Fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:55:35 (2492)

1997-12-17 10:55:35# 122. lþ. 45.2 fundur 317. mál: #A fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta er nú kannski frekar spursmál um vinnubrögð. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði: Hvenær kemur dagurinn? Ég ætla ekki að nefna dagsetningar, en ég vil þó segja það hér að ég mun gera þetta áður en ég fer úr félmrn. fyrir næstu kosningar. Ég er að vísu ekki að segja að ég ætli ekki að vera þar eftir næstu kosningar. (ÖS: Þú varst víst að því.) En ef guð lofar þá gæti vel farið svo. En ég hef ekki tryggan vinnustað þar nema til næstu kosninga og þá ætla ég að vera búinn að koma þessu í verk.

Varðandi það að VSÍ sé á móti því að fullgilda þessa alþjóðasamþykkt, þá met ég það ekki svo. Mér finnst afstaða þeirra fremur vera tregða, það sé óþarfi og ég vil yfirvinna þessa tregðu ef unnt er. Ég vil ekkert fara og fer aldrei í slag nema tilneyddur. Ég held að árangur náist ekki nema báðir aðilar séu sæmilega sáttir og geti unað við.

Þetta með tilgreiningu uppsagnar eða upplýsingaskyldu um uppsögn getur verið dálítið tvíeggjað vopn. Það geta verið þær ástæður fyrir uppsögninni að ástæðan verði þeim sem sagt er upp til byrði til frambúðar í lífinu. Barnið getur vaxið og fengið heilsu og fjölskylduaðstæður geta breyst. En það geta verið þær aðstæður fyrir uppsögn að betra sé fyrir viðkomandi sem rekinn er úr starfi eða sagt er upp starfi að hann sé ekki brennimerktur með því til lífstíðar.