Afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:27:46 (5767)

1998-04-28 14:27:46# 122. lþ. 112.91 fundur 323#B afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:27]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Auðvitað átti málið að bíða. Rætt er um að eðlilega hafi verið staðið að málum. Auðvitað var frv. lesið, orð fyrir orð. Auðvitað voru allar umsagnir og brtt. lesnar og þeim fylgt úr hlaði. Þetta mál er umfangsmikið og þrátt fyrir svo og svo marga klukkutíma, þá er það ekki nægur tími eins og komið hefur fram hjá formanni félmn. Þá hefur húsnæðissamvinnufélagsfrv. sem varðar Búseta og fleiri orðið viðskila við þetta húsnæðisfrv. Af hverju er það? Það er af því að ekki gafst tími til að fara yfir það. Það er til skammar.

Þetta hefur tekið allan tíma nefndarinnar og við höfum setið daga og kvöld og varla komist í önnur mikilvæg mál eins og t.d. framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.

Eðlileg vinnubrögð hefðu verið að leggja þetta frv. fyrr fyrir þingið eða, eins og formaður félmn. hefur réttilega sagt, láta það liggja í sumar og reyna að ná sátt við þá þýðingarmiklu aðila sem lagst hafa heiftarlega gegn málinu.

Virðulegi forseti. Það er ekkert félagslegt við þetta frv. og þessi lög lengur. Málshefjandi nefndi 1. maí og spurði hvort það væri tilviljun að málið yrði rætt þann 30. apríl eins og önnur mál sem komið hafa frá félmrn. og varðað landsmenn. Ég ætla að svara fyrir mig: Það er ekki tilviljun vegna þess að þarna er verið að sýna hið mikla vald meiri hlutans stóra og hvernig maður gerir það sem maður vill, sama hvað pöpullinn segir.