Dómstólar

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 15:05:19 (4371)

1998-03-05 15:05:19# 122. lþ. 80.10 fundur 176. mál: #A dómstólar# frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[15:05]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það skýrðist hugsanlega fyrir einhverjum hvað átt er við með 1. mgr. í brtt. en þar segir einfaldlega: ,,ef slíkt``, þ.e. að taka þátt í starfsemi svo sem leynireglum, ,,fær ekki samrýmst stöðu hans``, þ.e. dómara, ,,eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi þá er honum það óheimilt,`` ef það er niðurstaða nefndarinnar.

Ég er enn þeirrar skoðunar, og það breyttist ekki við það sem hv. þm. sagði áðan, að nefnd um dómarastörf geti fyllilega sett almennar og skýrar reglur um þessi atriði á grundvelli 26. gr. frv. eins og það liggur fyrir. Ég tel að þar sem þar eru almenn ákvæði eingöngu þá sé greinin þannig betur til þess fallin að skapa vettvanginn og grundvöllinn.