Úttekt á fjárhagsvanda Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 14:19:21 (1500)

1997-11-20 14:19:21# 122. lþ. 31.7 fundur 270. mál: #A úttekt á fjárhagsvanda Háskóla Íslands# þál., Flm. AK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[14:19]

Flm. (Arnþrúður Karlsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 339 um úttekt á fjárhagsvanda Háskóla Íslands og gerð áætlunar til stuðnings rannsókna- og vísindastarfsemi háskólans. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á fjárhagsvanda Háskóla Íslands. Jafnframt verði gerð a.m.k. fimm ára áætlun til stuðnings rannsókna- og vísindastarfsemi háskólans.``

Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni hafa forráðamenn Háskóla Íslands leitað til Alþingis og óskað eftir auknu fjárframlagi til handa háskólanum vegna verulegs fjárskorts sem hafi haft lamandi áhrif á starfsemi skólans undanfarið. Hafa menn af því verulegar áhyggjur að ekki verði unnt að halda úti eðlilegri skólastarfsemi ef ekki verði brugðist við hið fyrsta. Það er í raun óþarft að fjölyrða um slæm áhrif þess að stærsta háskólastofnun landsins búi við alvarlegan fjárskort.

Vissulega hafa margir þættir áhrif á þessa slæmu stöðu, t.d. samningsbundnar launahækkanir. Að mati forráðamanna háskólans stendur fjárskortur eftirfarandi þáttum fyrir þrifum svo sem kennslu í tölvunarfræðum, rannsóknanámi, bóka- og tímaritakaupum, endurmenntunarnámi og síðast en ekki síst sé erfitt að ráða til háskólans hæft starfsfólk vegna launakjara.

Í alþjóðasamhengi byggist samkeppnisstaðan á góðri menntun. Nýsköpun er gríðarleg á nánast öllum sviðum og hraðinn eftir því. Meðal annars þess vegna er kennsla í tölvunarfræðum mjög mikilvæg fyrir nútímaþjóðfélag. Við Háskóla Íslands eru þrjár kennarastöður í tölvunarfræðum en tveir kennarar af þremur eru í launalausu fríi og starfa úti á hinum frjálsa markaði eingöngu vegna þeirra launa sem í boði eru hjá háskólanum. Það gefur því auga leið að erfitt er að halda úti kennslu á þessu sviði ásamt því að tölvubúnaður hlýtur að kosta sitt.

Svipaða sögu er að segja um kennara í sjúkraþjálfun. Þar hafa verið lausar þrjár kennarastöður sl. 10 ár og þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar hefur ekki tekist að fá sjúkraþjálfara til kennslu sem uppfyllir tiltekin skilyrði eftir því sem fæst upplýst hjá háskólanum. Sú staðreynd að launakjör háskólakennara eru svo fráfælandi vegna harðnandi samkeppni úti á hinum almenna markaði er auðvitað háalvarlegt mál sem verður að bregðast við hið fyrsta. Það er þó sök sér ef fólk helst við hér innan lands en mun alvarlegri er sú staðreynd að fólk leitar út fyrir landsteinana í æ ríkara mæli og sest að erlendis beinlínis vegna launa og jafnframt vegna aðstöðuleysis hér.

Ásamt tölvunarnáminu er helsti vaxtarbrodur Háskóla Íslands endurmenntunarnámið við Endurmenntunarstofnun þar sem nú eru um 9 þúsund manns við nám á kvöldin. Þarna hefur orðið veruleg aukning eða um þúsund nemendur á ári allra síðustu árin. Þarna er um að ræða nám sem stendur yfir í tvær og upp í fimm annir og sýnir aðsóknin best þörfina fyrir símenntun en flestir nemendur, sem eru í þessu öldunganámi, eru í starfi að deginum til. Þetta segir manni líka það að þótt fólk hafi lokið hinu hefðbundna háskólanámi, þá dugir það e.t.v. ekki nema í 10 ár og fólk á það á hættu að staðna í tilteknu fagi því heimsumhverfið er stöðugum breytingum undirorpið svo sem ljóst er.

Aukinn nemendafjöldi við Háskóla Íslands hlýtur að kalla á aukið fjármagn. Í dagskólanum eru nú um 5.700 manns og 9 þúsund manns í öldunganámi eins og ég sagði áðan. Þetta kallar á aukin kaup á tækjum og ekki hvað síst bókum og tímaritum en á því sviði mun vera verulegur skortur.

Nemendur búa við þær aðstæður að stöðugt fleiri námskeið þarf að fella saman vegna aðstöðuleysis og gerir það kennsluna ekki eins markvissa. Skortur á fjármagni gerir það líka að verkum að námsframboð verður af skornum skammti og gerir nemendum erfitt fyrir um val að skyldunámskeiðum loknum.

Í greinargerðinni með tillögunni er þess einnig getið að gerð verði a.m.k. fimm ára áætlun til stuðnings rannsókna- og vísindastarfsemi háskólans. Það er svo að háskólanám tekur almennt þrjú til sex ár og ekki er hægt að vísa nemendum frá ef þeir á annað borð eru komnir inn. Þess vegna er mjög mikilvægt að náms- og starfsumhverfið sé með þeim hætti að þar ríki stöðugleiki og bæði nemendur og kennarar viti með vissu hvers sé að vænta og auðvitað er mjög slæmt að breyta áætlunum með tilliti til þessa. Í þessu tilliti er vert að nefna rannsóknanámið sérstaklega, en eins og staðan er í dag þurfa flestir að fara utan ef þeir hyggja á framhaldsháskólamenntun svo sem doktorsnám.

Í greinargerðinni vitna ég einnig til skýrslu OECD, með leyfi forseta, sem byggir á tölum frá Hagsýslu ríkisins en vert er að hafa í huga að skýrslan sem mun vera sú nýjasta er frá árinu 1993. Bæði hæstv. núv. og fyrrv. menntmrh. hafa ýmislegt gert til að breyta þeirri slæmu stöðu sem við vorum í þá þegar Íslendingar vörðu aðeins 0,7% af þjóðartekjum til háskólamenntunar miðað við 2,5% hjá Bandaríkjamönnum. Þar skipum við okkur á bekk með Tyrkjum, Japönum, Hollendingum og Ítölum en auðvitað hefði verið eðlilegra að við stæðum jafnfætis í menntun í þeim löndum sem við gjarnan sækjum framhaldsnám til, svo sem hinna Norðurlandanna, Bretlands og Bandaríkjanna. Vissulega er ég að miða við milljónaþjóðfélög og þar af leiðandi er kannski ekki ástæða til að ætla að við getum komið okkur upp jafnfyrirferðarmiklu háskólakerfi og þar er, en það er ljóst að við getum lagað stöðuna verulega svo að við verðum samkeppnisfær. Það eiga að vera til fjármunir til þess að gera þetta. Við erum mjög ofarlega á skalanum yfir ríkustu þjóðir heims og við erum alveg örugglega hamingjusamasta þjóð heims þannig að í mínum huga er þetta aðeins spurning um pólitískan vilja.

Ég vænti þess að hæstv. menntmrh. bregðist skjótt við fjárhagsvanda Háskóla Íslands og leiti leiða til þess að mið verði tekið af launaþróun utan háskólans til þess að koma í veg fyrir flótta kennara frá skólanum og ljóst er að það verður að finna lausn á þessum vanda og því er tillagan lögð fram.

Ég hins vegar vil að endingu vara við því að lausnin verði fundin með því að setja á sérstök skólagjöld á nemendur við Háskóla Íslands. Ég vísa þessari tillögu til hv. menntmn.