Starfsumhverfi og framtíðarmöguleikar fiskvinnslunnar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:52:57 (2520)

1997-12-17 11:52:57# 122. lþ. 45.6 fundur 326. mál: #A starfsumhverfi og framtíðarmöguleikar fiskvinnslunnar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:52]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin og fagna þeim skrefum sem verið er að stíga í átt til menntunar á sviði sjávarútvegs. Ég tel að þetta séu afskaplega mikilvæg og dýrmæt skref fyrir hagsmuni þjóðarinnar. Ég tel enn fremur að í svari hæstv. ráðherra, sem kemur reyndar fram í tillögum frá þeirri nefnd er ég gat um áðan, komi fram viðhorfsbreyting til menntunar á þessu sviði. Það er líklega grundvallaratriðið og ég get tekið undir þau sjónarmið sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir kynnti um áhrif fiskvinnsluskólans í upphafi. En því miður hefur heldur hallað undan fæti fyrir þeim mæta skóla.

Ég ítreka það sjónarmið mitt að mikilvægt sé að taka á þessum málum vegna tæknivæðingar og nýsköpunar, vegna möguleika á því að efla verðmæti úr þessari mikilvægu stóriðju okkar Íslendinga sem sjávarútvegurinn er. Þar liggja verðmætin.

En herra forseti. Ástæður fyrirspurnar minnar voru þær að ég óttaðist nokkurs konar tómarúm. Ég tel þó að hæstv. ráðherra hafi með svari sínu heldur róað mig en ég vek athygli á því að stjórnsýslulega heyrir starfsmenntun undir fjölmörg ráðuneyti, sjávarútvegur að nokkru leyti undir sjútvrn., ferðamál undir samgönguráð, póst- og símamenntun undir samgrn. og þannig má áfram telja. Ég tel óeðlilegt að menntmrn. skuli ekki fara með forsjá í þessum málum til þess einmitt að einhvers staðar á einum stað sé heildarsýn yfir alla starfsmenntun í landi okkar. Nú veit ég ekki hvort það er hæstv. sjútvrh. að svara því hvort hann geti deilt þeirri skoðun með mér að þetta skuli færast á eitt ráðuneyti.