Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 10:34:20 (2894)

1997-12-20 10:34:20# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:34]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Margir gestir komu á fund nefndarinnar og ég spurði þessarar ágætu spurningar um ímynduð samskipti mín og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem var orðinn atvinnurekandi og bisnissmaður í huganum. Svörin sem ég fékk voru yfirleitt á þá lund að ég sem launþegi mætti velja mér lífeyrissjóð. En það var ein og ein rödd sem sagðist skilja þetta öðruvísi og ég hef lagt fram brtt. við þetta ákvæði vegna þessarar raddar sem skildi þetta öðruvísi. Ég vildi hafa þetta á hreinu. Alþingi Íslendinga á að sjálfsögðu að vanda sig við að setja lög þannig að þau leiði ekki til málaferla.

Varðandi spurningu hv. þm. um það hvort þetta bryti niður verkalýðshreyfinguna þá getur það að sjálfsögðu átt sér stað nema menn sjái sér hag í því hjá verkalýðshreyfingunni og þannig á það líka að vera, hv. þm. Menn eiga að vera í verkalýðsfélagi ef þeir sjá sér hag í því en ekki vegna þess að þeir eru skyldaðir til þess. Ég reikna með því að verkalýðshreyfingin hafi eitthvað hlutverk. Ég býst við því og að menn muni vilja ganga í verkalýðshreyfinguna óþvingað og vilji ganga í þá lífeyrissjóði sem verkalýðshreyfingin rekur vegna þess að þeir séu samkeppnishæfir, hv. þm. Að sjálfsögðu er mjög auðvelt að stofna lífeyrissjóð og við hv. þm. Gunnlaugur J. Sigmundsson gætum stofnað lífeyrissjóð strax og þessi lög verða sett, sama dag, og byrjað að keppa við Lífeyrissjóð verslunarmanna.