Vörugjald

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:36:00 (5120)

1998-03-24 16:36:00# 122. lþ. 93.14 fundur 347. mál: #A vörugjald# (álagning, eftirlit o.fl.) frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:36]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um breyting á lögum um vörugjald, með síðari breytingum. Þetta frv. var lagt fram fyrir áramót en hefur tafist í meðförum nefndarinnar en hún hefur nú afgreitt málið og gerir tillögu til breytinga á frv. í einum tíu liðum sem ég mun gera grein fyrir.

Þessar breytingar eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis en í frv. fjmrh. var gert ráð fyrir að framkvæmd gjaldsins færi til ríkisskattstjóra. Nefndin leggur til að þessu ákvæði frv. verði breytt. Þetta ákvæði kom fram í nokkrum greinum þess. Í stað þess verði gengið þannig frá að skattstjórar munu halda áfram að annast álagningu vörugjaldsins en hins vegar getur fjmrh. ákveðið að fela einstökum skattstjórum að annast eftirlit, framkvæmd og álagningu vörugjalds í öðrum skattumdæmum.

Þá er lagt til að við 9. gr. frv. bætist að tollskrárnúmer 8517.1901 falli brott en með þessu er lagt til að vörugjald verði fellt niður af rafeindasímtækjum sem bera nú 25% vörugjald.

Þá er loks lagt til að gildistöku verði breytt og miðað við 1. júní 1998.

Enn fremur vil ég geta þess, hæstv. forseti, að lagt er til að í lögunum verði skýrt kveðið á um heimild til sölu eða innflutnings á hráefni eða efnum án vörugjalds til innlendrar framleiðslu hvort sem um gjaldskylda eða ógjaldskylda framleiðsluvöru er að ræða og að uppgjörstímabil vörugjalds verði samræmt uppgjörstímabili virðisaukaskatts og gjalddagar verði þeir sömu og gjalddagar virðisaukaskatts vegna sölu á vöru og þjónustu hér á landi.

Hæstv. forseti. Öll nefndin ritar undir þetta nefndarálit og ég vona að þingheimur geti fallist á þær brtt. sem gerðar eru.