunarnefnd til fjögurra ára í senn. Skulu Bændasamtök Íslands, Landsamband smábátaeigenda og Landssamband vörubifreiðastjóra tilnefna einn nefndarmann hver en félagsmálaráðherra tvo, þar af formann stjórnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.
    Úthlutunarnefnd ákvarðar bætur og missi bóta samkvæmt lögum þessum.
    Þóknun til úthlutunarnefndar greiðist úr Tryggingasjóði einyrkja samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar.
    Vinnumálastofnun skal sjá úthlutunarnefnd fyrir nauðsynlegri aðstoð og aðstöðu.
    

22. gr.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta.


    Ákvarðanir úthlutunarnefndar skal tilkynna til hlutaðeigandi umsækjanda og stjórnar Tryggingasjóðs einyrkja. Þessum aðilum er heimilt að skjóta ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar innan tveggja vikna frá því að aðilum var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
    Úrskurðir nefndarinnar fela í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun.
    Kostnaður af störfum úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta vegna þeirra mála er varða úthlutunarnefnd Tryggingasjóðs einyrkja greiðist úr sjóðnum samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    

VII. KAFLI

Tekjur Tryggingasjóðs einyrkja og fjárreiður.

23. gr.

Tekjur.

    Tekjur Tryggingasjóðs einyrkja eru:
    Tekjur af atvinnutryggingagjaldi sem stafar frá sjóðfélögum Tryggingasjóðs     einyrkja og rennur í sjóðinn, sbr. ákvæði laga um tryggingagjald.
    Stofnframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs, sbr. bráðabirgðaákvæði I.
    Vextir af innstæðufé sjóðsins.

24. gr.

Fjárreiður.


    Stjórn Tryggingasjóðs einyrkja tekur ákvarðanir um ávöxtun fjár sjóðsins. Skal þess gætt að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.
    

25. gr.

Styrkir vegna sérstakra úrræða og búferlaflutninga.


    Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrki vegna úrræða fyrir atvinnulausa á vegum svæðisvinnumiðlana. Stjórninni er enn fremur heimilt að veita styrki til þess að aðstoða atvinnulausa við búferlaflutninga vegna atvinnutilboða.
    Stjórnin skal setja reglur um styrki samkvæmt þessari grein sem staðfestar skulu af ráðherra.
    

26. gr.

Gerð ársreiknings og endurskoðun.


    Reikningar Tryggingasjóðs einyrkja skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir ár hvert í Lögbirtingablaði.
    

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

27. gr.

Fjárnám og frádráttur gjalda.

    Eigi má gera fjárnám í bótum samkvæmt lögum þessum sem eigi hafa verið greiddar hinum atvinnulausa. Eigi má heldur taka bætur til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda. Óheimilt er að draga félagsgjöld til stéttarfélaga eða hagsmunasamtaka af bótum nema skriflegt samþykki bótaþega liggi fyrir.
    

28. gr.

Upplýsingar vegna framkvæmdar laganna.


    Skattstjórum, Tryggingastofnun ríkisins, Innheimtustofnun sveitarfélaga og hlutaðeigandi lífeyrissjóðum er skylt að láta Tryggingasjóði einyrkja og úthlutunarnefnd í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
    Með einstaklingsbundnar upplýsingar, sem Tryggingasjóði einyrkja eru látnar í té samkvæmt þessari grein, skal farið sem trúnaðarmál.
    

29. gr.

Bætur vegna samdráttar og gjaldþrota fyrirtækja.


    Um bótarétt vegna samdráttar og gjaldþrota fyrirtækja skal fara samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

30. gr.

Reglugerð um framkvæmd laganna.


    Ráðherra skal, að fenginni umsögn sjóðstjórnar, setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessara laga.

31. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Atvinnuleysistryggingasjóður skal leggja Tryggingasjóði einyrkja til stofnframlag við gildistöku laga þessara. Upphæð þessa framlags skal nema mismuninum á hlutfalli atvinnutryggingagjalds í greiddu tryggingargjaldi sjóðfélaga og útstreymis vegna greiðslna atvinnuleysisbóta til sömu aðila samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, á tímabilinu frá 1. janúar 1996 til 1. júlí 1997.
    

II.


    Þeir einyrkjar sem hafa hafið bótatímabil samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, fyrir gildistöku laga þessara, skulu frá og með 1. júlí 1997 færast yfir til Tryggingasjóðs einyrkja og njóta bóta úr honum einvörðungu hafi þeir tilheyrt starfsgreinum sem sjóðurinn tekur til, sbr. 2. mgr. 3. gr., er þeir hófu bótatímabil.
    Við mat á bótarétti þeirra sem njóta ekki bótaréttar úr Atvinnuleysistryggingasjóði skal viðmiðunartímabilið um skilyrði bótaréttar samkvæmt lögum þessum vera 1. júlí 1995 til 1. júlí 1997.
    

III.


    Hafi maður verið á atvinnuleysisbótum 1. júlí 1994 og samfellt síðan getur bótatímabil hans að hámarki varað til 1. júlí 1999. Nú hefst bótatímabil eftir 1. júlí 1994 og viðkomandi hefur verið samfellt á atvinnuleysisbótum fram að gildistöku laga þessara og getur þá bótatímabil að hámarki orðið fimm ár.
    

IV.


    Þrátt fyrir ákvæði 31. gr. tekur 16. gr. laga þessara gildi 1. janúar 1998.
    

V.


    Lög þessi skulu endurskoðuð að liðnum tveimur árum frá gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Hinn 8. október 1996 skipaði félagsmálaráðherra nefnd sem falið var að kanna réttindi og skyldur sjálfstætt starfandi einstaklinga gagnvart atvinnnuleysisbótakerfinu og gera tillögur til félagsmálaráðherra um framtíðarskipan þessara mála. Í nefndinni voru María Hauksdóttir, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands, Ása Þ. Baldursdóttir, tilnefnd af Landssambandi vörubifreiðastjóra, Örn Pálsson, tilnefndur af Landssambandi smábátaeigenda, Ólafur Hjálmarsson frá fjármálaráðuneytinu og Gunnar E. Sigurðsson frá Vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Formaður nefndarinnar var Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra.
    

II. Réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta.


    Sjálfstætt starfandi einstaklingar öðluðust fyrst rétt til atvinnuleysisbóta með reglugerð nr. 389/1993, um skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar fái atvinnuleysisbætur, er tók gildi 1. október 1993. Við gildistöku þessarar reglugerðar öðluðust sjálfstætt starfandi einstaklingar í fyrsta skipti almennan bótarétt sem grundvallaðist á vinnu þeirra sem sjálfstæðir atvinnurekendur.
    Með reglugerð nr. 389/1993 fengu sjálfstætt starfandi einstaklingar sem slíkir hliðstæðan rétt til atvinnuleysisbóta og launþegar að því undanskildu að viðmiðun um réttindi þeirra var greitt tryggingagjald undanfarna tólf mánuði auk sérstakra biðdaga í upphafi bótatímabils sem í upphafi voru 20 talsins. Efni reglugerðarinnar var gagnrýnt af hálfu þeirra sem njóta áttu góðs af henni, þar á meðal af fulltrúum bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra. Gagnrýnin sneri einkum að tveimur atriðum. Annars vegar beindist hún að ákvæði um biðdaga eftir atvinnuleysisbótum og hins vegar var það skilyrði gagnrýnt að allri atvinnustarfsemi skyldi vera hætt í að minnsta kosti tólf mánuði. Var meðal annars vísað til þess að fyrir gildistöku umræddrar reglugerðar gátu einstaklingar innan þessara hópa öðlast bótarétt ef þeir höfðu starfað sem launamenn með einum eða öðrum hætti. Var litið til þess að fyrir gildistöku reglugerðarinnar voru vörubifreiðastjórar flokkaðir sem launamenn og fengu bótarétt á þeim grundvelli. Smábátaeigendur höfðu fengið lögskráningardaga viðurkennda sem grundvöll bóta ef þeir stunduðu launavinnu samhliða. Hvað bændur snerti þá gátu þeir aðeins átt rétt á bótum ef þeir stunduðu launavinnu í þágu annarra og tekjur af búrekstri þeirra voru minni en hámarks atvinnuleysisbætur. Bændur deildu einkum á það skilyrði reglugerðarinnar að þurfa alveg vera hættir rekstri til þess að geta átt rétt á bótum. Bentu þeir á að það þýddi í raun að þeir yrðu að flytja af búum sínum til að fá rétt til atvinnuleysisbóta. Vegna þessa skilyrðis gætu þeir ekki setið áfram á jörðum sínum þótt aðrir hefðu tekið við rekstrinum.
    Frá gildistöku reglugerðar nr. 389/1993 hefur verið leitað ýmissa leiða til að koma til móts við gagnrýni framangreindra hópa. Með reglugerð nr. 304/1994, um skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar fái atvinnuleysisbætur, sem tók gildi 25. maí 1994, var meðal annars dregið úr áhrifum þeirrar kröfu að allri atvinnustarfsemi skyldi vera hætt í a.m.k. tólf mánuði. Var tekin upp sú regla að sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem væri atvinnulaus, gæti sótt um það til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að hefja starfsemi að nýju áður en tólf mánuðir væru liðnir. Þó var það skilyrði sett að hann gæti sýnt fram á að forsendur hefðu skapast fyrir því að hefja rekstur að nýju í a.m.k. 60 daga. Með þessari reglugerð var biðdögum í upphafi bótatímabils einnig fækkað úr 20 í 15.
    Ein af meginreglum reglugerðar nr. 304/1994 er að atvinnuleysi, sem stafar af árstíðarbundnum sveiflum í rekstri eða tímabundinni stöðvun rekstrar vegna verkefnaskorts, skapar ekki rétt til bóta. Hins vegar er gert ráð fyrir þeim möguleika að þeir sjálfstætt starfandi einstaklingar geti átt rétt á bótum sem er gert ókleift að halda áfram rekstri vegna sérstakrar löggjafar um atvinnustarfsemi þeirra, enda vari stöðvunin samfleytt í fleiri en 24 daga.
    Þá er ákvæði í reglugerð nr. 304/1994 sem kveður á um að heimilt sé að afhenda afkomendum reksturinn án missis bótaréttar ef samdrátturinn er meiri en 40% á tveimur árum. Hert var á kröfunni um skil á tryggingagjaldi og gert að skilyrði að hlutaðeigandi hafi staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds fyrir síðustu 12 mánuði áður en hann varð atvinnulaus. Það er því ekki nægilegt þegar menn eru orðnir atvinnulausir að standa skil á áður ógreiddu tryggingagjaldi í því skyni að afla sér bótaréttar.
    Enn fremur er það eitt af meginskilyrðum þessarar reglugerðar að viðkomandi láti skrá sig af launagreiðendaskrá og skrá yfir aðila með virðisaukaskattskylda starfsemi.
    

III. Meginefni tillagna nefndarinnar.


    Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að svigrúm til að rýmka skilyrði bótaréttar á grundvelli gildandi reglugerðar, nr. 304/1994, væri takmarkað í ljósi 1. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar. Mat nefndarinnar var að bændur, smábátaeigendur og vörubifreiðastjórar ættu að hafa aukin áhrif á réttindi sín og skyldur í atvinnuleysisbótakerfinu meðal annars með því að fá aðild að stjórn, úthlutun bóta og umsögn um úthlutunarreglur.
    Til athugunar kom m.a. hvort stíga ætti skrefið til fulls og gera alla sjálfstætt starfandi einstaklinga hér á landi aðila að einum sjóði. Nefndin skoðaði ýmsa kosti í þessu sambandi. Var m.a. horft til þess hvernig framkvæmd þessara mála er háttað í nágrannalöndunum. Á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, er aðild að atvinnuleysistryggingasjóðum frjáls, þ.e. launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar verða sjálfir að gera upp við sig hvort þeir vilja tryggja sig með greiðslu iðgjalds gegn fjárhagslegu áfalli í kjölfar atvinnuleysis. Atvinnuleysistryggingakerfi þessara landa byggist á frjálsri aðild sjóðfélaga en kerfin eru ólík innbyrðis, veita mismikla tryggingarvernd, í mislangan tíma og framlög sjóðfélaga eru mishá.
    Nefndin mat það svo að það væru sameiginlegir hagsmunir þessara hópa að stofnaður yrði sérstakur atvinnuleysistryggingasjóður fyrir þá sjálfstætt starfandi einstaklinga sem tilheyra þeim samtökum sem áttu fulltrúa í nefndinni. Nefndin lagði til að löggjöf vegna hins nýja sjóðs yrði byggð á grunni frumvarps til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar. Lagði nefndin jafnframt til að atvinnuleysisbætur yrðu greiddar í gegnum útborgunarkerfi Atvinnuleysistryggingasjóðs eins og það er á hverjum tíma. Atvinnuleysistryggingasjóði yrði falið að sjá um daglegar fjárreiður fyrir sjóðinn sem myndi greiða sína hlutdeild í rekstrarkostnaði. Kærumál lytu sömu reglum og gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar um að ákvarðanir og úrskurðir úthlutunarnefndar verði kæranlegir til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eins og henni er í lýst í því frumvarpi. Nefndin gerði jafnframt ráð fyrir því að reglur um skilyrði bótaréttar yrðu hliðstæðar þeim sem nú eru í gildi eins og við á að viðbættum nánari reglum um lok atvinnustarfsemi.
    

IV. Nánar um efni frumvarpsins


1.


    Frumvarpi til laga um Tryggingasjóð einyrkja er ætlað að koma í stað gildandi laga og reglna um atvinnuleysisbætur til sjálfstætt starfandi bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra. Er það byggt að meginstefnu til á starfi framangreindar nefndar og þeim hugmyndum sem að framan er lýst.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að stofnaður verði sérstakur sjóður fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga með þátttöku bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra. Skal hann heita Tryggingasjóður einyrkja og verður hliðsettur Atvinnuleysistryggingasjóði en ekki deild innan hans.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir sérstakri sjóðstjórn með aðild hlutaðeigandi hagsmunaaðila, þ.e. fulltrúa bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra. Enn fremur gerir frumvarpið ráð fyrir því að félagsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti eigi fulltrúa í stjórninni. Nefndin lagði til að Atvinnuleysistryggingasjóður tilnefndi einn stjórnarmann. Frá því er horfið í þessu frumvarpi, enda gert ráð fyrir að um hliðsetta sjóði verði að ræða.
     Í frumvarpinu er mælt fyrir um að stjórn sjóðsins hafi samráð og samvinnu við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Talið er nauðsynlegt að kveða á um slíkt samráð þar sem gera má ráð fyrir því sumir einstaklingar sem tilheyra þeim starfsgreinum sem eiga aðild eiga að sjóðnum uppfylli ekki skilyrði um bótarétt. Er þar átt við einstaklinga sem eru laustengdir framangreindum starfsgreinum. Ráð er fyrir því gert að þeir einstaklingar, sem ekki uppfylla skilyrði frumvarps þessa, ef að lögum verður, geti sótt um bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Væntanlega munu koma upp einhver markatilvik sem leysa þarf úr og því gert ráð fyrir að á milli þessara tveggja sjóða verði að vera nokkurt samstarf.
    

2.


    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að ákvörðun um bótarétt verði byggð á tveimur meginskilyrðum. Annars vegar því hvort umsækjandi bóta uppfylli það skilyrði að teljast sjóðfélagi, sbr. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Hins vegar að hann hafi á svokölluðu viðmiðunartímabili við útreikning bótaréttar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins, sem er síðustu tólf mánuðir áður en hann hætti rekstri, staðið í skilum mánaðarlega með greiðslu tryggingargjalds af reiknuðu endurgjaldi í viðkomandi starfsgrein. Er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta skylt að rannsaka hvort skilyrðið um sig óháð hinu. Fyrra skilyrðið, þ.e. hver geti talist sjóðfélagi, felur í sér að umsækjandi bóta verður að sýna fram á að hann hafi á síðustu 24 mánuðum áður en hann hætti rekstri eða varð atvinnulaus, staðið í skilum með greiðslu tryggingagjalds af reiknuðu endurgjaldi í a.m.k. 12 mánuði. Áður en úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta tekur ákvörðun um bótarétt hlutaðeigandi samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. verður að ganga úr skugga um að þetta skilyrði sé uppfyllt. Með þessu skilyrði er stefnt að því að þeir einir geti öðlast bótarétt úr sjóðnum sem hafi raunveruleg tengsl við þær starfsgreinar sem falla undir gildissvið sjóðsins og að innstreymi í sjóðinn af atvinnutryggingagjaldi samkvæmt lögum um tryggingagjald verði í nokkru samræmi við útstreymi atvinnuleysisbóta til sömu aðila. Síðara skilyrðið felur í sér að umsækjandi bóta hafi staðið í skilum á greiðslu tryggingagjalds af reiknuðu endurgjaldi á viðmiðunartímabili við útreikning bótaréttar sem er síðustu tólf mánuðir áður en viðkomandi hætti rekstri eða varð atvinnulaus. Til þess að öðlast lágmarksbótarétt verður umsækjandi að hafa staðið í skilum með greiðslu tryggingagjalds í a.m.k. þrjá mánuði. Sé litið heildstætt á þessi tvö skilyrði fyrir bótarétti og haft til hliðsjónar að umsækjandi uppfylli lágmarkskröfu síðara skilyrðisins um skil á greiðslu tryggingagjalds í a.m.k. þrjá mánuði verður hann jafnframt að hafa staðið skil á greiðslu tryggingargjalds í níu mánuði á síðustu tólf mánuðum þar á undan. Það má einnig hugsa sér að umsækjandi um bætur uppfylli bæði skilyrðin með því að hann hafi mánaðarlega á síðustu tólf mánuðum áður en hann varð atvinnulaus staðið í skilum á greiðslu tryggingagjalds af reiknuðu endurgjaldi.
    Frumvarpið gerir enn fremur ráð fyrir því að bótaréttur umsækjanda geti verið reistur á launavinnu hans á síðustu tólf mánuðum áður en hann varð atvinnulaus. Í þessu felst að hann hafi unnið í fullu starfi samtals í tíu vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldsskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða. Í þessu sambandi er í raun átt við ráðningartímabil en í því felst að orlofstími reiknast með við ákvörðun á starfstímabili. Öðlast hann þá rétt til lágmarksbóta að því tilskyldu að hann uppfylli jafnframt framangreint skilyrði, sbr. 1. mgr. 3. gr., um að teljast sjóðfélagi.
    

3.


    Líkt og kveðið er á um í reglum núgildandi laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, er enn skilyrði bótaréttar að umsækjandi bóta sé hættur rekstri. Frumvarp þetta mælir þannig svo um að ráðherra setji, að fenginni umsögn stjórnar sjóðsins, nánari viðmiðunarreglur um hvað teljist lok rekstrar í starfsgrein hlutaðeigandi sjóðfélaga. Mikilvægt er að aðstæður einstakrar starfsgreinar verði skoðaðar og síðan mótaðar reglur og viðmið um hvenær rekstri telst vera hætt. Gert er ráð fyrir að sem mest jafnvægi verði á milli skilyrða hinna einstöku starfsgreina innan sjóðsins, þannig að inn- og útstreymi verði sem jafnast, bæði hvað snertir einstakrar starfsgreinar sem og í tengslum við jafnvægi milli einstakra hópa sem eiga aðild að sjóðnum. Með slíkum reglum ætti að vera unnt að afstýra árekstrum milli einstakra hópa sjóðfélaga, en einnig er gert ráð fyrir þeim möguleika að kveðið verði á um deildaskiptingu innan sjóðsins í reglugerð.
    Enn fremur er skilyrði bótaréttar að viðkomandi einstaklingur hafi ekki hafið störf sem launþegi og hann verður sannanlega að vera í atvinnuleit og geta tekið tilboðum um atvinnu. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir þeirri meginreglu að menn verði að vera reiðubúnir að ráða sig í fullt starf til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Hins vegar er úthlutunarnefnd veitt heimild til þess að víkja frá þessu skilyrði sé hinum atvinnulausa ókleift að ráða sig í fullt starf eða ef hann hefur verið í hlutastarfi áður en hann varð atvinnulaus. Jafnframt er gert ráð fyrir því að menn geti ekki notið hærri bóta en sem svarar því starfshlutfalli sem þeir eru reiðubúnir að ráða sig í. Þannig eiga þeir sem úthlutunarnefnd heimilar að ráða sig í hlutastarf ekki að geta notið bóta með launum í lengri tíma en sex mánuði.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir grundvallarbreytingu frá ákvæðum laga nr. 93/1993 um bótatímabil. Er hér um að ræða sams konar breytingu og gert er ráð fyrir í frumvarpi til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt frumvarpinu verður hvert bótatímabil nú að hámarki fimm ár í stað 260 daga eða 52 vikna samkvæmt lögum nr. 93/1993. Samkvæmt þeim lögum er biðtími eftir hvert bótatímabil 16 vikur en með þátttöku í átaksverkefnum eða námskeiðum er unnt að skerða biðtímann þannig að bótatímabil falli saman. Lögfestingu frumvarpsins um fimm ára hámarksbótatíma er ætlað að koma í veg fyrir þann möguleika að menn geti í raun verið ótakmarkaðan tíma á bótum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að eftir að bótatímabili ljúki geti maður ekki öðlast bótarétt að nýju fyrr en eftir a.m.k. tólf mánuði enda hafi viðkomandi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds vegna sjálfstæðrar starfsemi í starfsgrein sem fellur undir gildissvið laganna í a.m.k. sex mánuði. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að umsækjandi bóta geti fullnægt þessu skilyrði með launaðri vinnu í sex mánuði eins og fram kemur í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar. Er það í samræmi við skilyrði frumvarpsins um að viðkomandi tilheyri þeim starfsgreinum á grundvelli eigin rekstrar. Sömu sjónarmið liggja að baki ákvæðum um að ef bótaþegi sem er á bótatímabili hættir og skráir sig atvinnulausan eftir 24 mánuði skuli úthlutunarnefnd endurmeta bótarétt hans með hliðsjón af 3. gr., sbr. 4. gr. frumvarpsins. Getur það leitt til þess að hann falli af bótum.
    Ákvæði laga nr. 93/1993 um áhrif þess að menn segja starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða hafa misst vinnu af ástæðum sem þeir eiga sjálfir sök á er með öðrum hætti í frumvarpi þessu. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að slíkt leiði til missis réttar til bóta í 55 daga. Samkvæmt lögum nr. 93/1993 er um 40 daga biðtíma að ræða.
    Þá er í frumvarpinu lögð til breyting á reglu laga nr. 93/1993 um biðtíma eftir bótum í upphafi bótatímabils. Í stað þess áskilja að maður hafi verið atvinnulaus í a.m.k. þrjá daga í upphafi bótatímabils er lagt til að maður verði að hafa verið atvinnulaus í upphafi bótatímabils í a.m.k. tvær vikur samfellt. Að því skilyrði uppfylltu, ásamt öðrum skilyrðum greinarinnar, á maður rétt á bótum frá og með fyrsta skráningardegi. Krafa um tveggja vikna samfellt atvinnuleysi til þess að öðlast bótarétt á eingöngu við í upphafi bótatímabils.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að atvinnuleysisbætur sjálfstætt starfandi einstaklings geti aldrei verið hærri en sem svarar reiknuðu endurgjaldi, sem tryggingagjald hefur verið greitt af, síðustu sex mánuði fyrir skráningu. Er hér um sams konar reglu að ræða og í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar. Hámarksdagpeningar atvinnuleysistrygginga verða eftir sem áður 2.433 kr. á dag og lágmarksbætur fjórðungur sömu fjárhæðar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ein úthlutunarnefnd verði fyrir landið allt og er það breyting frá núverandi framkvæmd. Er talið ráðlegt að úthlutun bóta verði í höndum einnar nefndar og þannig komið í veg fyrir hugsanlegt ósamræmi í túlkun þessara reglna.
    

4.


    Efni frumvarpsins tekur, með sama hætti og frumvarp til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar, mið af þeirri skipulagsbreytingu sem lögð er til á þætti vinnumiðlunar með frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Er þar gert ráð fyrir að litið verði á landið sem eitt vinnusvæði og með því stefnt að eflingu opinberrar vinnumiðlunar. Frumvarp til laga um vinnumarkaðsaðgerðir gerir ráð fyrir því að komið verði á fót Vinnumálastofnun á vegum ríkisins undir yfirstjórn aðila vinnumarkaðarins. Á vegum Vinnumálastofnunar verði starfræktar samtengdar svæðisvinnumiðlanir. Í tengslum við þær starfi svæðisráð, skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og framhaldsskóla á svæðinu, sem gegni því hlutverki að halda uppi skilvirku samstarfi við einstaklinga á vinnumarkaði, sem og fyrirtæki og stofnanir. Svæðisvinnumiðlanir og svæðisráð beri ábyrgð á að fyrir hendi séu úrræði fyrir atvinnulausa til þess að auka starfsmöguleika þeirra. Gerir frumvarpið um vinnumarkaðsaðgerðir ráð fyrir því að verkefni svæðismiðlana verði meðal annars að annast skráningu atvinnulausra, útgáfu vottorða um atvinnuleysi og að miðla upplýsingum um laus störf og sjá til þess að atvinnulausir eigi kost á ráðgjöf og úrræðum, svo sem námi eða starfsþjálfun sem hafa það að markmiði að auka starfsgetu og starfsmöguleika hins atvinnulausa.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Tryggingasjóður einyrkja verði fjármagnaður með tekjum af atvinnutryggingagjaldi í samræmi við ákvæði laga um tryggingagjald, stofnframlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs og vöxtum af innstæðufé sjóðsins.
    Gert er ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður leggi Tryggingasjóði til stofnframlag ef frumvarpið verður að lögum. Upphæð þessa framlags skuli nema mismuninum á hlutfalli atvinnutryggingagjalds í greiddu tryggingargjaldi sjóðfélaga og útstreymis vegna greiðslna atvinnuleysisbóta til sömu aðila samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, á tímabilinu frá 1. janúar 1996 til 1. júlí 1997.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um stofnun Tryggingasjóðs einyrkja. Sjóðurinn mun þó eigi ná til allra þeirra sem kunna að falla undir hugtakið einyrki heldur aðeins til bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra, svo sem nánar er tiltekið í 3. gr. Eru þessir hópar þannig greindir frá öðrum sjálfstætt starfandi einstaklingum innan atvinnuleysisbótakerfisins, en aðrir hópar munu áfram eiga aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði svo sem verið hefur.
    Þá er í 2. mgr. kveðið á um að heimili og varnarþing sjóðsins skuli vera í Reykjavík.
    

Um 2. gr.


    Lagt er til að félagsmálaráðherra skipi fimm menn í stjórn Tryggingasjóðs einyrkja til fjögurra ára í senn, fjóra samkvæmt tilnefningu frá samtökum sjóðfélaga og fjármálaráðuneytis, en formann án tilnefningar. Varaformaður verði skipaður af ráðherra úr hópi aðalmanna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að stjórnin skuli standa sameiginlega að gerð umsagna og tillagna um breytingar á lögum og reglum um sjóðinn og meiri háttar ákvörðunum sem snerta fjárhag hans. Er það sama fyrirkomulag og gildir um stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, sbr. 6. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 45/1995.
    Ákvæði 3. mgr. gerir ráð fyrir að stjórn Tryggingasjóðs einyrkja beri að hafa samráð og samvinnu við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, enda má þess vænta að starfssvið þessa nýja sjóðs annars vegar og Atvinnuleysistryggingasjóðs hins vegar muni skarast að einhverju leyti. Ekki er kveðið nánar á um vettvang þessarar samvinnu, enda eðlilegt að nánari framkvæmd hennar verði samkvæmt samkomulagi þessara tveggja stjórna.
    Í því skyni að félagsmálaráðherra geti sinnt eftirliti með sjóðnum er lagt til í 4. mgr. að stjórn sjóðsins gefi ráðherra árlega skýrslu um hag og starfsemi sjóðsins á liðnu ári ásamt endurskoðuðum ársreikningi. Stjórn sjóðsins skal einnig láta gera fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn.
    Í 5. mgr. er kveðið á um varasjóð Tryggingasjóðs einyrkja, sem skal að jafnaði nema eins árs útgreiðslu bóta miðað við greiðslur síðastliðið ár og verði aðeins heimilt að ráðstafa úr varasjóði að fengnu samþykki félagsmálaráðherra.
    Ef sýnt þykir að Tryggingasjóður einyrkja geti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum, svo sem vegna þess að útgjöld sjóðsins hafa aukist verulega, skal stjórn sjóðsins samkvæmt 6. tölul. gera tillögu til ráðherra um hertar úthlutunarreglur og/eða um hækkun á tekjum sjóðsins.
    Þar sem Tryggingasjóður einyrkja verður mikill vöxtum í fjárhagslegu tilliti og hvað snertir fjölda sjóðfélaga er gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun annist sjóðsvörslu, reikningshald og daglega afgreiðslu fyrir sjóðinn. Felur þetta í sér að Vinnumálastofnun mun sjá um útborgun bóta fyrir sjóðinn í umboði sjóðstjórnar og undir eftirliti og umsjá hennar. Þó er gert ráð fyrir þeim möguleika að ráðherra geti ákveðið annað fyrirkomulag að fenginni umsögn sjóðstjórnar.
    Þá er gert ráð fyrir því að sá kostnaðar sem hlýst af rekstri sjóðsins meðal annars vegna umsýslu Vinnumálastofnunar greiðist af tekjum hans.
    

Um 3. gr.


    Í greininni er sett fram á skilgreining á hugtakinu sjóðfélagi. Er þar átt við einstakling sem tilheyrir a.m.k. einni af þremur starfsgreinum sem falla undir gildissvið sjóðsins. Auk þess er, sbr. 1. mgr. 3. gr., skilyrði að viðkomandi hafi staðið mánaðarlega skil á greiðslu tryggingargjalds af reiknuðu endurgjaldi, í a.m.k. 12 mánuði á síðustu 24 mánuðum, en hlutfallslega lengur ef tekjur af rekstri hafa verið lægri en viðmiðun reiknaðs endurgjalds í hlutaðeigandi starfsgrein samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra, áður en hann hætti rekstri eða varð atvinnulaus. Sú viðmiðun sem sett er fram í þessari grein er byggð á viðmiðunarreglum sem ríkisskattstjóri setur samkvæmt 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eru þær til leiðbeiningar við ákvörðun á reiknuðu endurgjaldi sem maður, er vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skal reikna sér sem laun, eins og fram kemur í 2. tölul. 4. gr. og 2. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987. Ríkisskattstjóri skal í upphafi hvers staðgreiðsluárs ákveða lágmark reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu. Hafi viðkomandi reiknað sér lægra endurgjald en samkvæmt framansögðu og því greitt lægra tryggingagjald ber honum samkvæmt þessari grein að greiða hlutfallslega lengur miðað við það.
    Það má hugsa sér að umsækjandi bóta sýni fram á að hann hafi uppfyllt þetta skilyrði á síðustu 12 mánuðum. Hins vegar má jafnframt gera ráð fyrir þeim möguleika að umsækjandi bóta uppfylli ekki þetta skilyrði á því tímabili. Í þessu tilviki væri unnt að líta til síðustu 24 mánaða, sbr. 1. mgr. 3. gr. Sem dæmi má nefna að einstaklingur hafi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds í þrjá mánuði á síðustu 12 mánuðum en í níu mánuði á árinu þar á undan. Sýni hann fram á þetta hefur hann uppfyllt skilyrði 1. mgr. 3. gr. um að teljast sjóðfélagi. Hafi hann aftur á móti aðeins skilað átta mánuðum telst hann hins vegar ekki hafa uppfyllt þetta sérstaka skilyrði. Í þessu felst að þeir einstaklingar sem tilheyra þeim þremur starfsgreinum sem undir sjóðinn falla, en uppfylla ekki skilyrði laganna til að teljast sjóðfélagar, eiga ekki rétt til bóta úr sjóðnum. Þeir verða því að sækja um bætur til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Nánari tilgreiningu á sjóðfélögum er að finna í 2. mgr. greinarinnar. Frumvarpinu er ætlað að ná til allra bænda, jafnt hefðbundinna búvöruframleiðenda sem annarra. Hugtakið bóndi er ekki skilgreint í lögum en við skilgreiningu frumvarpsins er stuðst við 3. gr. samþykkta Bændasamtaka Íslands. Hvað snertir smábátaeigendur er um að ræða stærðarviðmið á smábátum miðað við 10 brúttórúmlestir. Það viðmið var notað í lögum nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða, sbr. 10. gr. þeirra laga. Í bráðabirgðaákvæðum I og II við lög um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, var 10 brl. markið einnig notað, en féll út árið 1994 er krókabátaflokkurinn var sérstaklega skilgreindur, en það eru bátar minni en 6 brl. sem ekki völdu aflamark 1. janúar 1991. Rétt þykir þó að miða við 10 brúttólestir í frumvarpi þessu, en það mun einnig vera sama viðmið og stuðst er við um aðild að Landssambandi smábátaeigenda. Enda þótt hugtakið „smábátaeigendur“ sé notað getur aðstaðan verði sú að bátar séu teknir á leigu til veiða í atvinnuskyni. Þar sem ekki er ætlunin að útiloka slík tilvik er í 2. tölul. 2. mgr. vísað til útgerðaraðila smábáta undir 10 brúttótonnum sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni. Þá er vísað í lög nr. 61/1995, um leigubifreiðar, og eiga þeir sem stunda leiguakstur eigin vörubifreiðar sjóðsaðild, að uppfylltu skilyrði 1. mgr. 3. gr.
    

Um 4. gr.


    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir sams konar bótaskilyrðum og gert er ráð fyrir í frumvarpi til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar. Þannig verði aldurslágmark til þess að njóta bóta 18 ár, sbr. 1. tölul. 1. mgr., í stað 16 ár svo sem verið hefur að gildandi lögum. Þá er það og skilyrði skv. 2. tölul. að viðkomandi sé hættur rekstri, sbr. einnig 5. gr. frumvarpsins, en skv. 2. mgr. 5. gr. setur ráðherra nánari reglur um hvað skuli teljast lok rekstrar í hlutaðeigandi starfsgrein.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er lagt til sem ótvírætt skilyrði bótaréttar að umsækjandi hafi óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi. Slíkt ákvæði hefur ekki verið í gildandi lögum og hefur það valdið nokkrum vafa í framkvæmd. Þeir sem teljast hafa óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi eru íslenskir ríkisborgarar; þeir sem fengið hafa óbundið atvinnuleyfi skv. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, og erlendir ríkisborgarar sem ekki þarf að sækja um atvinnuleyfi fyrir, sbr. 13. gr. sömu laga, en það eru fyrst og fremst ríkisborgarar ríkja sem eiga aðild að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ákvæði 5. tölul. 1. mgr. um ákvörðun á vinnuframlagi sjálfstætt starfandi felur efnislega í sér sömu reglu og er í lögum nr. 93/1993, þ.e. að miðað verði við skil á tryggingagjaldi síðustu 12 mánuði og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi áður en sótt er um bætur. Viðmiðun við útreikning bótaréttar verður eins og samkvæmt gildandi lögum skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt þeim viðmiðunarmörkum sem ríkisskattstjóri gefur árlega út vegna þessara starfsgreina. Er hér miðað við þrjá mánuði til lágmarksbótaréttar.
    Í 5. tölul. er lagt til að bótaréttur þeirra sjóðfélaga, sem voru launþegar að einhverju leyti innan viðmiðunartímabilsins, grundvallist á starfstímabilum og starfshlutfalli. Í stað þess að miða við unnar dagvinnustundir sem tryggingagjald hefur verið greitt af, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. gildandi laga, er miðað við tíu vikna vinnu á síðustu tólf mánuðum miðað við fullt starf en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða. Er þetta í samræmi við nýtt frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar. Í þessu sambandi er í raun átt við ráðningartímabil en í því felst að orlofstími reiknast með við ákvörðun á starfstímabili. Frávik frá skilyrði um tryggingagjaldsskylda vinnu eru hugsanleg á grundvelli svonefndrar fimm ára reglu í 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993, en samkvæmt henni geta norrænir ríkisborgarar, og aðrir sem samningurinn tekur til, átt rétt á því að öðlast strax við flutning rétt til atvinnuleysisbóta án þess að hafa unnið í því landi þar sem bóta er krafist.
    Lögð er til breyting á reglum um ákvörðun á vinnuframlagi sjómanna til samræmis við það að í frumvarpinu er lagt til að bótaréttur grundvallist á starfshlutfalli og starfstíma. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 93/1993 skal til þess að finna dagvinnustundir sjómanna margfalda fjölda skráningardaga með átta. Lagt er til að áfram verði miðað við lögskráningardaga sjómanns og að 21,67 lögskráningardagar teljist vera eins mánaðar vinna. Deilitalan 21,67 er sú sama og notuð er af aðilum vinnumarkaðarins þegar verið er að reikna út dagkaup fyrir virkan dag. Um er að ræða meðaltal mánudaga til föstudaga, þ.e. 52 vikur x 5 dagar = 260 dagar. Við útreikning á meðaltali á mánuði er deilt í 260 með 12, sem gefur niðurstöðuna 21,67 dagar á mánuði. Þegar sjómaður hefur verið skráður á skip allan mánuðinn hefur hann því skilað rúmlega mánaðarvinnu samanborið við starfsmann í landi. Sjómaðurinn tekur síðan frí á launum eða launalaust, eftir því hvort um farmann eða fiskimann er að ræða. Þykir því rétt að halda áfram þeirri aðferð að reikna út frá lögskráningardögum sjómanns sem hann getur annaðhvort staðfest með því að sýna sjóferðarbók sína eða vottorð frá lögskráningarstjóra. Sé um að ræða fiskiskip undir tólf rúmlestum brúttó, sem ekki er skylt að lögskrá á gilda almennar viðmiðunarreglur um útreikning bótaréttar.
    Samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar er það skilyrði að maður hafi verið atvinnulaus í a.m.k. þrjá daga í upphafi bótatímabils. Þess í stað er áskilið í 6. tölul. 1. mgr. að maður hafi verið atvinnulaus í a.m.k. tvær vikur samfellt í upphafi bótatímabils. Að því skilyrði uppfylltu, ásamt öðrum skilyrðum 4. gr., á maður rétt á bótum frá og með fyrsta skráningardegi. Krafa um tveggja vikna samfellt atvinnuleysi til þess að öðlast bótarétt á eingöngu við í upphafi bótatímabils, sbr. 1. mgr. 10. gr.
    Sú meginregla er lögð til í 7. tölul. 1. mgr. að maður verði að vera reiðubúinn að ráða sig í fullt starf eða hefja sjálfstæðan rekstur til þess að geta notið bóta á grundvelli frumvarpsins, ef að lögum verður. Er sú regla í samræmi við frumvarp til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar. Úthlutunarnefnd er þó veitt heimild til að víkja frá þessu skilyrði sé manni talið ókleift að ráða sig í fullt starf. Er í því sambandi einkum haft í huga að fjölskylduaðstæður eða heilsufar viðkomandi standi í vegi. Miðað er við að sams konar heimild gildi um þá sem hafa verið í hlutastarfi. Gert er ráð fyrir að gengið verði úr skugga um þetta atriði um leið og maður sækir um bætur en skv. 1. mgr. 17. gr. getur sá sem ekki er reiðubúinn að fara í fullt starf ekki átt rétt á hærri bótum en sem nemur því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig í.
    Til að skýrt sé að menn geta ekki á sama tíma notið bóta sem launþegar úr Atvinnuleysistryggingasjóði og Tryggingasjóði einyrkja er lagt til ákvæði þar um í 2. mgr. greinarinnar.
    

Um 5. gr.


    Skilyrði þess að sjóðfélagi megi teljast atvinnulaus eru greind í fjórum liðum og þarf viðkomandi að uppfylla öll skilyrðin; vera hættur rekstri, hafa eigi lengur tekjur eða ígildi tekna af rekstri, vera ekki í atvinnu sem launþegi og loks að vera sannanlega í atvinnuleit auk þess að geta tekið tilboðum um atvinnu. Þar sem sérstök sjónarmið geta átt við um hvern þeirra hópa, sem aðild munu eiga að Tryggingasjóði einyrkja hvað snertir skilyrði um lok rekstrar í starfsgrein, er lagt til í 2. mgr. að ráðherra setji nánari reglur þar um. Ekki er gert ráð fyrir að um grundvallarbreytingar verði að ræða frá gildandi reglum, sbr. reglugerð nr. 304/1994 og viðmiðunarreglur nr. 628/1994, um skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur fái atvinnuleysisbætur.
    

Um 6. gr.


    Ákvæðið fjallar um heimild til þess að geyma bótarétt vegna náms eða heimilisaðstæðna. Hliðstæð ákvæði er að finna í 1. og 4. mgr. 17. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar, en þó er það nýmæli að í ákvæðinu er skilgreint hvers konar heimilisaðstæður heimili geymslu bótaréttar. Sérákvæði um fæðingarorlof er enn fremur nýmæli.
    

Um 7. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. eru samhljóða 2. og 3. mgr. 17. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar en 3. mgr. felur í sér nýmæli. Í ljós hefur komið að nokkuð er um það að atvinnulausir einstaklingar beri við óvinnufærni þegar þeim er boðinn vinna. Það er því mikilvægt að vinnumiðlanir hafi skýra heimild til að óska eftir gögnum og upplýsingum um vinnufærni umsækjenda þannig að ljóst sé þegar menn sækja um bætur að þeir séu fullfærir til vinnu, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 5. gr.
    

Um 8. gr.


    Greinin tekur til atriða sem girða fyrir rétt til bóta eða skerða bótatímabil og svarar ákvæðið til 1.–4. og 7.–8. tölul. 21. gr. núgildandi laga um atvinnuleysistryggingar.
    Ákvæði 4. tölul. felur í sér þá breytingu að bótaréttur falli niður í 55 bótadaga í stað 40 bótadaga, sbr. 4. tölul. 21. gr. laga um almannatryggingar, þegar maður hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem hann á sjálfur sök á. Breyting þessi er í samræmi við frumvarp til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig ákvæði 6. tölul. sem felur í sér nýmæli um missi bóta þegar umsækjandi hefur hætt námi fyrir lok námsannar.
    Ákvæði 5. tölul., um skerðingu bótaréttar ef viðkomandi hefur verið sviptur leyfi til atvinnureksturs, er einnig nýmæli.
    

Um 9. gr.


    Ákvæðið er hliðstætt 22. gr. gildandi laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, með tveimur breytingum:
    Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að miða við tekjur síðustu sex mánuði við ákvörðun þess hvort umsækjandi skuli sæta biðtíma verði miðað við tekjur á síðustu tólf mánuðum, enda er það talið gefa skýrari mynd af raunverulegum efnahagi aðila.
    Þá er lögð til breyting frá því fyrirkomulagi sem nú er, skv. 4. mgr. 22. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar, að atvinnuleysisbætur skerðast vegna tilfallandi vinnu, dag og dag, miðað við unninn stundafjölda þó aldrei meira en miðað við átta klst. fyrir hvern sólarhring. Í 3. mgr. greinarinnar er lagt til að átta klst. hámark fyrir hvern sólarhring verði afnumið þannig að allar unnar vinnustundir í slíkri tilfallandi vinnu reiknist með við ákvörðun á fjölda bótadaga sem niður falla. Þannig valdi átta vinnustundir niðurfellingu hámarksbóta í einn dag en hlutfallslega færri vinnustundir ef viðkomandi nýtur lægri bótaréttar. Af síðasta málslið 3. mgr. leiðir að þegar viðkomandi hefur unnið samtals 173 stundir á a.m.k. tólf mánuðum í slíkri tilfallandi vinnu skal taka tillit til þeirrar vinnu við ákvörðun bótafjárhæðar og bótatímabils, sbr. 10. og 12. gr. frumvarpsins. Þegar því marki er náð þarf viðkomandi aftur að safna 173 vinnustundum á a.m.k. tólf mánuðum til þess að geta átt rétt á enn hærri bótafjárhæð og frekari framlengingu bótatímabils, sbr. 10. og 12. gr. Með „tilfallandi vinnu“ er átt við að maður sé ráðinn til vinnu frá degi til dags. Sé maður á hinn bóginn ráðinn til lengri tíma gilda almennar reglur 8. og 9. gr. um bótarétt hans.
    

Um 10. gr.


    Með ákvæðinu eru lagðar til grundvallarbreytingar á ákvæðum um bótatímabil og biðtíma. Skv. 3. og 5. mgr. 22. gr. gildandi laga er bótatímabilið 260 dagar eða samtals 52 vikur. Biðtími að afloknum bótatíma er 16 vikur en með þátttöku í átaksverkefnum eða námskeiðum er unnt að skerða biðtímann þannig að hann verði enginn. Af því leiðir að menn geta í raun verið ótakmarkaðan tíma á bótum sem er óeðlilegt og þekkist hvergi í nágrannalöndum okkar.
    Í greininni eru lagðar til breytingar á þessu fyrirkomulagi þannig að hvert bótatímabil verði nú að hámarki fimm ár. Er þessi breyting í samræmi við ákvæði frumvarps til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar. Skv. 16. gr. frumvarps til laga um vinnumarkaðsaðgerðir skal sá sem fellur af bótum njóta sérstakrar aðstoðar starfsfólks svæðisvinnumiðlunar við að kanna réttindi hans til annarrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélagi.
    Í 1. mgr. er lagt er til að bótatímabil manns, sem verið hefur á bótum en fær síðan vinnu eða hefur á ný sjálfstæða starfsemi, framlengist um jafnlangan tíma og hann hafði atvinnu. Þó er gert ráð fyrir því fráviki í 2. mgr. að hafi starfstímabil innan bótatímabilsins varað í samfellt tólf mánuði eða lengur skuli úthlutunarnefnd samkvæmt þessu frumvarpi endurmeta rétt sjóðfélaga með vísan til 3. sbr. 4. gr. frumvarpsins.
    Með sama hætti og gert er ráð fyrir í frumvarpi til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar er gert ráð fyrir því í 3. mgr. að nýtt bótatímabil geti hafist þegar liðnir eru í það minnsta tólf mánuðir frá því að bótatímabili lauk. Í því frumvarpi er einnig miðað við að hlutaðeigandi þurfi að hafa að baki að minnsta kost sex mánaða vinnu á þessu tímabili. Þessi regla er tekin upp hér, þó með hliðsjón af því að hér er um sjálfstætt starfandi einstaklinga en ekki launþega að ræða. Þannig er miðað við að viðkomandi einstaklingur hafi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds vegna sjálfstæðrar starfsemi í starfsgrein sem fellur undir gildissvið laganna í a.m.k. sex mánuði.
    Í 4. mgr. er lagt til að þau tímabil sem maður tekur þátt í úrræðum á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. e-lið 1. mgr. 10. gr. frumvarps til laga um vinnumarkaðsaðgerðir, sem styrkt eru af sjóðnum, sbr. 25. gr. þessa frumvarps, skuli teljast hluti bótatímabils. Með því móti er réttarstaða þess sem ráðinn er í starf vegna slíkra úrræða sú sama hvað bótatímabil snertir hvort sem hann er ráðinn á almennum launakjörum eða ekki.
    

Um 11. gr.


    Ákvæðið er hliðstætt 23. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar, en þó ekki að öllu leyti samhljóða. Þannig er lagt til að atvinnuleysisbætur fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga verði aldrei hærri en sem svarar reiknuðu endurgjaldi sem tryggingagjald hefur verið greitt af síðustu sex mánuði fyrir skráningu. Samsvarandi viðmiðun vegna dagvinnulauna launþega er höfð með í frumvarpi þessu þar sem gera má ráð fyrir þeim möguleika að sjóðfélagi hafi starfað sem launþegi síðustu mánuðina áður en hann varð atvinnulaus. Það sem liggur að baki ákvæðinu er að koma í veg fyrir að menn geti verið betur settir á bótum en í atvinnu en ljóst er að menn spara sér ýmis útgjöld sem tengjast atvinnuþátttöku meðan þeir eru atvinnulausir.
    Það nýmæli er lagt til í 3. mgr. að framlög vegna barna meðlagsskyldra skuli renna beint til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Er þetta í samræmi við nýtt frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar.
    Ákvæði 5. mgr. um að greiðslur úr almennum og frjálsum lífeyrissjóðum skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum er einnig nýmæli en óeðlilegt þykir að menn geti þegið atvinnuleysisbætur til viðbótar slíkum greiðslum sem líta má á sem tekjuígildi. Ákvæðið gildir jafnt um lífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, þ.e. þeim lífeyrissjóðum sem stofnaðir voru á grundvelli samkomulags aðila vinnumarkaðarins frá 1969, sem og þeim sjóðum sem stofnaðir hafa verið á síðustu árum og fengið staðfestingu fjármálaráðuneytisins á reglugerðum sínum, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Sama gildir einnig um þá sjóði sem starfa samkvæmt sérstökum lögum. Samkvæmt gildandi lögum eiga allir launamenn og atvinnurekendur að greiða til lífeyrissjóðs viðkomandi starfshóps eða starfsstéttar og hafa flestir launamenn þannig ekkert val um það til hvaða lífeyrissjóðs þeir greiða. Nokkur hópur launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga getur hins vegar valið sér lífeyrissjóð. Einnig er hugsanlegt að launamaður eða stéttarfélag hans hafi keypt viðbótarlífeyristryggingu frá frjálsum lífeyrissjóði. Allar þessar greiðslur eiga samkvæmt ákvæðinu að koma til frádráttar atvinnuleysisbótum.
    

Um 12. gr.


    Ákvæði 1. mgr. um hámarksbætur eru í samræmi við ákvæði 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 304/1994. Réttur til hámarksbóta er þannig miðaður við að hlutaðeigandi hafi staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi á síðustu tólf mánuðum.
    Lágmarksbætur, sem eru skv. 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins 1/4 hluti hámarksbóta, greiðast þeim sem hafa unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf á síðustu tólf mánuðum, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um rétt til að telja námstímabil með við ákvörðun bótafjárhæðar, sbr. 5. mgr. 24. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 6. mgr. felur aðeins í sér orðalagsbreytingu en ekki efnisbreytingu frá 8. mgr. 24. gr. laga nr. 93/1993.
    

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 14. gr.


    Í frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir er gert ráð fyrir að með aukinni ráðgjöf og úrræðum vinnumiðlana fyrir atvinnulausa, sem hafa það að markmiði að auka starfsgetu og starfsmöguleika þeirra, verði unnt að aðstoða atvinnulausa til þess að verða virkir í atvinnuleit. Með viðurkenndum skráningaraðila er átt við svæðisvinnumiðlun eða þann aðila sem svæðisráð hennar hefur falið að annast skráningu, sbr. 8. og 10. gr. frumvarps til laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Rétt þykir að það komi fram með skýrum hætti í lagatexta hvaða viðurlög það hafi í för með sér að skráning falli niður en framkvæmdin hefur verið eins og í ákvæðinu greinir. Er þannig mælt fyrir um í 2. mgr. 14. gr. að skrái viðkomandi sig ekki á tilskildum degi sæti hann missi bóta fyrir þá daga sem líða frá síðustu skráningu þar til hann skráir sig á ný. Ákvæði 3. mgr. er nýmæli þar sem fram kemur að stjórn Tryggingasjóðs einyrkja geti ákveðið að skráning fari fram með öðrum hætti en vikulega, en skv. 20. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar er eingöngu heimilt að láta skráningu fara fram oftar en vikulega. Þykir rétt að stjórnin hafi meira svigrúm til að meta þörf á skráningu, t.d. ef tekið er upp annars konar eftirlitskerfi hjá vinnumiðlun en skráning.
    

Um 15. gr.


    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar er hliðstætt 6. tölul. 21. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar.
    Í stað þess að áskilja að maður geti eingöngu hafnað vinnu í starfsgrein sem hann hefur ekki áður stundað, svo framarlega sem starfinu fylgi „meiri áreynsla og vosbúð“, sbr. 2. málsl. 6. tölul. 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, er lagt til í 2. mgr. að heimilt verði að hafna vinnu í annarri starfsgrein en maður hefur áður stundað ef taldar eru góðar líkur á því að hann muni geta fengið vinnu í sinni starfsgrein.
    Ekki eru gerðar breytingar á ákvæði gildandi laga um atvinnleysistryggingar um að heimilt geti verið að hafna vinnu fjarri heimili samkvæmt mati úthlutunarnefndar, sbr. 3. mgr. Með heimilisaðstæðum er átt við fjölskylduaðstæður, þar á meðal heilsufar fjölskyldumeðlima umsækjanda. Lagt er til að fellt verði brott ákvæði um að maður geti hafnað vinnu af öðrum ástæðum en þeirri að vinna sé fjarri heimili.
    

Um 16. gr.


    Gert er ráð fyrir að það verði fastur þáttur í þjónustu vinnumiðlana, sbr. frumvarp til laga um vinnumarkaðsaðgerðir, að aðstoða atvinnulausa við að gera starfsleitaráætlun. Slík áætlun felst í því að gerð er áætlun út frá forsendum viðkomandi einstaklings með hliðsjón af möguleikum á að útvega honum atvinnu. Jafnframt felur hún í sér að hinn atvinnulausi skuldbindur sig til þess að vera virkur í atvinnuleit. Eðlilegt er að líta svo á að sá sem er ekki til samvinnu um gerð slíkrar áætlunar eða fer ekki eftir gerðri áætlun fullnægi ekki því skilyrði að vera í atvinnuleit og það geti haft viðurlög í för með sér á sama hátt og þegar maður hafnar atvinnu. Það er hlutverk úthlutunarnefndar að taka ákvörðun um missi bótaréttar af þessum sökum.
    Gert er ráð fyrir að í starfsleitaráætlun verði kveðið á um hvernig eftirliti svæðisvinnumiðlunar með því að maður fullnægi skilyrðum bótaréttar verði háttað, þar á meðal hversu oft maður á að hafa samband við svæðisvinnumiðlun og hvernig maður sýnir fram á þátttöku í úrræðum á vegum hennar.

Um 17. gr.


    Ákvæðið felur í sér nýmæli að því er snertir hlutastörf en réttarstaðan hefur verið óljós hvað þau snertir þar sem ekki er kveðið á um gildi þeirra í lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 7. tölul. 1 mgr. 4. gr. frumvarpsins er meginreglan sú að menn verða að vera tilbúnir að ráða sig í fullt starf. Úthlutunarnefnd er þó sbr. einnig 3. mgr. 15. gr., veitt svigrúm til mats með hliðsjón af aðstæðum hins atvinnulausa.

Um 18. gr.


    Hér er um samsvarandi reglur að ræða og í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðinu er ætlað að taka af allan vafa um réttarstöðu þeirra sem sæta biðtíma eftir bótum, t.d. vegna tekna, sbr. 9. gr. frumvarpsins, eða vegna þess að þeir hafa sagt upp starfi án gildra ástæðna, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. Er þetta í samræmi við túlkun gildandi laga um atvinnuleysistryggingar, enda þótt ekki séu fyrir hendi skýr ákvæði um þetta atriði í þeim.

Um 19.–20. gr.


    Samsvarandi ákvæði er að finna í 1. og 2. mgr. 41. gr. gildandi laga. Rétt þykir að taka sérstaklega fram að það að leyna upplýsingum hefur sömu afleiðingar í för með sér og að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar.
    

Um 21. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 22. gr.


    Lagt er til að heimilt verði að skjóta ákvörðunum úthlutunarnefndar til sérstakrar úrskurðarnefndar. Gert er ráð fyrir að sú nefnd verði stofnsett með nýjum lögum um atvinnuleysistryggingar, sbr. frumvarp þar um sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Úrskurðir nefndarinnar fela í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun og verður þannig ekki skotið áfram til neins æðra stjórnvalds. Á hinn bóginn stendur þeim er telur á rétt sinn hallað með ákvörðun nefndarinnar að sjálfsögðu sú leið opin að leita annaðhvort til almennra dómstóla eða umboðsmanns Alþingis með þá ákvörðun.
    

Um 23. gr.


    Gert er ráð fyrir að Tryggingasjóður einyrkja verði að grunni til fjármagnaður með samsvarandi hætti og Atvinnuleysistryggingasjóður. Ákvæði 1. tölul., um tryggingagjald, byggist á þeim forsendum að um samhliða breytingu á lögum um tryggingagjald verði að ræða, þannig að tekjum af atvinnutryggingagjaldi þeirra einyrkja sem falla undir lög þessi verði ráðstafað í Tryggingasjóð einyrkja, en ekki í Atvinnuleysistryggingasjóð, sbr. nú 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, ásamt síðari breytingum.
    

Um 24. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 25. gr.


    Ákvæði 33.–37. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar fela í sér heimildir Atvinnuleysistryggingasjóðs til þess að veita ýmiss konar lán og styrki. Í ákvæði 25. gr. er fylgt fordæmi frumvarps til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar, þannig að eingöngu verði heimilt að veita styrki úr sjóðnum til þess að aðstoða við að hrinda í framkvæmd úrræðum á vegum svæðisvinnumiðlana til þess að auka starfshæfni og starfsmöguleika atvinnulausra og til að aðstoða atvinnulausa við búferlaflutninga.
    

Um 26. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 27. gr.


    Ákvæði 1. og 2. málsl. greinarinnar eru samhljóða 1. mgr. 39. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar en 3. málsl. felur í sér nýmæli. Það hefur tíðkast í nokkrum mæli að félagsgjöld til stéttarfélaga séu dregin af bótum sem þykir óeðlilegt nema skýrt samþykki hins atvinnulausa liggi fyrir.
    

Um 28. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 2. og 3. mgr. 39. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar að öðru leyti en því að ákvæði um upplýsingaskyldu Innheimtustofnunar sveitarfélaga og lífeyrissjóða er nýmæli. Tengist það því að í 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að framlög vegna barna greiðist í ákveðnum tilvikum beint til Innheimtustofnunar. Upplýsingaskylda lífeyrissjóða er nauðsynleg með tilliti til ákvæði 5. mgr. 11. gr.
    

Um 29. gr.


    Ákvæðið vísar til III. kafla frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar. Gert er ráð fyrir því að Tryggingasjóður einyrkja greiði ekki bætur í tilvikum sem þar er fjallað um. Þó þykir rétt að hafa ákvæði þetta í frumvarpinu til að taka af allan vafa.
    
    

Um 30. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 31. gr.


    Ákvæði um gildistöku er í samræmi við fyrirliggjandi frumvörp um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir, enda ljóst að nokkurn tíma þarf til undirbúnings fyrir gildistöku.
    

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Samkvæmt niðurstöðu í skýrslu nefndar þeirrar sem vann að undirbúningi þessa frumvarps var mismunur á innstreymi tekna af atvinnutryggingagjaldi í Atvinnuleysistryggingasjóð og útstreymi greiðslna úr sjóðnum vegna atvinnuleysistryggingabóta þeirra þriggja hópa sem frumvarpið tekur til, kr. 23.705.394. á árinu 1996, framreiknað til áramóta miðað við stöðuna 8. nóvember 1996. Gera má ráð fyrir að hinn 1. júlí 1997, verði um nokkuð hærri fjárhæð að ræða, en hún verður stofnframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs til Tryggingasjóðs einyrkja, sbr. 2. tölul. 23. gr. frumvarpsins.
    

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Í þessu lagaskilaákvæði er kveðið á um flutning þeirra bótaþega, sem uppfylla skilyrði laganna sem sjóðfélagar, en verið hafa í atvinnuleysistryggingakerfinu, yfir til Tryggingasjóðs. Ákvæði 2. mgr. skýrir sig sjálft með hliðsjón af 3. gr. frumvarpsins.
    

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins er að finna grundvallarbreytingu á ákvæðum um bótatímabil, sem við gildistöku laganna verður að hámarki fimm ár. Samkvæmt þessu ákvæði er tímamarkið 1. júlí 1994 lagt til grundvallar mati á lengd bótatímabils. Hafi maður þannig verið á atvinnuleysisbótum samfellt a.m.k. frá þeim degi til þess dags að frumvarp þetta verður að lögum, getur bótatímabil að hámarki varað til 1. júlí 1999. Sem dæmi má nefna að ef einstaklingur hefur verið á atvinnuleysibótum samfellt frá 1. janúar 1993 getur bótatímabil hans í raun orðið sex og hálft ár. Ef bótatímabil hefst eftir 1. júlí 1994 og viðkomandi hefur verið samfellt á atvinnuleysisbótum fram að gildistöku nýrra laga er gert ráð fyrir að bótatímabili ljúki fimm árum eftir að það hófst. Ef einstaklingur hefur verið samfellt á atvinnuleysisbótum frá 15. febrúar 1995 lýkur bótatímabili hans þannig 15. febrúar árið 2000.
    

Um ákvæði til bráðabirgða IV.


    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að ákvæði 16. gr. frumvarpsins um starfsleitaráætlanir og úrræði svæðisvinnumiðlana taki gildi 1. janúar 1998, þar sem ljóst þykir að þær muni krefjast lengri undirbúningstíma en til 1. júlí 1997, svo sem gildistökuákvæði þessa frumvarps gerir ráð fyrir.
    

Um ákvæði til bráðabirgða V.


    Rétt þykir að leggja til að lögin verði endurskoðuð að liðnum tveimur árum frá gildistöku, enda ætti þá að vera komin hæfileg reynsla á framkvæmd þeirra.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um Tryggingasjóð einyrkja.


    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar starfa nefndar um réttindi og skyldur sjálfstætt starfandi atvinnurekenda gagnvart atvinnuleysistryggingabótakerfinu. Þar er lagt til að stofnaður verði Tryggingasjóður einyrkja sem hafi það hlutverk að greiða sjóðfélögum sem yrðu bændur, vörubifreiðastjórar og smábátasjómenn atvinnuleysisbætur. Reglur um bótahæfi taka að mestu leyti mið af þeim ákvæðum sem er að finna í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar að teknu tilliti til þeirra atriða sem greina á milli stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og launamanna. Í því samhengi skiptir miklu máli hvernig viðmiðunarreglur um hvað teljist lok rekstrar verða útfærðar.
    Hugsanlegt er að aðrir hópar sjálfstætt starfandi einstaklinga fái aðild að þessum sjóði í framtíðinni en gert er ráð fyrir að lögin verði endurskoðuð innan tveggja ára frá setningu þeirra.
    Gert er ráð fyrir að Tryggingasjóður einyrkja verði rekinn samhliða Atvinnuleysistryggingasjóði en sem sérstök eining og með sjálfstæða stjórn. Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta mun þó skera úr um ágreining fyrir báða sjóðina. Í 2. gr. er að finna ákvæði um að 10% árlegra tekna sjóðsins skuli leggja í varasjóð þar til slíkur sjóður nemur eins árs útgreiðslu bóta miðað við síðastliðið ár. Einnig er þar ákvæði um að stjórn sjóðsins skuli gera tillögu til félagsmálaráðherra um hertar úthlutunarreglur eða hækkun á tekjum sjóðsins ef sýnt þykir að sjóðurinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.
    Í VII. kafla frumvarpsins er kveðið á um að tekjur sjóðsins skuli vera tekjur af atvinnutryggingagjaldi í samræmi við ákvæði laga um tryggingagjald, sérstakt stofnframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs auk vaxta af innstæðufé sjóðsins. Stofnframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs mun nema mismuninum á hlutfalli atvinnutryggingagjalds í greiddu tryggingargjaldi væntanlegra félaga í Tryggingasjóði einyrkja og útstreymi vegna greiðslna atvinnuleysis bóta til sömu aðila samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, á tímabilinu frá 1. janúar 1996 til 1. júlí 1997. Ætla má að stofnframlagið nemi um 33 m.kr. ef ekki er tekið tillit til kostnaðar vegna úthlutunar bótanna. Kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs við úthlutun bóta á árinu 1995 nam 7% af úthlutaðri bótafjárhæð, eða um 2,3 m.kr. af 33 m.kr. Tekjur af atvinnutryggingagjaldi til Tryggingasjóðs einyrkja á árinu 1997 verða um 24,5 m.kr. þar sem miðað er við að sjóðurinn taki til starfa 1. júlí 1997. Árlegar tekjur sjóðsins yrðu að óbreyttu um 49 m.kr. auk vaxta. Í þessari áætlun er tekið tillit til fyrirhugaðra breytinga á tryggingagjaldi.
    Árlegt tekjutap Atvinnuleysistryggingasjóðs er talið geta numið allt að 18,7 m.kr. sem er áætlaður mismunur á inn- og útstreymi Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna bænda, vörubifreiðastjóra og smábátasjómanna á árinu 1997. Auk þess verður sjóðurinn á árinu 1997 af allt að 30 m.kr. sem er stofnframlagið. Þannig flytjast allt að 49 m.kr. á árinu 1997 til Tryggingasjóðs einyrkja og um 18,7 m.kr. á ári eftir það. Á móti losnar Atvinnuleysistryggingasjóður við skuldbindingar vegna þessara aðila.