Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:23:45 (5114)

1998-03-24 16:23:45# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., KPál (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:23]

Kristján Pálsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst dálítið einkennilegt þegar þingmenn koma upp undir þeim lið að bera af sér sakir og eru í raun, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson gerði, að viðurkenna að hann hafi farið í ferð austur fyrir fjall með efh.- og viðskn. og sagði að það væri rétt eftir mér haft. Hv. þm. kallar það að bera af sér sakir. Ég geri athugasemd við það, hæstv. forseti, að það sé notað undir þessum þingskapalið að kalla þetta að bera af sér sakir eins og ég hafi borið á hann einhverjar ósannar dylgjur sem ég var að sjálfsögðu ekki að gera.

Hv. þm. kom inn á ómálefnalega gagnrýni. Margoft hefur sú gagnrýni verið hrakin sem komið hefur fram á minni hlutann.

(Forseti (GÁS): Forseti vill spyrja hvort það sé eitthvað fleira um störf fundarins sem hv. þm. vill ræða?)

Herra forseti. Ég kom upp til þess að ræða störf þingsins. Það var beðið sérstaklega um það að koma hingað upp til þess að ræða einhverjar sakir sem ég hefði borið á þingmann. Ég hefði talið, herra forseti, að forseti ætti að gera athugasemd við það að slíkt mál væri notað gegn þingmanni hér inni að tilefnislausu til að fara upp í ræðustól.