Frumvarp um hollustuhætti

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 15:07:31 (3266)

1998-02-02 15:07:31# 122. lþ. 56.94 fundur 189#B Frumvarp um hollustuhætti# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:07]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau orð sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir mælti hér að það er nauðsynlegt að stjórn þingsins kynni sér þetta mál og fjalli um það. Ég hefði kosið að hæstv. ráðherra væri hér til þess að skýra sjónarmið sín varðandi málið þar sem fulltrúi hans og formaður viðkomandi stjórnskipaðrar nefndar bannar tilnefndum fulltrúa stjórnar Hollustuverndar ríkisins að sýna tilteknum stjórnarmönnum málið, en svo vill til að þeir eru fulltrúar Alþingis í stjórninni. Málið kom þar einu sinni fyrir snemma á starfstíma nefndarinnar í nóvember 1996 en síðan ekki söguna meir. Þá stóð þetta bann gagnvart þessum stjórnarmönnum. Þetta er satt að segja aldeilis óskiljanlegt jafnvel þó að menn átti sig á því varðandi þetta frv. að þar eru álitamálin mjög mörg.

Það er ekki vænlegt til undirbúnings þingmála af hálfu ríkisstjórnar að ganga þannig til verka að ætla að útiloka þá sem að eru kannski næst vettvangi, í þessum tilvikum stjórn Hollustuverndar ríkisins og þá fulltrúa sem eru kjörnir í þá stjórn af hálfu Alþingis. Ég vænti þess að málið verði athugað af forustu þingsins. Þetta er áhyggjuefni varðandi þetta mál sem gert hafði verið ráð fyrir að ljúka afgreiðslu á fyrir lok febrúarmánaðar með sérstöku samkomulagi í nefndinni en þar er sannarlega mikill og hár garður fram undan að vinna úr sem ég ætla ekki að taka til umfjöllunar hér. Ég held að undirbúningurinn hefði kannski orðið betri ef þessum dæmalausu vinnubrögðum hefði ekki verið beitt við undirbúning þessa stjfrv.

(Forseti (ÓE): Forseti hefur heyrt þessar athugasemdir og mun taka þær til athugunar.)