Örnefnastofnun Íslands

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 17:39:14 (4544)

1998-03-10 17:39:14# 122. lþ. 83.3 fundur 166. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[17:39]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um Örnefnastofnun Íslands frá menntmn.

Frumvarpið felur í sér að sett verður á fót sjálfstæð ríkisstofnun, Örnefnastofnun Íslands, sem tekur við hlutverki Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns sem er sjálfstæð deild innan safnsins. Jafnframt er kveðið skýrt á um hlutverk stofnunarinnar og starfsemi hennar í megindráttum. Hinni nýju stofnun er ætlað að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið á vegum Örnefnastofnunar Þjóðminjasafnsins en á víðtækari grundvelli og í samstarfi við aðra aðila í meiri mæli en verið hefur. Mikilvægt er að tryggt sé að stofnunin hafi góð tengsl og samráð við sem flesta þá aðila sem starfa á sviðum örnefnafræða, bæði innan lands og utan. Þá er lögð áhersla á þjónustuhlutverk stofnunarinnar við almenning, m.a. með tilstilli nettengingar um tölvur, og jafnframt skal stofnunin styðja við kennslu í örnefnafræðum.

Nefndin tekur undir markmið frumvarpsins og telur rétt að ríkisvaldið standi vörð um þann ómetanlega menningarfjársjóð sem stofnunin hefur í vörslu sinni. Leggur hún til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Herra forseti. Með því að gera Örnefnastofnun að sjálfstæðri ríkisstofnun er hún treyst í sessi og starfsemi hennar tryggð til framtíðar. Einnig má segja að í frv. felist viðurkenning á ómetanlegu starfi Þórhalls Vilmundarsonar prófessors í þágu örnefnarannsókna hér á landi.

Ég minnist þess frá námsárum mínum við Háskóla Íslands hversu mikla athygli, áhuga og viðbrögð kenningar hans og rannsóknir vöktu, jafnt meðal almennings og fræðimanna. Aðsókn að fyrirlestrum hans og fundum um þessi efni var slík að hún sprengdi af sér stærstu fyrirlestrasali þess tíma, t.d. Háskólabíó. Ég tel fagnaðarefni að það skref skuli nú stigið að gera Örnefnastofnun að sjálfstæðri ríkisstofnun. Ég tel það lyftistöng fyrir rannsóknir í örnefnafræðum og enn fremur mikilvægt innlegg í menningarstarfsemi hér á landi.