Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 17:44:06 (4162)

1998-02-23 17:44:06# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[17:44]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta við í þessa umræðu um loðnuna að eins og ég nefndi í ræðu minni áðan er til önnur leið ef menn hafa áhyggjur af því að frjáls sókn væri eitthvert tilræði við þessa fiskveiðistjórnun sem margir vilja viðhalda. Þá er út af fyrir sig hægt að fara þá leið, eins og ég sagði áðan, að gefa út einfaldlega meiri heildarheimildir. Mér er hins vegar kunnugt um að Hafrannsóknastofnun telur sig ekki geta mælt með slíkri aðferð af því að þeir hafa ekki mælt stofninn. En í ljósi þess að þetta gæti verið tæki eða aðferð við að ná heildaraflanum sem fiskifræðingar hafa talið óhætt að við veiddum, þá er þetta út af fyrir sig ágætis aðferð sem mundi engu raska í sjálfu sér. Hún mundi ekki raska grundvelli úthlutunarinnar og væri kannski leið sem mjög margir gætu þess vegna sætt sig við. Ég tel að það skipti ekki höfuðmáli hvor leiðin er valin. Ég held að aðalatriðið sé að við náum þessu markmiði okkar, að veiða úthlutaðan kvóta í loðnunni þannig að við gerum sem mest úr honum á þeim tíma sem við höfum til þess.

[17:45]

Ég vakti máls á þessu vegna þess einfaldlega að reyndir skipstjórnarmenn hafa vakið athygli mína á því að sú hætta sé raunverulega fyrir hendi að okkur takist ekki við þær aðstæður sem nú eru að ná kvótanum í loðnunni og að þjóðarbúið geti þess vegna beðið af því mikinn skaða.

Ég vil aðeins segja út af síðustu spurningum hv. þm. --- ég get auðvitað ekki svarað öllum hér og nú --- að ég er alltaf dálítið hikandi varðandi þessar hólfaskiptingar. Ég þekki það af gamalli reynslu að þetta eru ákaflega erfið og viðkvæm mál og ég held að það verði að reyna að ná samkomulagi í þessum efnum. Ég vek athygli á að við afgreiddum fyrr á þessum vetri frv. til laga um veiðar í landhelgi Íslands, landhelgislagafrv. held ég það sé kallað í daglegu tali. Það byggðist á mjög miklu samráði sem átti sér stað á tveimur eða þremur síðustu árum og ég held að ekki væri heppilegt að taka það upp einhliða og raska því samkomulagi sem þar náðist.