Þingsályktunartillaga um setningu reglna um hvalaskoðun

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:34:32 (5772)

1998-04-28 14:34:32# 122. lþ. 112.92 fundur 324#B afgreiðsla nokkurra þingmannamála# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:34]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Sannleikurinn er sá að ég hef dregið það von úr viti að vekja athygli á því að snemma hausts lagði ég ásamt átta öðrum þingmönnum fram beiðni um skýrslu um launaþróun hjá ríkinu. Beiðnin byggðist á fullyrðingu sem kom fram í fjárlögunum og verður að skrifast á reikning fyrrv. fjmrh. sem situr nú í þingsal. En þar hélt hann því fram að staða kvenna hjá ríkinu hefði batnað allverulega.

Nú er það ekki aðalmálið hvort sú fullyrðing er rétt heldur hitt að margir mánuðir hafa liðið frá því að skýrslubeiðnin kom fram og enn bólar ekkert á svörum. Þetta er algjörlega óviðunandi og ég beini því til hæstv. forseta að þetta mál verði kannað og fjmrn. fái tiltal. Það er algjörlega ótækt að ráðuneytin skuli ekki skila skýrslum jafnvel þó að það kunni að vera um flókin mál að ræða. Hér er liðinn margfaldur tími miðað við það sem ætlast er til og ég ítreka að forseti kanni hvað veldur og hvort ekki sé von á svari áður en þingi verður slitið.