Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 525 . mál.


877. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.

Flm.: Ágúst Einarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,

Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhanna Sigurðardóttir,

Jón Baldvin Hannibalsson, Lúðvík Bergvinsson, Svanfríður Jónasdóttir,

Sighvatur Björgvinsson, Össur Skarphéðinsson.

1. gr.

    Á eftir 63. gr. kemur ný grein, 63. gr. a, svohljóðandi:
    Í stjórn hlutafélags sem skráð er á Verðbréfaþingi Íslands skal eiga sæti einn stjórnarmaður kosinn á almennum fundi starfsmanna hlutafélagsins.
    Almennur fundur starfsmanna hlutafélags skv. 1. mgr. skal haldinn a.m.k. einni viku fyrir aðalfund félagsins, sbr. 84. gr. Allir starfsmenn hlutafélagsins, sem eru fastráðnir á fundardegi, eru kjörgengir og eiga rétt til setu á þessum almenna fundi starfsmanna. Við kosningu stjórnarmanns á slíkum fundi ræður afl atkvæða og hefur hver fastráðinn starfsmaður eitt atkvæði eða hlut úr atkvæði, sé um hlutastarf að ræða.
     Um stjórnarmann sem kosinn er skv. 1. og 2. mgr. gilda ákvæði þessara laga, þó þannig að hann hefur ekki atkvæðisrétt á stjórnarfundum, sbr. 2. mgr. 71. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta fjallar um atvinnulýðræði en með orðinu atvinnulýðræði er átt við leiðir til að auka áhrif starfsmanna innan fyrirtækja.

Um atvinnulýðræði.

    Oft er rætt um tvær meginleiðir til að auka áhrif starfsmanna innan fyrirtækja. Annars vegar er gert ráð fyrir að starfsmenn komi að málum sem snerta vinnutilhögun, svo sem vinnutíma, aðbúnað, kaup og kjör og hins vegar er rætt um leiðir til að auka áhrif starfsmanna á stjórnun fyrirtækja. Hvorugt er útbreitt hérlendis og eru Íslendingar töluvert á eftir nágrannaþjóðunum hvað varðar þennan þátt í skipulagi atvinnulífsins.
    Í mjög langan tíma hefur samband fjármagns og vinnu verið einn af meginþáttunum í fræðilegri umfjöllun í hagfræði og þjóðfélagsvísindum. Áður fyrr var meginreglan varðandi fyrirtækjarekstur sú að eigendur fjármagnsins, þ.e. eigendur viðkomandi fyrirtækis, höfðu allt ákvörðunarvald og alla ábyrgð í fyrirtækinu en launafólk var því samningsbundið. Þetta skipulag í atvinnulífinu hefur breyst mikið á undanförnum áratugum.
    Hægt er að skipta atvinnulýðræði í nokkur stig þar sem fyrsta stigið er óformleg upplýsingagjöf frá æðstu stjórnendum og eigendum til starfsmanna. Næsta stig er samráð um starfsumhverfi eða um afmarkaða þætti í stjórnun fyrirtækisins. Þriðja stigið er að hinir þrír ráðandi hópar fyrirtækisins, þ.e. eigendur, æðstu stjórnendur og starfsmenn, taki sameiginlega ákvarðanir um stjórnun þess.
    Rökin fyrir auknum áhrifum starfsmanna eru m.a. þau að með auknu upplýsingastreymi er hægt að ná fram hagkvæmum áhrifum á rekstur fyrirtækis og á stöðu starfsmanna. Aukið atvinnulýðræði bætir starfsanda í fyrirtæki, veitir stjórnendum aðhald, bætir kjör og eykur lýðræðislega stjórnunarhætti.
    Það verður að hafa í huga að þótt eigendur fyrirtækja fari með hið formlega vald hafa áhrif og völd æðstu stjórnenda aukist verulega á síðari árum. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað um hinn vestræna heim undanfarna áratugi. Atvinnulýðræði vinnur gegn óeðlilegri valdasamþjöppun. Atvinnulýðræði er hluti af fyrirtækjamenningu sem er félagsleg umgjörð um starfsemi fyrirtækis, en það er sífellt mikilvægari þáttur í nútíma stjórnun.
    Fyrirtæki hafa í auknum mæli fært sig frá miðstýringu yfir til dreifstýringar þar sem einstakir starfsmenn taka sífellt meiri þátt í ákvörðunum sem tengjast vinnu þeirra. Þannig er talið að gott samband milli stjórnenda og starfsmanna sé í þágu beggja og hafi í för með sér bættan hag fyrirtækis svo og betri starfsanda, ánægðari starfsmenn og betri launakjör.
    Atvinnulýðræði er þannig góð aðferð til að styrkja fyrirtæki, bæta framleiðni og hækka laun, auk þess sem þessi leið eykur eftirlit sem er nauðsynlegt í heimi vaxandi samkeppni.
    Atvinnulýðræði hefur verið útfært víða, t.d. hefur hlutabréfaeign starfsmanna verið komið á sums staðar með skipulegum hætti. Það þekkist að launþegasjóðir séu starfandi innan fyrirtækja og í þá sjóði renni hluti af hagnaði fyrirtækisins. Slíkt fyrirkomulag þekkist t.d. í Svíþjóð og í Þýskalandi en er óþekkt hérlendis.

Atvinnulýðræði hérlendis.
    Þótt hagsmunir starfsmanna og vinnuveitenda geti oft farið saman innan fyrirtækis takast þessir aðilar einnig á, einkum um kaup og kjör. Þróunin hérlendis virðist sú að fyrirtækjasamningar verði gerðir í ríkari mæli en áður. Líklegt er að slíkir samningar þróist innan fyrirtækja með samvinnu og ráðgjöf frá heildarsamtökum vinnuveitenda og verkalýðsfélaga. Nýafstaðnir kjarasamningar mörkuðu spor í þessa átt þótt ekki væri gengið langt að þessu sinni. Þetta fyrirkomulag þekkist hins vegar mjög víða erlendis og hefur verið lengi í mjög föstum skorðum í nágrannalöndunum.
    Samskipti og samstarf launafólks og vinnuveitenda hér á landi hafa einkum tekið mið af kjarasamningum. Verkalýðsfélög og vinnuveitendur standa að hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum og koma í mörgum tilfellum fram sameiginlega gagnvart ríkisstjórn.
    Samstarf launafólks og vinnuveitenda hefur einnig verið mjög mikið innan lífeyrissjóðanna en þeim er stjórnað í sameiningu af samtökum launafólks og vinnuveitenda. Sá þáttur er mikilvægur í ljósi þessa frumvarps vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru hluthafar í fjölmörgum fyrirtækjum.
    Á næstu árum má búast við að hlutdeild lífeyrissjóða í atvinnulífinu aukist verulega en fjárfestingar lífeyrissjóða hérlendis í hlutabréfum eru enn þá hlutfallslega langt á eftir því sem algengast er í nágrannalöndunum. Að teknu tilliti til þess að yfir 300 milljarðar eru bundnir í eignum lífeyrisjóðanna er auðvelt að sjá fyrir að innan nokkurra ára munu lífeyrissjóðir verða ráðandi eignaraðilar í fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum.
    Ekki fer fram mikil umræða um með hvaða hætti lífeyrissjóðirnir eigi að koma að stjórnun í einstökum fyrirtækjum. Venjan hefur verið sú að þeir hafa ekki skipt sér af stjórnun fyrirtækja og í mjög mörgum tilfellum ekki sóst eftir stjórnarsæti þótt þeir gætu það. Þetta er hins vegar ekki einhlít regla. Lífeyrissjóðirnir hafa litið á fjárfestingar í hlutabréfum sem afmarkaðan þátt í dreifingu á fjármagni sínu en meginskylda þeirra er að tryggja góða ávöxtun á því fjármagni sem bundið er í sjóðunum til þess að geta staðið undir lífeyrisskuldbindingum.
    Hér á landi hefur hlutabréfamarkaður rutt sér til rúms og eignaraðild dreifst í fjölmörgum fyrirtækjum. Það ýtir enn frekar undir þátttöku starfsmanna í ákvörðunum innan einstakra fyrirtækja, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir.
    Fjölmargar stjórnunaraðferðir ganga beinlínis út frá þátttöku starfsmanna og má þar nefna gæðastjórnun sem er útbreitt stjórnunarform hérlendis og erlendis. Í gæðastjórnun er hagur viðskiptavinarins látinn sitja fyrir. Þessi stjórnunaraðferð hefur reynst vel við að útrýma sóun í rekstri og bæta framleiðslu og hefur leitt til vöru- og þjónustuvöndunar. Þannig hafa fjölmörg fyrirtæki skipulagt gæðaátak í fyrirtækjum sínum, sett á stofn gæðalið og unnið í minni hópum með starfsmönnum á tilteknum starfssvæðum til að bæta rekstur fyrirtækisins. Þetta hefur einnig endurspeglast í bættum launakjörum viðkomandi starfsmanna. Þessi aðferðafræði mælir með því að náið samstarf sé haft við starfsmenn um ýmsa stjórnunarþætti í fyrirtækjum.

Meginþættir frumvarpsins.
    Í þessu frumvarpi er farin einföld leið til að innleiða atvinnulýðræði hérlendis, þ.e. að starfsmenn fyrirtækis kjósi sér einn fulltrúa sem á sæti í stjórn þess. Einnig er þessi aðferð takmörkuð við þau fyrirtæki sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands en það eru flest stærstu og öflugustu fyrirtæki landsins. Þau þurfa að sinna tilteknum skyldum gagnvart samfélaginu hvað varðar upplýsingagjöf og lúta eftirliti, m.a. af hálfu stjórnar Verðbréfaþings. Þessi fyrirtæki starfa fyrir opnum tjöldum, eru flest ráðandi á sínu sviði og þeim ber skylda til að birta reglubundið upplýsingar um afkomu sína og rekstur. Ákvarðanir í þessum fyrirtækjum hafa mjög mikil áhrif á starfsmenn fyrirtækjanna og aðra aðila í atvinnulífinu.
    Að mati flutningsmanna er því eðlilegt að innleiða atvinnulýðræði með þessum hætti, þ.e. að starfsmenn fyrirtækja sem skráð eru á Verðbréfaþingi kjósi einn úr sínum hópi til að taka sæti í stjórn félagsins. Gert er ráð fyrir að þessi stjórnarmaður, sem sækir umboð sitt til starfsmanna fyrirtækisins og starfar í fyrirtækinu, hafi málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum alveg eins og aðrir stjórnarmenn en ekki er gert ráð fyrir í frumvarpinu að hann hafi atkvæðisrétt á stjórnarfundum.
    Það er álitamál hvort starfsmaðurinn eigi að hafa atkvæðisrétt á stjórnarfundum. Í stjórnum flestra fyrirtækja eru fimm til níu einstaklingar þannig að ljóst er að einn aðili hefur ekki mikil áhrif með atkvæði sínu. Með því að hann hafi ekki atkvæðisrétt er sérstaða hans mörkuð því að hann er ekki fulltrúi eigenda eins og aðrir stjórnarmenn. Flutningsmenn telja rétt að leggja til í fyrstu að þessi stjórnarmaður hafi ekki atkvæðisrétt á stjórnarfundum en ef reynslan sýnir að rétt sé að hann hafi atkvæðisrétt eru flutningsmenn reiðubúnir að endurmeta þá afstöðu.
    Hlutverk þessa stjórnarmanns er fyrst og fremst að fá upplýsingar um reksturinn, koma fram með skoðanir starfsmanna, m.a. í tillöguformi, og ræða stefnu og stjórnun fyrirtækisins út frá öðru sjónarhorni en aðrir stjórnarmenn. Um þennan stjórnarmann gilda öll ákvæði laga um stjórnarmenn, þar með talið um hæfi og trúnað um tiltekin málefni sem rædd eru á stjórnarfundum.
    Flutningsmenn leggja til að haldinn sé almennur starfsmannafundur a.m.k. viku fyrir aðalfund félagsins þar sem fulltrúi starfsmanna er kosinn í stjórn félagsins. Allir fastráðnir starfsmenn eiga seturétt á þeim fundi og eru kjörgengir í stjórnina. Sérhver starfsmaður fer með eitt atkvæði eða hluta úr atkvæði sé um hlutastarf að ræða.
    Tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst að opna fyrir atvinnulýðræði í íslenskum fyrirtækjum en umræða um það hefur verið lítil hérlendis. Norðurlöndin hafa gengið langt á þessu sviði, svo og Þýskaland og reyndar flest lönd innan Evrópusambandsins.
    Náið samstarf fyrirtækis og starfsmanna þekkist einnig annars staðar. Samband Japana við fyrirtæki sín er mjög mikið og þar er algengast að starfsmenn vinni allan starfstíma sinn hjá sama fyrirtæki. Annars staðar er meira um breytingar á starfsliði að ræða, eins og t.d. í Bandaríkjunum.
    Þetta form atvinnulýðræðis þekkist víða og sums staðar eru starfandi sérstök ráð eða stjórnir sem gæta hagsmuna starfsmanna á vinnustað. Annars staðar er þátttaka starfsmanna í stjórnum fyrirtækja tryggð og þá með víðtækari hætti en þetta frumvarp gerir ráð fyrir.
    Mjög mikilvægt er að samstarf æðstu stjórnenda, starfsmanna og eigenda eigi sér stað innan einstakra fyrirtækja til að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækis og gefa starfsmönnum raunhæfan möguleika á þátttöku í stjórnun þess. Þetta getur bæði haft áhrif á starfsumhverfi þeirra og launakjör í framtíðinni.
    Lagt er til að lög þessi öðlist þegar gildi og síðan verði unnið að því fyrir næsta aðalfund þessara fyrirtækja að breyta samþykktum félaganna í átt að því sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Það eru tiltölulega einfaldar breytingar.

Fyrirtæki á Verðbréfaþingi Íslands.
    Gert er ráð fyrir að einungis fyrirtæki á Verðbréfaþingi muni falla undir ákvæði frumvarpsins um að starfsmenn þess eigi mann í stjórn. Þau 35 fyrirtæki sem hér um ræðir eru núna eftirfarandi:

Velta í milljörðum

Starfsmannafjöldi


Félag

kr. árið 1995

í árslok 1995



Flugleiðir hf.      16
,8
1.361
Kaupfélag Eyfirðinga svf.      9
,6
1.092
Hf. Eimskipafélag Íslands      9
,5
876
Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda hf.      9
,5
59
Olíufélagið hf.      8
,7
354
Íslandsbanki hf.      7
,9
775
Skeljungur hf.      6
,5
250
Olíuverslun Íslands hf.      6
,1
301
Útgerðarfélag Akureyringa hf.      4
,0
470
Grandi hf.      3
,8
443
Síldarvinnslan hf.      3
,6
360
Vinnslustöðin hf.      3
,0
380
S.R.-Mjöl hf.      2
,9
124
Haraldur Böðvarsson hf.      2
,7
300
Sláturfélag Suðurlands svf.      2
,2
310
Þormóður rammi hf.      2
,0
200
Tæknival hf.      1
,5
110
Hampiðjan hf.      1
,3
133
Marel hf.      1
,2
101
Lyfjaverslun Íslands hf.      1
,1
84
Fóðurblandan hf.      1
,1
-
Skagstrendingur hf.      1
,0
85
Jökull hf.      0
,9
210
Plastprent hf.      0
,9
106
Skinnaiðnaður hf.      0
,9
138
Sæplast hf.      0
,4
29
Þróunarfélag Íslands hf.      0
,3
40
Jarðboranir hf.      0
,3
-
Hlutabréfasjóðurinn hf.     
-
-
Auðlind hf.     
-
-
Íslenski hlutabréfasjóðurinn hf.     
-
-
Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf.     
-
-
Íslenski fjársjóðurinn hf.     
-
-
Almenni hlutabréfasjóðurinn hf.     
-
-
Hlutabréfasjóður Norðurlands hf.     
-
-


    Heildarumsvif eða velta þessara fyrirtækja árið 1995 var yfir 110 milljarðar kr., en til samanburðar má geta þess að fjárlög fyrir árið 1997 eru um 125 milljarðar kr. Heildarstarfsmannafjöldi þessara fyrirtækja er nú yfir 10.000 manns.
    Heildarmarkaðsvirði þessara 35 fyrirtækja er nú yfir 110 milljarðar kr. Þrjú öflugustu félögin á Verðbréfaþingi eru Eimskipafélag Íslands, Íslandsbanki og Flugleiðir. Markaðsvirði Eimskipafélagsins er 16,2 milljarðar kr., markaðsvirði Íslandsbanka 10,3 milljarðar kr. og Flugleiða 8,5 milljarðar kr. Hluthafar í þessum þremur félögum eru um 25.000 talsins.
    Æ fleiri fyrirtæki vilja komast inn á Verðbréfaþingið vegna þeirra kosta sem það hefur í för með sér. Engin ástæða er til að ætla að samþykkt þessa frumvarps muni hefta þá þróun, þvert á móti þar sem frumvarpið, eins og það er útfært, verður bæði starfsmönnum og fyrirtækjum til hagsbóta.
    Þetta frumvarp tekur á einum þætti í atvinnulýðræði, þ.e. þátttöku starfsmanna í stjórnun fyrirtækja sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands. Vitaskuld þyrfti að samþykktu þessu frumvarpi að halda áfram á þessari braut og taka upp sams konar aðferðir í öðrum stórum hlutafélögum svo og stofnunum og fyrirtækjum ríkisins.
    Flutningsmenn eru þess fullvissir að samþykkt þessa frumvarps muni styrkja íslenskt atvinnulíf og leiða til bættra kjara launafólks jafnframt því að auka möguleika á aukinni framleiðni fyrirtækja og bæta þar með samkeppnisstöðu þeirra á alþjóðamarkaði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að bæta inn nýrri grein í núverandi hlutafélagalög þannig að í stjórn hlutafélags sem er skráð á Verðbréfaþingi Íslands skuli eiga sæti einn stjórnarmaður kosinn á almennum fundi starfsmanna.
    Halda skal starfsmannafund þar sem allir fastráðnir starfsmenn eiga seturétt, hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir. Hver fastráðinn starfsmaður hefur eitt atkvæði eða hluta úr atkvæði sé um hlutastarf að ræða. Kjósa skal einn úr þeirra hóp til setu í stjórn fyrirtækisins til eins árs í senn og nær sá kjöri sem fær flest atkvæði.
    Þessi stjórnarmaður hefur öll sömu réttindi og skyldur og aðrir stjórnarmenn, þó þannig að hann hefur ekki atkvæðisrétt á stjórnarfundum en hefur tilllögurétt og málfrelsi eins og aðrir stjórnarmenn.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.