Frumvarp um hollustuhætti

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 15:02:34 (3263)

1998-02-02 15:02:34# 122. lþ. 56.94 fundur 189#B Frumvarp um hollustuhætti# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:02]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Umhvn. Alþingis er þessa dagana að halda áfram vinnu við frv. til laga um hollustuhætti, 194. mál þessa þings sem lagt var fram sem stjfrv. á haustþingi. Á fund nefndarinnar í morgun komu þrír stjórnarmenn. Það var aðstoðarmaður landbrh., sem er varaformaður í stjórn Hollustuverndar ríkisins að ég hygg. Og það voru stjórnarmenn úr Hollustuvernd ríkisins, Sigurður Óskarsson og Kristín Einarsdóttir. Þau eru fulltrúar Alþingis í stjórn Hollustuverndar. Þessir stjórnarmenn upplýstu á fundinum, og því var fylgt eftir með greinargerðum sem að hluta til höfðu borist áður til nefndarinnar í aðsendum gögnum, að þeim hefði verið bannaður aðgangur að þessu stjfrv. sem hafði verið unnið að á vegum stjórnskipaðrar nefndar. Ég hef dreift til þingmanna gögnum um þetta frá viðkomandi stjórnarmönnum, Sigurði Óskarssyni, fulltrúa Alþingis í stjórn Hollustuverndar, og Kristínu Einarsdóttur, þar sem þetta kemur fram.

Hér er að mínu mati um mjög alvarlegt mál að ræða í sambandi við undirbúning mála til Alþingis. Ég hafði reiknað með að hæstv. umhvrh. væri hér á þingfundi. Ég spurðist fyrir áður en þingflokksfundir hófust hvort hann væri með fjarvist. Það var ekki sagt vera, en forseti upplýsir mig um að hæstv. ráðherra hafi fjarvist. Það gefst þá tækifæri til þess að heyra sjónarmið hans síðar. Þetta er þess eðlis og snertir svo mjög mikilvægt mál að nauðsynlegt er að Alþingi hafi upplýsingar um þetta og því legg ég þetta hér til þingmanna.

(Forseti (ÓE): Hæstv. umhvrh. hefur fjarvistarleyfi samkvæmt skrá sem forseti hefur hér hjá sér þannig að hann mun væntanlega svara þegar hann kemur aftur til þings.)