Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:03:10 (2474)

1997-12-17 10:03:10# 122. lþ. 45.92 fundur 141#B rafmagnseftirlit# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:03]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég hef óskað eftir utandagskrárumræðu um rafmagnseftirlit í landinu og geri það eftir að hafa leitað mér upplýsinga um þau mál um nokkurt skeið, þar á meðal aflað skriflegra gagna frá viðskrn. sem fer með þennan málaflokk. Við þessa athugun hef ég sannfærst um að eftir að ragmagnseftirlitið var einkavætt eru öryggismál sem tengjast rafbúnaði í svo miklum molum, í slíkum lamasessi, að það er orðinn ábyrgðarhluti að þegja um þessi mál. Ég hef leitað eftir áliti fjölda manna sem starfa við rafmagnsmál, forvarnir, eldvarnir og tryggingar og er þar flest á einn veg. Ástandið er algerlega óviðunandi og fer versnandi.

Í lok síðustu viku birtist í Degi ítarleg grein eftir fyrrv. umdæmiseftirlitsmann á Austurlandi með mjög alvarlegum varnaðarorðum undir fyrirsögninni: ,,Eldvarna- og slysavarnamál einkavædd.`` Í þessari blaðagrein er skorað á þingmenn að fara í saumana á þessum málum og knýja fram úrbætur.

Þegar Alþingi samþykkti lög fyrir réttu ári sem kváðu á um að einkavæða rafmagnseftirlitið var bundinn endahnútur á skipulagsbreytingar sem hófust fyrir nokkrum árum. Áður hafði eftirlitið verið í höndum Rafmagnseftirlits ríkisins, en rafveiturnar önnuðust eftirlit á sínum svæðum. Þá voru öll hús, öll fyrirtæki og allar nýjar veitur skoðaðar og engar undantekningar gerðar þar á. Hugsunin á bak við einkavæðinguna er í grófum dráttum þessi: Opinberri stofnun, Löggildingarstofu, er falið að setja rafverktökum strangar starfsreglur sem þannig hafi eftirlit með sjálfum sér. Til að tryggja að þeir geri það skal framkvæma úrtaksskoðanir, a.m.k. 10% af nýjum veitum skulu skoðaðar. Og það annast einkareknar skoðunarstofur. Ef þær sjá eitthvað ábótavant í starfi rafverktakans senda þær honum athugasemdir, en sé um gamla veitu að ræða fær viðkomandi eigandi athugasemdirnar sem síðan fær rafverktaka til að framkvæma nauðsynlegar breytingar eða viðgerðir. Að sjálfsögðu er hugmyndin sú að því sé fylgt eftir að viðgerð fari fram. Það var alla vega hugmyndin. Hugmyndin var líka sú að þetta ætti að bæta rafmagnseftirlit í landinu og að sjálfsögðu átti þetta allt að verða ódýrara og hagkvæmara. En veruleikinn hefur síðan reynst allt annar. Þetta er dýrt kerfi, kerfi sem bruðlar með skattpeninga og það sem verra er, örygginu hrakar og það meira að segja miklu meira og miklu hraðar en jafnvel svartsýnustu menn höfðu spáð. Ég ætla að nefna dæmi úr veruleikanum.

Eigandi í fjölbýlishúsi lendir í úrtaksskoðun Löggildingarstofu. Skoðunarstofa sendir menn á vettvang sem sjá að rafmagnstafla íbúðarinnar er úr sér gengin og ólögleg. Eigandanum er tilkynnt þetta. Hann fær rafverktaka til að breyta töflunni þannig að hún standist öryggiskröfu. En svo háttar til að þessi tafla er á stigagangi og tvískipt. Hluti töflunnar tilheyrir annarri íbúð og sú íbúð hafði ekki lent í úrtaksskoðun. Þetta gerðist fyrir nokkru síðan. Svo vill til að ég hafði tök á að kynna mér eftirleikinn. Og hver skyldi hann hafa verið? Helmingur töflunnar er nú löglegur en hinn helmingurinn er enn ólögleg úrsérgengin trétafla. En hvað hefði gerst ef ekki hefði verið gert við töfluna sem skoðunarstofan hafði úrskurðað ólöglega? Sennilega ekkert, því rafverktakanum var ekki gert að tilkynna viðgerðina og við eigandann hefur enn ekki verið talað eftir því sem ég best veit. Og ekki veit ég hver hefði átt að gera það, en eitt er víst að viðkomandi skoðunarstofa hefur ekkert gert til þess að fylgjast með því hvort viðgerðin hafi farið fram.

Víkjum þá að kostnaðarhlið þessa máls. Nýlega fór ég fram á skriflegar upplýsingar hjá viðskrh. um tilkostnaðinn við rafmagnseftirlitið og slíkt hið sama gerði hv. þm. Gísli Einarsson. Í svörum ráðherra er vitnað í útreikninga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 1992 þar sem áætlað er að allur rafmagnseftirlitskostnaður í landinu hafi þá numið 240 millj. kr. Áætlaður kostnaður við nýtt fyrirkomulag sé hins vegar 115 milljónir, segir ráðherra í svari sínu. Sú tala er reyndar úrelt vegna þess að samkvæmt þeim tölum sem liggja núna frammi við fjárlagaumræðuna er hún komin upp í 131 milljón. Þar af fara rúmlega 82 milljónir til skoðunarstofanna vegna yfireftirlits og úrtaksskoðana og 25 milljónir vegna skoðunar á eftirlitsskyldum rafföngum. En, eins og reyndar kemur fram í svari ráðherra, þá eru þetta ekki sambærilegar tölur, annars vegar frá Sambandi íslenskra rafveitna og þær sem nú eru uppi vegna þess að við erum að bera saman mjög ólík kerfi. Tilkostnaðurinn nú hvílir meira á notandanum sjálfum en áður var. Ef menn lenda ekki í úrtaksskoðun en óska eftir athugun á rafmagnsmálum sínum þá verða menn að greiða það sjálfir. Í öðru lagi er hér um vanáætlun til frambúðar að ræða. Ef það á annað borð er ætlunin að hafa virkt rafmagnseftirlit í landinu þá er framtíðin ekki sú að gera Löggildingarstofuna að fjársveltri vinnumiðlun fyrir rándýrar skoðunarstofur.

Tilkostnaður við skoðun hverrar einingar hefur stóraukist. Í fyrrnefndri blaðagrein Sveinbjörns Guðmundssonar, fyrrv. umdæmiseftirlitsmanns á Austurlandi, nefnir hann að fimm daga skoðunarferð eins manns á Austurland hafi kostað rúmlega 956 þús. kr. og aðra dagsferð nefnir hann sem kostað hafi 111 þús. kr. Og hver borgar? Að sjálfsögðu er það enginn annar en skattborgarinn sem borgar þetta. (Forseti hringir.) Þetta er að sjálfsögðu óviðunandi með öllu en spurningin er þessi: Er hæstv. ráðherra kunnugt um hvernig rafmagnseftirliti í landinu er komið og hvað ætlar hann að gera? Fyrir ári, þegar þessi lög voru samþykkt hér á þingi, sagði hann að þau ættu að verða til þess að bæta rafmagnseftirlit í landinu. Þau hafa ekki gert það. Er ráðherra kunnugt um hve alvarlegt ástandið er og hvað ætlar hann að gera í málinu?