Áfengislög

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:02:06 (4388)

1998-03-05 17:02:06# 122. lþ. 80.15 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er e.t.v. ekki ástæða til að gera margar athugasemdir við andsvar hv. þm. Þó er rétt að vekja athygli á því að fram koma mjög mismunandi viðhorf þingmanna Alþb. og óháðra varðandi mat á því hvort þetta frv. muni leiða til fjölgunar á áfengisútsölum eða ekki. Hv. 8. þm. Reykv. telur að frv. muni leiða til þess að áfengisútsölum fjölgi stórkostlega en hv. 17. þm. Reykv. hefur haldið því hér fram að það sé stefna hæstv. fjmrh., og alveg augljós, að alls ekki eigi að fjölga frekar útsölum. Ég hef skilið hann svo að hann teldi einn aðalgallann á þessu frv. vera þann að alls ekki ætti að fjölga útsölustöðunum og það stafaði af því, að hans mati, að hæstv. fjmrh. teldi að þannig væri best komið óorði á Áfengisverslunina. Þetta lýsir því að þingmenn Alþb. og óháðra hafa mjög mismunandi mat á áhrifum frv. að þessu leyti.