Hollustuhættir

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 16:35:38 (4286)

1998-03-03 16:35:38# 122. lþ. 77.1 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[16:35]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sem hér lauk máli sínu beindi til mín einni fyrirspurn. Hann spurði hvort vissa væri fyrir því að heilbrigðisnefndirnar gætu tekið til starfa fyrir tilsettan tíma. Ég tel það tvímælalaust eiga að geta orðið og þegar það hafi verið lögfest beri að standa þannig að málum að svo verði. Í frv. var gert ráð fyrir því að fresturinn yrði til 1. ágúst 1998. Það var afstaða þeirrar nefndar sem að málinu vann. Þá var gert ráð fyrir gildistöku laganna um síðustu áramót en þessi dagsetning var ákveðin með tilliti til þess að í vor fara fram sveitarstjórnarkosningar og því væri eðlilegt að gefa frest fram yfir sveitarstjórnarkosningarnar þannig að nýjar sveitarstjórir skipi nýjar heilbrigðisnefndir. Einnig var rætt um að fulltrúar atvinnurekenda sem eiga sæti í nefndunum mundu tilnefna sína fulltrúa og fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands í undirbúningsnefndinni taldi engin vandkvæði á því. Við munum leita eftir því að samtök vinnuveitenda tilnefni í þessar nefndir sína fulltrúa. Náttúruverndarnefndirnar verða einnig til að loknum kosningunum. Ég tel engin vandkvæði á að þær tilnefni sinn fulltrúa eins og sveitarstjórnirnar. Þar sem náttúruverndarnefndir eru ekki til staðar lengur og aðrar nefndir hafa fengið þau verkefni, þá kemur það í þeirra hlut að tilnefna fulltrúana.