1998-02-11 16:12:21# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:12]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég tek undir þann málflutning sem hæstv. utanrrh. hafði um málið og tel að hann sé í fullu samræmi við afstöðu Íslands í málum af þessu tagi sem upp hafa komið á undanförnum árum og áratugum. Ísland hefur aldrei skorist úr leik að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum á vegum Sameinuðu þjóðanna sem miða að því að stuðla að friði í heiminum og sporna við því að einræðisherrar færi út veldi sitt.

Það liggur alveg ljóst fyrir í málinu hvað sem hv. stjórnarandstæðingar segja að heimsbyggðin öll stendur frammi fyrir því að einræðisherra við Persaflóa hefur komið sér upp sýklavopnum og eiturvopnum og menn vænta þess að hann muni jafnvel búa sig undir að beita þessum vopnum. Það er þetta sem menn standa frammi fyrir. Það er gagnvart slíkum hótunum sem menn standa frammi fyrir og eru að velta fyrir sér hvernig við á að bregðast.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið að aðgerðirnar eru flóknar og ekki auðvelt að átta sig á því hvernig á að beita vopnavaldi til að koma í veg fyrir æðið í þessum manni en hitt er ljóst að hann hefur komið sér upp þessum vopnum og menn hafa kynnst því að hann er reiðubúinn til að beita þeim vopnum sem hann ræður yfir. Það er þessi hætta sem mannkynið stendur frammi fyrir og það er málstaðurinn gegn þessum manni sem Ísland er að leggja lið með þeim yfirlýsingum sem utanrrh. gaf í dag. Ef menn telja að með því snúist menn gegn hagsmunum Íslands held ég að þeir séu algerlega á röngu róli og átti sig í raun ekki á því um hvað málið snýst. Það alvarlega í málinu er að einræðisherra hefur náð að sölsa undir sig og koma sér upp eiturefnum, efnavopnum og virðist reiðubúinn að beita þeim fái hann tækifæri til þess.