Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:18:52 (5111)

1998-03-24 16:18:52# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:18]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Meðan við fyrr í dag vorum enn þá að tala um 13. dagskrármálið fagnaði ég því alveg sérstaklega að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hvatti til umræðna í allshn. um tiltekið mál og kvaðst aldeilis vera tilbúinn til þess að koma þar á fundi til að ræða málið. Þessu fagnaði ég vegna þess að á tæpri viku hefur þurft að aflýsa þremur fundum í hv. allshn. vegna þess að stjórnarandstaðan í þinginu eða minni hlutinn í nefndinni einn, ekki veit ég hvort það er, neitar að koma á þessa fundi. Ég vildi að þetta kæmi alveg skýrt fram.

Það liggja fyrir mörg mál og þegar er búið að fella niður þrjá fundi á tæpri viku vegna þessa ... (Gripið fram í: Er þetta andsvar?) Ég er að taka undir orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar og hef fulla heimild til þess. (Gripið fram í: Í andsvari?) (LB: Tala við þriðja aðila?) Herra forseti. Mundir þú skera úr málinu?

(Forseti (GÁS): Hljóð í salnum. Hv. þm. hefur orðið.)

Ég fagnaði því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vildi koma til að ræða brýn mál í allshn. og tek þar með undir orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar vegna þess að við vitum öll mætavel hversu mörg mál liggja fyrir allshn. og við verðum að koma þeim áfram og ljúka þeim. Það eru almannahagsmunir.