Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:36:35 (4422)

1998-03-06 11:36:35# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ekki þarf að fjölyrða um ástandið í Afganistan. Því hefur verið lýst hér. Þetta ástand hefur sérstaklega bitnað á konum og stúlkum og konur hafa verið sviptar grundvallarmannréttindum. Stúlkum er meinuð skólaganga. Konur mega ekki gegna störfum utan heimilis. Þetta hefur m.a. orðið til þess að ekkjur geta ekki unnið fyrir börnum sínum. Þetta hefur komið illa niður á mennta- og heilbrigðiskerfinu og svo mætti lengi telja.

Það liggur því alveg ljóst fyrir að þetta er ástand sem alþjóðasamfélagið getur ekki unað við. En því miður er þetta svona víðar. Það er svipað ástand í Írak. Það er skelfilegt ástand í Alsír. Og því miður hefur hin íslamska trú verið notuð sérstaklega til þess að ofsækja konur og stúlkur. Þetta er vandamál hins alþjóðlega samfélags.

Auðvitað er erfitt að segja til um það á hverjum tíma hvernig við getum barist gegn þessu. Ég er hins vegar sannfærður um það að Ísland geri það best í samstarfi við aðrar þjóðir, í samvinnu við þjóðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í samvinnu við þjóðir Norðurlandanna, í samvinnu við þjóðir Evrópusambandsins og það höfum við gert. Ég tók þetta mál sérstaklega upp á fundi utanrrh. Norðurlandanna vorið 1997 í Noregi þar sem við komum okkur saman um að vinna að þessum málum sameiginlega, Norðurlöndin, innan Evrópusambandsins, innan Sameinuðu þjóðanna og í öllum þeim samtökum sem við erum aðilar að.

Ég vil hins vegar minna hv. þingmenn á það að íslenska utanríkisþjónustan er ekki jafnöflug og utanríkisþjónusta annarra ríkja og þess vegna nýtum við okkur það sérstaklega að vinna að slíkum málum í samstarfi við aðra. Við höfum talið það þjóna málum best. Það fer ekkert á milli mála hver okkar afstaða er og við munum áfram vinna að þessu máli af fullum krafti eins og við höfum gert.

Ég vil þakka þann áhuga sem Alþingi hefur sýnt í þessu máli og vonandi verður hægt að ræða það betur þegar umræða fer hér fram um utanríkismál því satt best að segja hefur ekki alltaf verið jafnmikill áhugi hér í þinginu á þeim málum. En ég heyri það í dag að sá áhugi fer vaxandi og það er vel.