Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:21:56 (3290)

1998-02-02 17:21:56# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:21]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Saksóknaraembætti annars staðar á Norðurlöndum njóta svipaðs sjálfstæðis og hér á landi. Ég get ekki sagt um það hvort lögin eru nákvæmlega eins í öllum atriðum en í grundvallaratriðum er þar byggt á sömu réttarskipan.

Ég minni á að ég hef staðið að því að birta í allshn. upplýsingar sem ég taldi að væru trúnaðarmál og ég vildi ekki birta á Alþingi og gera heyrumkunnar. Það var fyrirspurn sem hér var lögð fram um vopnaeign lögreglunnar. Ég taldi það vera slíka lögregluhagsmuni að þær upplýsingar væru ekki gerðar opinberar að ég vildi ekki birta þær á Alþingi en ég birti þær í trúnaði fyrir allshn. En hér gildir hins vegar allt annað. Hér er verið að biðja um upplýsingar úr rannsókn á máli þar sem 40 lögreglumenn og yfirmenn lögreglunnar höfðu réttarstöðu grunaðra manna. Þá er það ekki á valdi ráðherra að taka ákvarðanir um hvort rannsóknarupplýsingar eru birtar, það er á valdi hins sjálfstæða ríkissaksóknara að taka ákvörðun þar um. Ég held að það hafi verið skynsamleg niðurstaða hjá Alþingi á sínum tíma að tryggja þetta sjálfstæði gagnvart hinu pólitíska valdi til þess að tryggja réttaröryggi borgaranna. Við erum að tala um tvo ólíka hluti, hvort það eru upplýsingar sem eru á vettvangi stjórnsýslunnar og framkvæmdarvaldsins eða upplýsingar á vettvangi dómstóla eða saksóknaraembættisins.