Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:37:04 (2483)

1997-12-17 10:37:04# 122. lþ. 45.1 fundur 282. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:37]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég tel að alla jafnréttisbaráttu kynjanna þurfi að hugsa upp á nýtt. Aukið jafnrétti má aldrei bitna á börnum landsins eins og það hefur gert. Jafnréttisbarátta er einskis virði þangað til hlutur foreldra í uppeldi nýrra kynslóða verður virtur að fullu sem þáttur í starfsævi þeirra og þá ekki síst kvenna. Eins og er vinnur allt þjóðfélagið gegn velferð ungra barna og gerir alla jafnréttisbaráttu óraunhæfa og orðin tóm. Það bjargar engu þótt jafnmargar konur séu í ráðum og nefndum og karlar. Það sem skiptir máli er að karlar sem konur geti átt auðugt líf og góða starfsævi á sama tíma og þau geta alið börnin sín upp þannig að sómi sé að og þá ekki síður e.t.v. sinnt hinum öldruðu (Forseti hringir.) og sjúku sem einnig hafa orðið úti í þessari baráttu.