Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:20:34 (5112)

1998-03-24 16:20:34# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., ÁE (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:20]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs áðan vegna andsvars hv. þm. Kristjáns Pálssonar þar sem hann svaraði gagnrýni minni á ummæli hans um það að minni hluti þingsins, eins og hann orðaði það, væri að beita fyrir sér minni hluta allshn. til að þvinga fram tiltekna starfshætti. Forseti úrskurðaði að ég gæti ekki borið af mér sakir fyrr en að loknum andsvörunum. Ég hlíti vitaskuld úrskurði forseta en vek samt athygli á því að hv. þm. Hjálmar Jónsson fór upp í andsvari við Kristján Pálsson til að endurtaka raunverulega röksemdir hv. þm. Kristjáns Pálssonar.

Herra forseti. Mér finnst að við séum e.t.v. komin eilítið út fyrir hefðbundin þingsköp varðandi það efni og bið forseta um að íhuga það mál.

Hins vegar nefndi hv. þm., og það er það sem ég vil gera að umtalsefni, að hv. efh.- og viðskn. hefði haldið sérstakan fund til að fara yfir mál sín. Það er vitaskuld rétt. Þau fundahöld voru haldin í fullu samráði við forseta þingsins. Efh.- og viðskn. dettur ekki í hug að halda aukafundi og hvað þá að fara í sérstakan dagsfund til að skoða mjög mikilvæg mál nema um það ríki bæði fullt samkomulag innan nefndarinnar og við forseta þingsins og þingflokksformenn. Það var vitaskuld í þessu tilfelli. Þetta eru góð vinnubrögð sem eru viðhöfð í efh.- og viðskn. og það eru góð vinnubrögð sem viðhöfð eru í allshn. Það er þessi ómálefnalega gagnrýni hv. þm. Kristjáns Pálssonar sem ég er að mótmæla, gagnrýni á hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur eða þá þegar hann er að draga inn í það minni hlutann í þingsölum.

Þetta er ósanngjarnt, herra forseti. Það eru engin rök fyrir þessu. Ef minni hlutinn vildi beita einhverjum slíkum aðferðum að tefja störf þá eru vitaskuld til þess leiðir. Við þekkjum það. Við höfum ekki beitt þeim. Við höfum verið í málefnalegri umræðu. Oft og tíðum er málefnaleg umræða nokkuð lengi. Það er eðli málsins þegar mönnum er heitt í hamsi en þetta voru ósanngjarnar ásakanir sem hv. þm. viðhafði gagnvart minni hluta hvort sem hann er í allshn. eða í efh.- og viðskn.